Björn Magnússon fæddist 18. september 1966 í Óðinsvéum i Danmörku. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Ålesund i Noregi 27. janúar 2023.

Foreldrar Björns eru Magnús Gústafsson, f. 1941, og Margrét S. Pálsdóttir, f. 1941. Systkini Björns eru Sigfús, f. 1968, d. 1970; Einar, f. 1970, eiginkona hans er Áslaug Jónsdóttir, f. 1967; Jórunn, f. 1972, eiginmaður hennar er Haukur Þór Bragason, f. 1969.

Hálfsystir Björns er Birna, f. 1995, dóttir Magnúsar og seinni konu hans, Eddu Birnu Gustafsson, f. 1958. Eiginmaður Birnu er Viktor Snær Sveinbjörnsson, f. 1993.

Börn Björns og Dagbjartar Óskar Steindórsdóttur, f. 1968, eru Árni Guðjón, f. 1986, Magnús Már, f. 1989, d. 1991, Sigfús Már, f. 1991, og Jórunn Sóley, f. 1993. Sambýlismaður hennar er Jan Henrik Remme, f. 1986. Björn og Dagbjört skildu.

Seinni kona Björns er Antonía Escobar Bueno, f. 1967, og eru börn hennar Aron Logi Escobar, f. 1992, og Íris Fríða Escobar Eggertsdóttir, f. 1986.

Björn lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri, framhaldsskólaprófi fra King‘s School i Stamford, Connecticut, vélstjóraprófi frá Vélskóla Íslands og útskrifaðist einnig sem rafvirki. Hann stundaði um tíma nám í verkfræði við Háskólann í Bridgeport i Connecticut og Háskóla Íslands, auk þess sem hann lauk nokkrum rekstrarfræðinámskeiðum við Háskólann á Bifröst. Björn starfaði í Hampiðjunni um árabil. Hann var einnig til sjós, aðallega á Þerneynni í nokkur ár, starfaði hjá vélsmiðju Einars Guðbrandssonar, réðist svo til Framfoods í Keflavik, vann hjá Marorku og starfaði síðastliðinn áratug sem rafvirki í Ålesund i Noregi.

Bálför fór fram í kyrrþey í Ålesund 9. febrúar 2023.

Elsku pabbi. Þú hefur aldrei þolað mikla væmni svo ég ætla að reyna eftir bestu getu að halda þessu á hressu nótunum. Ég kemst samt ekki hjá því að verða svolítið meyr og væmin þegar ég hugsa til þín.

Það er auðvelt að lýsa þér: Ótrúlega fyndinn, skemmtilegur, hlýr og svolítið fyrirferðamikill og stór karakter.

Með því einu að hreyfa þig, tókst þér óvart að brjóta stóla og glös. Þú sagðir alltaf við okkur hin, að við hlytum nú að hafa efni á almennilegum mublum sem þyldu netta og fyrirferðarlitla karla eins og þig. Sama sagðir þú um hurðarhúna sem þú festist í á leið þinni fram hjá þeim - þú rakst ekki í hurðarhúnana, heldur teygðu þeir sig á eftir þér og hrifsuðu þig til sín!

Það er óhjákvæmilegt að nefna mat í sömu setningu og þig. Fyrir þér var matur meira en bara fæða. Matur var gæðatími, samvera, afslöppun og upplifun. Mikið af minni undirstöðuþekkingu í eldamennsku lærði ég af þér. Þú kenndir mér að beita kokkahníf og sýndir mér hvernig á að skera lauk í fullkomna mirepoix-teninga. Þú sagðir mér að það að misheppnast í matargerð væri ekkert annað en tækifæri til þess að draga lærdóm af og gera betur næst, eins og með flest annað í lífinu: Enginn skaði er skeður, óþarfi að rífa sig niður yfir smámunum.

Þú kenndir mér að setja mörk gagnvart öðrum og ekki síst að ég ætti aldrei að gefa afslátt af sjálfri mér. Þú talaðir út frá eigin reynslu. Ég veit að það var ekki auðvelt fyrir þig að horfast í augu við sjálfan þig og vinna úr fortíðinni. Þér tókst að læra af þínum áskorunum og miðla af þinni reynslu í veganesti fyrir mig, svo að ég færi út í lífið sem sterk og sjálfstæð kona. Ég hef alltaf sagt að ég sé svo heppin að hafa mína eigin klappstýru og að hún sé pabbi minn.

Það var alltaf svo gott að leita til þín þegar mér leið illa og fannst lífið vinna á móti mér. Þú þekktir mig svo vel og vissir einhvern veginn alltaf hvað ég þurfti að heyra sem dóttir þín. Alveg í friði í okkar eigin heimi sem við áttum saman.

