Ferðamenn Í vikunni opnast fyrir ferðalög milli Kína og Íslands.
Ferðamenn Í vikunni opnast fyrir ferðalög milli Kína og Íslands. — Morgunblaðið/Eggert
Kínverjar opna á ný fyrir ferðalög til landsins frá og með 15. mars nk. Ísland er þar með eitt 40 ríkja í heiminum sem Kínverjum verður heimilt að ferðast til eftir að Covid-19 skall á og þar sem landamærunum var lokað

Hörður Vilberg Lárusson

hordur@mbl.is

Kínverjar opna á ný fyrir ferðalög til landsins frá og með 15. mars nk. Ísland er þar með eitt 40 ríkja í heiminum sem Kínverjum verður heimilt að ferðast til eftir að Covid-19 skall á og þar sem landamærunum var lokað.

Ísland er eitt fárra ríkja á listanum þar sem ekki er beint flug til og frá Kína. Flestir koma til landsins í gegnum Helsinki og London.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir kínverska ferðamenn mikilvæga þrátt fyrir að fjöldi þeirra sé ekki stór hluti af heildarfjölda þeirra gesta sem sækja landið heim. Þeir komi að stærstum hluta utan háannatíma, á haustin og vorin en einnig yfir veturinn.

Árið 2019 voru kínverskir ferðamenn um 130 þúsund og hafði fjölgað hratt á árunum á undan. Hugmyndir voru uppi fyrir faraldurinn um að koma á beinu flugi milli ríkjanna en það hefur ekki enn gengið eftir.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að byggja þennan markað upp aftur. Við verðum síðan að sjá hver þróunin verður. Við höfum séð ákveðinn afkastavanda á ýmsum sviðum í greininni hér innanlands. Eftirspurnin í ár er enn meiri en hún var í fyrra þannig að það má búast við því að það verði áfram. Það verður svo að horfa til þess hversu hratt Asíumarkaðurinn mun koma inn aftur og Kína þá sérstaklega,“ segir Jóhannes Þór við Morgunblaðið.

Verði vöxturinn hraður þurfi að bregast við með uppbyggingu að mati Jóhannesar sem segir gott að markaðurinn sé að opnast og ferðalög í heiminum að komast í eðlilegt horf.

Hin löndin á lista Kínverja eru Nepal, Brúnei, Víetnam, Mongólía, Íran, Jórdanía, Tansanía, Namibía, Máritíus, Simbabve, Úganda, Sambia, Senegal, Kasakstan, Úsbekistan, Georgía, Aserbaídsjan, Armenía, Serbía, Króatía, Frakkland, Grikkland, Spánn, Albanía, Ítalía, Danmörk, Portúgal, Slóvenía, Vanúatú, Tonga, Samóa, Brasilía, Síle, Úrugvæ, Panama, Dóminíska lýðveldið, El Salvador, Bahama-eyjar og Samveldið Dóminíka.

Höf.: Hörður Vilberg Lárusson