Ingibjörg Zophoníasdóttir, f. á Hóli í Svarfaðardal 22.8. 1923. Hún lést á dvalarheimilinu Skjólgarði á Höfn 27.2. 2023.

Foreldrar: Súsanna Guðmundsdóttir, f. 6.2. 1884 á Óslandi í Óslandshlíð í Skagafirði, d. 15.6. 1980, og Zophonías Jónsson, f. 11.2. 1894 á Hóli í Svarfaðardal, d. 29.9. 1991. Systkini: Jónmundur, f. 23.2. 1917, d. 7.6. 1997, Friðbjörn Adolf, f. 22.12. 1918, d. 27.6 1986, Oddný Jóhanna, f. 14.10. 1920, d. 20.10. 1975, og Kristinn, f. 29.3. 1930, d. sama dag. Ingibjörg ólst upp á Hóli í Svarfaðardal þar sem foreldrar hennar bjuggu og fékkst við almenn sveitastörf og hlaut hefðbundna barnaskólamenntun. Stundaði nám í Húsmæðraskólanum á Blönduósi 1941-42.

Eiginmaður Ingibjargar var Torfi Steinþórsson, f. 1.4. 1915, d. 17.4. 2001, þau giftust 24.10. 1944 og fluttu í Suðursveit vorið 1945 þar sem hann varð skólastjóri við Hrollaugsstaðaskóla. Foreldrar Torfa: Steinunn Guðmundsdóttir, f. 25.11. 1888, d. 14.5. 1981, og Steinþór Þórðarson, f. 10.6 1892, d. 20.1. 1981, bændur á Hala í Suðursveit.

Ingibjörg var formaður kvenfélagsins Óskar í 25 ár og virk í öðru félagastarfi, sinnti bústörfum og stóð fyrir stóru heimili. Hún kenndi einnig handavinnu við Hrollaugsstaðaskóla um tíma. Ingibjörg og Torfi eignuðust 10 börn og eru afkomendur þeirra 134, bónusbörnin 24 og með tengdabörnum telur fjölskyldan 210 manns. Börnin eru: 1) Torfhildur Hólm, f. 16.2. 1945, eiginmaður Þorbergur Örn Bjarnason, f. 7.4. 1939, og eiga sex börn; Björn Borgþór, Ingibjörgu Júlíu, Þóru Bjarndísi, Helgu Hrönn, Örn Hólm og Þóreyju Hörpu. Barnabörn og barnabarnabörn 42. 2) Steinþór, f. 29.2. 1948, eiginkona Ólöf Anna Guðmundsdóttir, f. 15.8. 1952, og eiga þrjú börn; Hilmi, Berglindi og Sigríði Báru og fjögur barnabörn. 3) Drengur, f. 27.4. 1950, d. 28.4. 1950. 4) Fjölnir, f. 1.10. 1952, eiginkona Þorbjörg Arnórsdóttir, f. 15.11. 1953, og eiga fjóra syni; Kristin Heiðar, Arnór Má, Véstein og Ragnar Ægi og sex barnabörn. 5) Steinunn, f. 1.10. 1952, eiginmaður Björn Magnús Magnússon, f. 21.10. 1948, og eiga tvö börn; Torfa Birki og Ólöfu Ingunni og fjögur barnabörn. 6) Þórbergur, f. 12.3. 1954. Börn hans eru níu; Heiða Björk, Júlíanna Ösp, Birgitta Ösp, Kristína Ösp, Þórður Björn, Þóranna Lilja eldri, lést í vöggu, Sæbjörn Þór, Þóranna Lilja yngri og Vilhjálmur Þór. Barnabörn og barnabarnabörnin eru 27. 7) Zophonías Heiðar, f. 6.7. 1956, eiginkona Guðrún Ingólfsdóttir, f. 28.3. 1958 og eiga fjögur börn; Hauk Margeir, Ingibjörgu, Val og Sveinbjörgu, og 11 barnabörn. 8) Súsanna Björk, f. 2.4. 1960, eiginmaður Ásmundur Þórir Ólafsson, f. 15.9. 1958, og eiga þrjú börn; Inga Torfa, Finnboga og Ásu Björk, og sex barnabörn. 9) Margrét, f. 16.6. 1961, sambýlismaður Jón Hrafn Guðjónsson, f. 12.2. 1959. Börn þeirra fjögur; Daði, Hrafnhildur Karla, Guðjón Arngrímur og Stefán Karl. Barnabörnin 6. 10) Þórgunnur, f. 24.11. 1965, eiginmaður Ásgrímur Ingólfsson, f. 10.9. 1966. Börn þeirra eru þrjú; Sandra Rán, Iðunn Tara og Ingólfur og barnabörnin þrjú.

