Everything Everywhere All at Once hefur slegið rækilega í gegn.
Everything Everywhere All at Once hefur slegið rækilega í gegn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíu myndir eru tilnefnar sem besta mynd ársins. Ásgrímur hefur ekki séð þær alveg allar en flestar. „The Banshees of Inisherin, Everything Everywhere All at Once og The Fabelmans eru frábærar kvikmyndir,“ segir hann

Tíu myndir eru tilnefnar sem besta mynd ársins. Ásgrímur hefur ekki séð þær alveg allar en flestar. „The Banshees of Inisherin, Everything Everywhere All at Once og The Fabelmans eru frábærar kvikmyndir,“ segir hann. „Tár er mjög vitsmunaleg, það er ekki annað hægt en að heillast af kvikmyndagerðinni og því hvernig allt er sett fram. Þetta er mjög athyglisverð kvikmynd sem kemur stöðugt á óvart, allt frá fyrsta atriðinu sem er sjö mínútur af Cate Blanchett að tala gáfulega. Það á ekki að vera hægt að gera þetta en svínvirkaði samt.

Ég hef á tilfinningunni að Everything Everywhere All at Once taki Óskarinn, straumurinn virðist liggja þangað. The Banshees of Inisherin á líka möguleika.“ Ásgrímur veðjar á að Daniel Kwan og Daniel Scheinert fái leikstjóraverðlaunin fyrir Everything Everywhere All at Once.

Þegar kemur að besta leikara telur Ásgrímur keppnina vera á milli Colin Farrell og Brendan Fraser. „Farrell er fantagóður í The Banshees of Inisherin og Fraser er að fá mikinn meðbyr enda á hann „comeback“ í The Whale. Svo er ekki hægt að neita því að Austin Butler leikur Elvis Presley óskaplega vel og akademían gæti fallið fyrir því hversu frábærlega hann kemst frá því.“

Ásgrímur segir listann yfir bestu leikkonur í aðalhlutverki vera áberandi sterkan. „Þetta eru allt brilljant leikkonur. Meira að segja Ana de Armas í Blonde, mynd sem var mjög harkalega gagnrýnd, er ansi góð sem Marilyn Monroe. To Leslie hef ég ekki séð, og sú tilnefning kemur á óvart þótt allir viti að Andrea Riseborough er mjög góð leikkona. Michelle Williams er svo stórbrotin leikkona og ákaflega góð í The Fabelmans.

Ég elska Michelle Yeoh, ef hún leikur í kvikmynd þá horfi ég. Hún var stórkostleg í Crouching Tiger Hidden Dragon og er mjög góð í Everything Everywhere All at Once. Hún á möguleika. Cate Blanchett er algjör meistari. Hún er Katharine Hepburn endurborin, það er drottningarandrúmsloft yfir henni.“ Ásgrímur segir líklegast að Blanchett hreppi Óskarinn, en hún hefur sópað til sín verðlaunum fyrir stórkostlega frammistöðu sína, þar á meðal eru Golden Globe, Bafta og verðlaun gagnrýnenda Í New York.

Komið er að besta leikara í aukahlutverki. „Brendan Gleeson er framúrskarandi í The Banshees of Inisherin og Barry Keoghan er algjörlega stórkostlegur í sömu mynd. Judd Hirsch er afar góður í The Fabelmans en ég held að hann eigi ekki möguleika. Ke Huy Quan er frábær í Everything Everywhere All at Once. Ég man eftir honum sem barni í Indiana Jones and the Temple of Doom, þannig að þetta er „comeback“ hjá honum. Hann er sterkur, en ef ég ætti að velja þá myndi ég láta Barry Keoghan fá Óskarinn. Allir helstu leikarar í The Banshees of Inisherin eru frábærir, en hann kom mér mest á óvart. Þegar ég sá hann hugsaði ég allan tímann: Hvað snillingur er þetta? Vá!“

Þegar kemur að bestu leikkonu í aukahlutverki segir Ásgrímur að hann myndi velja Kerry Condon í The Banshees of Inisherin, en tekur jafnframt fram að honum hafi þótt hin þaulreynda Jamie Lee Curtis mjög góð í Everything Everywhere All at Once.

En hver af hinum tilnefndu myndum snerti hann mest? „The Fabelmans talar sterkast til mín og er ein af betri myndum Spielbergs í langan tíma,“ segir hann. „Hún snerti mig djúpt og ég tengi við margt í henni. Það komu þarna kaflar sem minntu mig á sjálfan mig. Ég byrjaði að gera kvikmyndir á svipuðum aldri og Spielberg og gekk í gegnum sambærilega hluti, án þess að ég sé að líkja mér við hann að öðru leyti.

Ég hef alist upp við Spielberg, hef horft á ótal viðtöl við hann og séð fjölmargar heimildarmyndir um hann, lesið um hann bækur og séð flestar myndir hans. Ég var 14 ára þegar Close Encounters var sýnd hér og áhorfið var næstum eins og trúarleg reynsla. Mér fannst hún miklu meira heillandi en Star Wars sem kom út á svipuðum tíma. Mér hefur alltaf þótt mjög mikið til Spielbergs koma.“

Ekki má svo gleyma því að kvikmyndin My Year of Dicks, sem gerð er af íslenskum leikstjóra Söru Gunnarsdóttur, er tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki stuttra teiknimynda. „Maður krossar fingur gagnvart því!“ segir Ásgrímur.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir