Evrópuráðið Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins sat fund í Hörpu í Reykjavík í nóvember sl. Leiðtogafundur ráðsins verður hér á landi í maí.
Evrópuráðið Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins sat fund í Hörpu í Reykjavík í nóvember sl. Leiðtogafundur ráðsins verður hér á landi í maí. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Andrés Magnússon andres@mbl.is Forsætisráðuneytið gerði mistök við gerð auglýsingar á starfi tímabundins verkefnisstjóra í alþjóðamálum í nóvember síðastliðnum, sem varð þess valdandi að auglýsingin var afturkölluð og starfið auglýst að nýju nokkrum dögum síðar. Þá hafði verið slakað talsvert á hæfniskröfum og óveruleg breyting gerð á starfslýsingu, en á hinn bóginn var þar ekki lengur gefinn kostur á framlengingu í starfi eftir þá sex mánuði, sem verkefnisstjórinn skal starfa.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Forsætisráðuneytið gerði mistök við gerð auglýsingar á starfi tímabundins verkefnisstjóra í alþjóðamálum í nóvember síðastliðnum, sem varð þess valdandi að auglýsingin var afturkölluð og starfið auglýst að nýju nokkrum dögum síðar. Þá hafði verið slakað talsvert á hæfniskröfum og óveruleg breyting gerð á starfslýsingu, en á hinn bóginn var þar ekki lengur gefinn kostur á framlengingu í starfi eftir þá sex mánuði, sem verkefnisstjórinn skal starfa.

Staða verkefnisstjóra í alþjóðamálum snýr að málefnum er tengjast formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins (nóvember 2022 til maí 2023) og er hann tengiliður forsætisráðuneytisins við utanríkisráðuneytið, sem ber ábyrgð á framkvæmd og skipulagi fyrirhugaðs leiðtogafundar Evrópuráðsins hér á landi 16. og 17. maí nk. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, var ráðin í stöðuna í liðnum mánuði, en hún var formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins 2017-2021.

Að sögn Sighvats Arnmundssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, var ekki notast við réttar hæfniskröfur miðað við eðli og umfang starfsins í fyrri auglýsingu um starfið, sem birt var 22. nóvember sl. „Var þar einfaldlega um mistök að ræða.“

31 sótti um stöðuna

Níu umsóknir bárust frá því fyrri auglýsingin var birt og þar til hún var afturkölluð, en eftir að seinni auglýsingin var birt sótti 31 um. Það voru:

Alexandra Dögg Steinþórsdóttir, Anna Margrét Björnsdóttir, Arnór Daði Aðalsteinsson, Ásdís Björk Gunnarsdóttir, Ásgeir Marinó Rudolfsson, Bjarni Þór Kristjánsson, Björg Erlingsdóttir, Elín Hirst, Gabriele Satrauskaite, Hannes Þ. Hafstein Þorvaldsson, Harpa Hrönn Frankelsdóttir, Heiðar Snær Jónasson, Helga Hafliðadóttir, Ingunn Ósk Magnúsdóttir, Jóhann Halldór Sigurðsson, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Kamela Rún Sigurðardóttir, Kolfinna Tómasdóttir, Kristian Guttesen, Kristinn Valdimarsson, Lára Jónasdóttir, Magnús Hallur Jónsson, Margrét Hildur Pétursdóttir, Mæva Marlene Urbschat, Nazima Kristín Tamimi, Ómar Mehmet Annisius, Ragnar Sigurður Kristjánsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þorsteinn Hrannar Svavarsson, Þórgunnur Anna Ingimundardóttir, Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir.

Pólitískar ráðningar ekki óþekktar

Sighvatur segir að sérstakar fréttatilkynningar á vef stjórnarráðsins um ráðningar í störf hjá ráðuneytum séu fyrst og fremst bundnar við skipun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, þótt á því séu einhverjar undantekningar. Þar hefur undanfarin misseri verið getið um ráðningar aðstoðarfólks af ýmsu tagi, bæði varanlegar og tímabundnar, afmörkuð verkefni og almennari.

Þar á meðal er fólk sem setið hefur á þingi fyrir stjórnarflokkana, svo sem Dagný Jónsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Halla Gunnarsdóttir fyrir Vinstri græn og Teitur Björn Einarsson fyrir Sjálfstæðisflokk. Einnig má nefna fólk sem setið hefur á Alþingi fyrir stjórnarandstöðuflokka, eins og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir Samfylkingu, að því ógleymdu að ráðuneytisstjórinn Bryndís Hlöðversdóttir sat á þingi fyrir bæði Alþýðubandalagið og Samfylkingu.