Útför Ingibjargar fer fram frá Kálfafellsstaðarkirkju í dag, 11. mars 2023, klukkan 13. Streymi:
http://bjarnanesprestakall.is/

Elsku hjartans mamma mín

Nú skilur leiðir um sinn. Þú horfin á braut frá okkur til ljóss og friðar, komin til pabba og litla drengsins þíns, foreldra þinna og systkina og allra gömlu vinanna. Það er mikill tómleiki í sálinni að hafa þig ekki lengur á meðal okkar. Mér finnst ég synda einhvers staðar í lausu lofti síðan þú kvaddir, því nú vantar mig jarðtenginguna.

Í 78 ár er ég búin að vera undir þínum verndarvæng og af þér lærði ég flest sem ég kann, en aldrei mun ég komast með tærnar þar sem þú hafðir hælana. Þú varst alltaf boðin og búin ef hjálpar var þörf og það var ekki sjaldan, við barnagæslu og bústang. Alltaf hafðir þú ráð undir rifi hverju. Þegar við bjuggum saman á Hala var oft kátt í kotinu, barnafjöldinn óx með ári hverju og alls urðu þau sex á jafnmörgum árum. Þið pabbi með þrjár dætur og við Bíi með einn son og tvær dætur. Þá var nú gaman að lifa. Svo ákváðum við hjónin að flytja á næsta bæ svo sem 150 metra. Þetta var svo stutt bæjarleið að mín börn hlupu alltaf beint til ömmu á Hala því þar urðu þau að fá morgunblessunina. Já, mamma mín, þú varst svo sannarlega lífsakkeri allrar fjölskyldunnar á Hala. Þessi heilsteypta kona sem þú varst, lést ekkert koma þér úr jafnvægi og hafðir svo sannarlega mannbætandi áhrif. Gerðir aldrei mannamun og komst eins fram við háa og lága.

Eftir að þú hófst handa við skógræktina upp í brekkum, sem átti hug þinn allan, þá höfðum við systkinin og barnabörnin þín ómælda ánægju af að fylgja þér eftir og aðstoða við gróðursetningar. Fyrstu tvær plönturnar settir þú niður þegar fyrstu tvö langömmubörnin þín fæddust 1985. Þér var líka annt um skógræktina í Staðarfjalli og settir þar niður ófáar plönturnar.

Þú hafðir líka mikinn áhuga á félagsmálum og lagðir þig alla fram þar af lífi og sál eins og í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. En auðvitað var heimilið og börnin nr. 1, 2 og 3 og þar voru störfin óendanleg við barnauppeldi, þrif og þvotta, matreiðslu, bakstur, saumaskap, mjaltir og útiverk alls konar, alltaf virtist þú hafa tíma til allra hluta. Ekki má nú gleyma öllu gestastússinu. Það var alltaf mikill gestagangur á Hala, sumir dvöldu lengi aðrir styttra. Ég man að það voru ekki ósjaldan 30 manns í mat yfir sumartímann og þá kom sér vel að pabbi var duglegur að veiða silung ofan í mannskapinn. En alltaf varst þú brosandi og kát, en þreytt hlýturðu oft að hafa verið þó aldrei heyrðist þú kvarta.

Elsku mamma mig langar að láta eitt ljóða minna fylgja hér með.

Að eignast börn er innsta lífsins þrá,

auðlegð sú er gulli og silfri dýrri.

Óskastund er foreldrar fá

að faðma lítinn kropp, á vegferð nýrri.

Já, minningarnar eru svo ótal margar, efni í stóra bók. En hér ætla ég að láta staðar numið. Berðu pabba og bróður ástarkveðjur okkar. Það verður ekki svo langt til næstu endurfunda, Guð almáttugur blessi þig elsku mamma mín.

Sofðu sofðu rótt

senn er komin nótt.

Ljúfir englar ljá þér hönd

um ljóssins draumalönd.

Vertu kært kvödd frá mér og minni fjölskyldu.

Þín dóttir

Torfhildur Hólm (Tolla)

Ingibjörg Zophoníasdóttir tengdamóðir mín var mikil kjarnakona og hafði mannkosti mikla. Eftir tæplega fjörutíu ára kynni er margs að minnast. Það væri að ala óstöðugan að telja upp alla þá kosti sem hana prýddu en um hana á máltækið ágætlega, allt kann sá sem hófið kann.

Ég man það eins og gerst hafi í gær þegar ég hitti Ingibjörgu fyrst. Ég og yngsta dóttir hennar höfðum verið að rugla saman reytum í einhvern tíma og málin þróuðust á þann veg eftir ball í Hrollaugsstöðum að ég varð strandaglópur og næsta húsaskjól var Hali í Suðursveit. Ekki að mér leiddist það á þeirri stundu en ég get ekki þrætt fyrir að ég kveið sunnudagsmorgninum. Ég beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði þegar ég heyrði allan skarkalann í eldhúsinu fyrir neðan þegar leið á morguninn. Það var eins og þar væri annar í dansleik. Þar var greinilega múgur og margmenni eins og ég átti eftir að kynnast svo marga morgna næstu áratugina. Þau voru þung sporin niður og mér fannst tíminn silast áfram en þegar ég mætti augnaráði Ingibjargar í eldhúsinu á Hala þá fylltist ég öryggistilfinningu og það skaut upp í hugann að þetta myndi kannski blessast.

Ingibjörg var sú sem var fyrst mætt í eldhúsið á morgnana og yfirleitt var hún eitthvað að bardúsa þar þegar aðrir voru gengnir til náða. Það var oft marga munna að metta á Hala, bæði var afkomenda hópurinn stór en vinirnir voru ekki færri og það var gott að heimsækja Ingibjörgu og Torfa. Þau voru sannkallaðir vinir vina sina og aldrei heyrði ég þau hallmæla nokkrum manni.

Aldrei féll Ingibjörgu verk úr hendi. Þegar hún var búin að koma krökkunum til manns tók skógræktin við og bera brekkurnar fyrir ofan Breiðabólstaðartorfuna þess vitni. Það voru ekki allir sannfærðir um að þetta brölt á henni myndi bera ávöxt. En dugnaðurinn og umhyggjan fyrir verkefninu var slík, eins og fyrir öllum öðrum verkefnum sem hún tók sér fyrir hendur, að þarna er nú kominn myndar skógur sem verður minnisvarði um Ingibjörgu á Hala um alla framtíð.

Eftir að Ingibjörg flutti í Ekruna á Höfn 2001 (þó ekki væri nema með annan fótinn fyrstu árin því hún dvaldi öll sumur og langt fram á haust og öll jól og alla páska lengi vel á Hala) urðu kynni okkar meiri því þó svo að það séu ekki nema tæpir 70 km á Hala frá Höfn þá höfðum við bæði í nógu að snúast. Það vildi svo skemmtilega til að við Ingibjörg vorum með svipaðan matarsmekk og allt annan en Þórgunnur sem virðist vera af annarri kynslóð. Við buðum hvort öðru í súrmat þegar því var að skipta og ef ég kom með loðnu í land þá eldaði Ingibjörg fyrir mig steikta loðnu. Okkur fannst þetta vera veislumatur en Þórgunnur fussaði á hliðarlínunni og skildi ekkert í því hvernig við gætum látið þetta ofan í okkur.

Það er skarð fyrir skildi að Ingibjörg skuli vera farin í Sumarlandið og mikið eigum við Þórgunnur eftir að sakna hennar. Það er þó huggun harmi gegn að vita að mikið af góðu fólki tekur þar á móti henni. Hvíl í friði kæra Ingibjörg – við sjáumst síðar.

Kveðja

Ásgrímur.

Þá er hún Ingibjörg, tengdamóðir mín, lögð upp í langferð, þá síðustu, alla leið í sumarlandið á fund Torfa síns og fleiri sem bíða þar, sjálfsagt eru þau farin að dansa tangó sem þau höfðu svo gaman af.

Kynni okkar Ingibjargar hófust fyrir rúmum 40 árum, þegar ég kom í fyrsta sinn á Hala í Suðursveit, var reyndar að eltast við eina af dætrum hennar. Eins og margur drengurinn sem hittir í fyrsta sinn mömmu kærustunnar og kannski væntanlegrar eiginkonu, þá var hjartslátturinn óreglulegur og svolítill kvíðahnútur í maga, hvernig viðtökurnar yrðu, en sá ótti reyndist ástæðulaus því hún brosti svo fallega þegar hún heilsaði drengnum, og brosið náði líka til augnanna.

Hún Ingibjörg var að vissu leyti mjög sérstök kona, óhrædd við að vaða í hin ýmsu verkefni, og ekkert virtist vera henni ofviða, hún var mjög lausnamiðuð, engin vandamál bara lausnir, síðust gekk hún til náða og fyrst á fætur. Hún hafði þann háttinn á þegar matur var tilbúinn, að hún barði hraustlega í pípulagnir sem voru í eldhúsloftinu og lágu um allt hús, og vei þeim sem ekki rumskuðu við þann gauragang og dröttuðust á garðann.

Skörungur, er orð sem mér dettur í hug um hana.

Það var oft fjölmennt í gamla bænum, gestir og gangandi, og var þá Ingibjörg oft hrókur alls fagnaðar, og eins og hendi væri veifað, þá var búið að dekka borð fyrir fjöldann, tvísetið, jafnvel þrísetið við eldhúsborðið.

Tengdamömmu þótti voðalega vænt um ef verkfærataskan var með í för þegar við heimsóttum Hala, alltaf var eitthvað sem aflaga hafði farið, sem þarfnaðist viðgerðar, og svo var hrært í vöfflur, og kannski um kvöldið hleypt upp á hrútshausum með þverhandarþykku hnakkaspiki, þá rumdum við tengdapabbi eins og hrútar á fengitíma, því fátt vissum við betra.

Á þessum rúmu 40 árum man ég ekki til þess að okkur yrði sundurorða, samt gat hún staðið föst á sínu.

Hún fylgdist vel með sínu fólki og var oft í fullri vinnu að muna nöfn á barnabörnum og barnabarnabörnum, þau komu stundum ört eins og gerist, og þegar ég náði að semja um vopnahlé við Bakkus, þá var enginn glaðari en hún.

Það var fátt sem stoppaði hana, t.d. þegar hún var orðin blind þá þrammaði hún Ingibjargarhringinn svokallaða með tvo göngustafi, annan til að styðja sig við og hinn til að berja frá kríurnar, yfir sumartímann.

Það kom svo að því að þessi fjörkálfur fór að beygja sig undir elli kerlingu, undir það síðasta voru alls konar veikindi, en alltaf var stutt í húmorinn og glensið.

Hún varð að lokum að játa sig sigraða og lést hún á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði 27. febrúar, södd lífdaga, átti sex mánuði eftir í hundrað árin.

Ég er afar þakklátur fyrir að hafa notið þeirra forréttinda að kynnast og þekkja svo frábæran einstakling sem hún var, hrein og bein í öllu, gerði aldrei mannamun og í hennar augum voru allir jafnir, öllum boðið til stofu, þar sem mál voru brotin til mergjar.

Afkomendum hennar sendi ég mínar dýpstu samúðarkveður, ykkar missir er mikill, og minn líka, en minningin björt mun lifa um manneskju sem vissulega gerði heiminn betri.