Þú varst örugg höfn í þessum skrýtna en dásamlega ólgusjó sem lífið er. Nú hefur hins vegar skútan þín siglt sína hinstu leið og ég kveð þig, eins og ég kvaddi þig á bryggjunni þegar ég var lítil áður en þú fórst á sjóinn. Í þetta skiptið kemurðu hins vegar ekki aftur heim og ég þarf að halda áfram án þín. Þú verður alltaf með mér í hjartanu og þá sérstaklega í eldhúsinu þar sem við áttum okkar bestu stundir saman. Keppnin um að verða betri kokkurinn af okkur tveim heldur áfram, þó svo ég sé með ósanngjarnt forskot á þig núna.

Keep on rocking old boy!

Jórunn Sóley Björnsdóttir.

Það var að snemma að morgni laugardagsins 28. janúar síðastliðinn að okkur hjónum barst sú harmafregn að Björn, mágur minn og vinur, hefði orðið bráðkvaddur á heimili sínu í Noregi kvöldið áður. Þessi fregn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, enda hafði Björn verið sjálfum sér líkur þegar við hittum hann og konu hans, Antoníu, á Spáni undir lok síðasta árs, fullur af orku, léttur í skapi og að sjálfsögðu með ýmis verkefni og framtíðarplön á prjónunum.

Það eru margar góðar minningar sem koma upp í hugann á þessum erfiðu tímum enda var sjaldan lognmolla í kringum Björn og gustaði jafnan af honum á mannamótum. Flutti hann þá oft kostulegar ræður svo viðstaddir skelltu jafnan upp úr, enda Björn mikill húmoristi, raddsterkur og með einstaka frásagnargáfu. Það eru þó sérstaklega veiði- og vinnuferðir okkar í Goðdal sem eru mér minnisstæðar. Þar var Björn svo sannarlega á heimavelli og fór ævinlega á kostum með alls konar gamansögum, skemmtilegum tilsvörum og ýmiss konar látbragði, sem var honum svo eðlislægt í allri hans tjáningu.

Björn var einkar ræktarlegur og hlýlegur í garð dætra okkar. Hann sendi ævinlega afmæliskveðjur og gjafir og var alltaf áhugasamur um að heyra af þeim og hvað þær tóku sér fyrir hendur. Þótt við byggjum hvor í sínu landinu síðasta áratuginn, hittumst við nokkuð oft og heimsóttu þau hjónin okkur nokkrum sinnum hingað til Kaupmannahafnar og þá var rætt á léttum nótum um allt á milli himins og jarðar, ásamt því að fara um alla borg og auðvitað njóta matar og drykkjar, enda Björn annálaður matgæðingur.

Við spjölluðum líka oft saman í síma í gegnum árin og var þá oftast fíflast og grínast með eitthvað sem helst bar á góma þá stundina, urðu það oft langar og skemmtilegar samræður um allt og ekkert.

Við vorum svo lánsöm að hitta þau hjónin tvisvar á Spáni í fyrra, en þau hjónin höfðu áformað að flytjast til Spánarstranda á komandi árum. Það hefði vafalaust orðið uppspretta margra skemmtilegra samverustunda, en þeim var því miður ekki ætlað að verða.

Það er með þungum huga að ég kveð kæran vin til margra ára, hvíl í friði elsku Björn, þín verður sárt saknað.

Haukur Þór Bragason.

Björn var alveg frábær frændi. Það var alltaf góð stemming, stuð og mikill hlátur í hans nærveru. Hann var alltaf til í ævintýri og var með margar skemmtilegar sögur frá því að hann var að bralla alls konar sem barn. Björn mundi alltaf eftir afmælunum okkar og sendi okkur margar góðar jólagjafir og seinna peninga því eins og hann sagði sjálfur, þá þekkti hann ekki alveg unglingastelputiskuna!

Það var augljóst að Björn og Antonía voru „a match made in heaven“, því þau pössuðu alltaf svo vel upp á hvort annað og nutu lífsins saman. Okkur þótti mjög vænt um Björn og eigum eftir að sakna þess að hitta ekki þennan góða frænda okkar aftur.

Margrét Lilja og
Rósalind Hauksdætur.

Við kynntumst Birni árið 1986 þegar ég réð mig til starfa hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Coldwater Seafood Corporation. Starfinu fylgdi jafnframt þau sú ánægja, að við kynntumst Magnúsi og fjölskyldu hans. Björn hafði þá aðeins verið í Bandaríkjunum í eitt ár. Hann hafði sagt skilið við vini og skólafélaga á Íslandi. Hann var í framandi landi, í nýjum skóla þar sem allt fór fram á erlendu tungumáli. Ég efast ekki um að áskoranirnar hafi verið ófáar, en þessi ungi maður var glaðbeittur og opinskár um þær áskoranir sem hann tókst á við. Björn fór ekkert í grafgötur með sínar skoðanir. Við fylgdumst með honum vaxa og þroskast í ástkæran, ungan mann, eiginmann og föður. Hann skildi eftir tómarúm þegar hann ákvað að snúa aftur Íslands. Það sem einkenndi heimsóknir hans til Bandaríkjanna síðar meir var gleði, frásagnir af nýjum ævintýrum og grillaðir bananar.

Björn, við munum ávallt minnast þín.

Bud og Evelyn Jones.