Surtur er sagður sitja til landvarnar í Múspellsheimi með logandi sverð í hendi. Hann mölvaði líka Bifröst og banaði Frey.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Knattspyrnufélag Magnúsar Finnssonar (KMF), sem starfrækt hefur verið hér á Morgunblaðinu frá árinu 1976, hefur verið duglegt að fara í keppnisferðir, þannig lagað séð. Fyrir mína tíð var farið í fræga ferð til Færeyja undir forystu Árna Johnsens, sem menn eru enn þá að rifja upp, bjarteygir og brosandi. Ég minnist þess þó ekki að hafa heyrt talað um úrslit leikja. Laust fyrir aldamót fór KMF einnig í tvær ógleymanlegar keppnisferðir á Litla-Hraun og löngu tímabært að endurnýja kynnin við FC Hrotta. Áður en heimsfaraldurinn skall á okkur fór félagið svo í tvígang til Lundúna og tók þátt í firnasterku móti í heimsborginni og hafði a.m.k. sigur í annað skiptið. Þangað sigldu menn vopnaðir skjaldarmerki félagsins og slagorðinu – Eitt félag til ábyrgðar!

Enn ætlar KMF að leggjast í keppnisferðalag og með fullri virðingu fyrir þeim stöðum sem hér hafa verið nefndir er skónum nú stefnt á sérstaklega áhugaverðar slóðir, til Múspellsheims, þar sem við komum til með að etja kappi við eldjötuninn Surt og þá Múspellssyni. Strangt til tekið kemst enginn þangað nema að vera af þeim heimi en við erum að leita að leið fram hjá því vandamáli. KMF býr að óvenjulega vel tengdum og úrræðagóðum mönnum sem munu án efa leggja sig alla fram. Góð ráð eru að sjálfsögðu líka vel þegin frá ykkur, lesendur góðir.

Surtur er sagður sitja til landvarnar í Múspellsheimi með logandi sverð í hendi. Hann mölvaði líka Bifröst og banaði Frey, svo eitthvað sé þulið upp af ferilskrá kappans. Þannig að máli skiptir að sækja vel að honum. Sem frægt er kom Surtur að sunnan en ekki austan eins og flestir frændur hans í norrænum goðsögum enda er hann persónugervingur eldsins. Til allrar hamingju er Surtur ekki persóna úr sögu eftir Roald Dahl, þá héti hann ábyggilega núna Guðmundur eða Jón. En það er auðvitað allt önnur saga.

Múspellsheimur er auðvitað miklu eldri en jörðin og fyrir vikið er ekki ólíklegt að jarðfræðingar og aðrir vísindamenn af þessum heimi hafi áhuga á að nýta sér ferðina. Þið sjáið netfangið mitt hér að ofan.

Eins og menn þekkja er funheitt í Múspellsheimi og því nóg að pakka léttum bol og stuttbuxum og svo auðvitað gamla góða keppnisskapinu, legghlífunum og kælispreyinu. Það er ábyggilega ekkert grín að nudda saman leggjum við eldjötna. Pælingin er að borða nesti á leiðinni í miðju Ginnungagapi, þar sem jörðin var smíðuð forðum daga. Hver og einn leikmaður kemur með smurt að heiman en KMF skaffar drykkina.

Þið fáið pottþétt að heyra ferðasöguna síðar.