Þórir Ólafsson.

Við systkinin vorum heppin að fá að alast upp nálægt ömmu. Fyrst með reglulegum heimsóknum út á Hala og í seinni tíð upp í Ekru og á hjúkrunarheimilið. Eftir að amma flutti á Höfn kom hún reglulega í heimsókn til okkar eða í kvöldmat, þá birtist hún galvösk með göngustafina í hurðargættinni. Eftir að við systkinin fluttum að heiman eitt af öðru fækkaði samverustundunum en við reyndum þó alltaf að halda góðu sambandi og kíkja í heimsókn þegar leið okkar lá heim.

Minningarnar eru margar og erum við virkilega þakklát fyrir þær. Amma var tilbúin að gera allt fyrir okkur; leika við okkur, læra með okkur, elda eða baka – hvað sem okkur datt í hug. Hún gerði sem dæmi oft pítsu fyrir okkur en það er sérstaklega eftirminnilegt eitt skiptið þegar hún var að passa okkur og ætlaði að gera pítu í kvöldmatinn. Við vissum nú ekki alveg hvernig pítan var venjulega búin til en við vissum að brauðið ætti að fara í ristavélina. Amma tók þá upp á því að setja hamborgarakjötið ofan í pítubrauðið og allt saman í ristavélina. Þegar pítan var svo borin fram var það sem sagt hrátt hamborgarakjöt í ristuðu pítubrauði með pítusósu. Við munum nú ekki alveg hvernig fór svo með pítuna en ætli við höfum ekki endað á að fá grjónagraut í matinn. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum þar sem amma fór eins langt og hún gat til þess að gera vel við okkur systkinin. Á seinni árum var dásamlegt að setjast niður í Ekrunni hjá ömmu og hlusta á hana segja frá, öllu milli himins og jarðar en sérstaklega gömlu tímunum. Þegar við hugsum um ömmu sjáum við hana fyrir okkur í eldhúsinu á Hala, rjóða í kinnum að bera eitthvað fram á morgunverðarhlaðborðið eða baka skúffuköku.

Elsku amma, takk fyrir allt. Allt kakóskyrið, skúffukökurnar, pönnukökurnar, ráðin, fróðleikinn, samverustundirnar, spilin, föndrið, fjósaferðirnar, göngutúrana, rólegheitin og umhyggjuna. Það er erfitt að kveðja en við erum ótrúlega þakklát fyrir allar góðu minningarnar. Við munum segja börnunum okkar allar sögurnar sem þú sagðir okkur og þannig verður þú áfram með okkur um ókomna tíð. Við sendum góðar kveðjur í Sumarlandið þar sem við vitum að þið afi eru nú sameinuð á ný og fylgist með okkur.

Sandra Rán, Iðunn Tara og Ingólfur.

Fallin er frá á hundraðasta aldursári föðursystir mín, kvenskörungurinn Ingibjörg Zophoníasdóttir. Vil ég í örfáum orðum reyna að heiðra minningu hennar. Hún er einhver gegnheilasta manneskja sem ég hef þekkt.

Fyrst sá ég frænku mína þegar ég var um tíu ára aldur. Hún kom þá ásamt ungum börnum sínum að heimsækja foreldra sína og frændgarð norður í Svarfaðardal eftir aðskilnað í á annan áratug. Þar fögnuðu allir eins og álfadísin sjálf væri svifin til jarðar. Þar sá ég fyrsta sinni þessa blíðu og gáfuðu konu. Heyrði málfar sem var mér um sumt óskiljanlegt þá. Áður hafði ég hlýtt á þetta fólk reyna að kallast á yfir hálft landið um símalínu einu sinn á ári um jól, oft með afleitum árangri.

Nokkrum árum síðar fékk ég að heimsækja frænku í hina sveitina hennar, töfralandið Suðursveit. Þetta er meira en áratug áður en hringvegurinn kom á. Þurfti að ösla óbrúuð Steinavötnin. Þarna kynntist ég öðru tímaskyni en ég hafði þekkt, klukkan gekk hægar þarna.

