En hvað það var skrýtið, kvæði Páls J. Árdals, hefur glatt kynslóðir þrátt fyrir óhugnað og þessi skemmtilega bók hefur margoft verið endurútgefin.
En hvað það var skrýtið, kvæði Páls J. Árdals, hefur glatt kynslóðir þrátt fyrir óhugnað og þessi skemmtilega bók hefur margoft verið endurútgefin.
Fletjum ekki út mergjaðan texta til að gera hann meinlausan og hversdagslegan.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það hafa aldrei þótt meðmæli með þjóðfélagi að þar sé stunduð ritskoðun á bókum. Samt tíðkast það nú í samfélögum sem í sjálfumgleði kenna sig við umburðarlyndi og víðsýni. Það á við ritskoðun eins og margt annað að best þykir víst að byrja snemma, sem sagt á bókum sem börn lesa. Þannig má beita ýmsum brögðum til að gera bækur sem þykja geyma vafasaman boðskap óaðgengilegar eða hreinlega endurskrifa þær.

Eins og frægt er orðið var farið að krukka allrækilega í texta í bókum Roalds Dahls og færa hann til betri vegar til að fyrirbyggja að saklaus og viðkvæm börn kæmust í uppnám við lestur bóka hans og tekin út orð eins og til dæmis „feitur“ og „ljótur“.

Dahl var ekki fágaður höfundur, grófleiki og ýkjur einkenna barnabækur hans. Þar eru iðulega ill öfl að verki, oft í líki fullorðinna sem eru ekki beinlínis bestu vinir barnanna. Einhverjum finnst örugglega auðvelt að finna að því, en börn hafa flest yndi af sögum hans því þar eru börn eins og þau sjálf sannar hetjur og þurfa að hafa fyrir sínu í ansi grimmum heimi, en standa að lokum uppi sem sigurvegarar. Ungir lestrarhestar reka ekki upp hneykslunaróp ef níu ára drengur í Kalla og sælgætisgerðinni eftir Dahl er sagður vera gríðarlega feitur. Líklegra er að börnin komist að þeirri niðurstöðu að það sé líklega ekki mjög skynsamlegt að úða í sig sælgæti öllum stundum. Og meðal annarra orða, er ekki eitthvað verulega öfugsnúið við það að ritskoða orðið „feitur“ í samfélögum þar sem offita er orðin að alvarlegu heilsuvandamáli?

Svo er það ljótleikinn, veit einhver um ungan lesanda sem kemst í tilfinningalegt uppnám ef persóna í bók er sögð vera ljót? Hvers konar pempíuskapur er eiginlega hér á ferð? Ef það á að vernda börn fyrir lýsingum á útliti og innræti persóna í barnabókum þá er árangursríkasta leiðin sennilega sú að halda þeim frá bókum. Bókmenntasagan er nefnilega sneisafull af útlitslýsingum, þar er til dæmis talað um fólk sem er eins og hrífuskaft í laginu eða er akfeitt. Sumir eru meira að segja líka þannig í raunveruleikanum.

Í barnabókum, ekki bara barnabókum Dahls, er fullt af vondu fólki (og stundum líka mjög ljótu). Tökum til dæmis ömmuna í hinu fjöruga kvæði Páls J. Árdals, En hvað það var skrýtið. Þessi amma er eitt best falda og um leið ísmeygilegasta illmenni sem fyrirfinnst í barnabókamenningu þjóðarinnar. Hún gæti hæglega verið sköpuð af Roald Dahl. Við erum vön því að ömmur séu góðar en hér er gömul kona sem hæðir og hræðir litla saklausa stúlku og ætlar svo að sækja vöndinn og hýða þetta barnabarn sitt, sem ætti að vera yndi hennar í ellinni. Í kvæðinu kemur fram að þessi litla stúlka hefur áður verið hýdd svo undan blæddi. Blessað barnið leggur vitanlega á flótta undan ömmu og vendinum.

Reyndar, til að sýna ömmunni sanngirni, skal þess getið að hún sér fljótlega að sér, verður sæt og ósköp góð og stingur kandísbita upp í munn litlu stúlkunnar – en samt, þetta er ekki amma sem hægt er að treysta, til þess er hún of mislynd. Það gerir hana mjög ógnvænlega en um leið verulega spennandi.

Í kynningartexta með endurútgáfu á bókinni árið 2007 segir: „Íslensk börn hafa um áratugaskeið orðið hugfangin af þessu skemmtilega kvæði ...“ Já, kvæðið er vissulega bráðfjörugt og skemmtilegt en hér skal fullyrt að bókelskt barn sem les kvæðið í fyrsta sinn mun fyllast miklum óhug. En það er nú einu sinni svo að stundum felst skemmtun í óhugnaðinum. Það vita börnin mætavel enda vita þau sannarlega sínu viti. Það er engin tilviljun að þau hafa sótt í En hvað það var skrýtið.

Leyfum börnunum að lesa og bönnum þeim það ekki. Fletjum ekki út mergjaðan texta til að gera hann meinlausan og hversdagslegan. Hættum umfram allt að þefa uppi, eins og sporhundar, allt það sem hugsanlega kann að flokkast sem eitthvað vafasamt í bókum. Látum snarlega af hinum leiða tepruskap.