Hér er ekki ætlun að rekja lífshlaup og lífsviðhorf frænku. Bendi á einstakt viðtal þar sem hún sjálf segir frá því á ógleymanlegan hátt í bókinni Á afskekktum stað. Lýsing hennar á nýju og gömlu sveitinni er stórkostleg.

Árin urðu allt of mörg áður en ég sá hana næst. Þegar ég tók að flakka um allar sveitir landsins var fasti punkturinn á Hala, kæmi ég á það landshorn. Þá var gott að setjast niður við eldhúsborðið, þiggja frábærar veitingar og hollráð hennar og skiptast á fréttum af frændfólkinu þar sem ég því miður stóð of oft á gati. Heimsóknirnar urðu allt of stuttar og fáar. Með árunum þekkti ég frænku samt betur og betur. Mér eru ætíð minnisstæð orð Steinþórs í eldhúsinu á Hala í síðasta skipti sem ég sá þann snilling: „Drengur minn, þú átt að fara hægar og hlusta betur á fólk“.

Í viðtalinu áðurnefnda lýsir frænka því að mínu viti hvernig hún, ásamt einstökum eiginmanni sínum, Torfa Steinþórssyni, og tengdaföður, Steinþóri Þórðarsyni, lyftu heilu byggðarlagi á hærra menningarstig.

Frænka var bóndinn á Hala ásamt Steinþóri meðan bæði lifðu. Í framhaldinu tóku synir hennar ásamt eiginkonum við glæsibúskapnum þar. Hún kunni skil á öllu í búskapnum, líka eftir að hún hætti sjálf að standa fyrir búi.

Síðustu árin bjó hún á Höfn. Í heimsóknum mínum þangað þá fannst mér samt að hugurinn væri á Hala, í Suðursveit og norður í Svarfaðardal. Þó að sjónin væri nánast horfin gekk hún um íbúðina sem alsjáandi væri.

Hollráðin verða ekki fleiri. Þau skulu þökkuð ásamt einstakri blíðu og góðvild.

Minningin um mannkostakonu hlýtur að verða sorginni yfirsterkari hjá nánustu aðstandendum. Þeim og sérstaklega öllu frændfólkinu fyrir austan sendi ég dýpstu samúðaróskir. Við kveðjum ógleymanlega afrekskonu. Minningin mun ylja öllum um ókomin ár.

Jón Viðar
Jónmundsson.

Við kveðjum nú Ingibjörgu á Hala sem vantaði aðeins nokkra mánuði í 100 árin og hélt andlegum og líkamlegum kröftum fram undir það síðasta. Eiginmaðurinn Torfi var átta árum eldri og kvaddi okkur í byrjun þessarar aldar 2001 eftir ötult lífsstarf sem skólastjóri í Suðursveit og bóndi á Hala. Saman eignuðust þau Ingibjörg níu börn sem upp komust og mörg hver setja nú svip á byggðarlagið sunnan Vatnajökuls ásamt fjölda afkomenda.

Suðausturland og kynni við fjölda fólks í sveitunum sunnan Jökuls varð drjúgur þáttur í mínu lífi eftir að ég fyrst fór þar um í könnunarferð 1966. Þá var að vísu ekið fyrir ofan garð á Breiðabólsstað en brátt varð á því breyting og komið við árvisst á Hala (Breiðabólsstaðarhala) og skólasetrinu Hrollaugsstöðum þar sem Torfi Steinþórsson, eiginmaður Ingibjargar, var skólastjóri í 40 ár, frá 1945–1985. Áður hafði hann eignast Ingibjörgu að lífsförunaut eftir kennslustörf í Svarfaðardal árin á undan. Hún kom þaðan bóndadóttir frá Hóli og urðu foreldrar hennar bæði langlíf líkt og hún sjálf. Þau Ingibjörg og Torfi höfðu fasta búsetu á Hala frá 1966 í skjóli foreldra hans, Steinþórs Þórðarsonar og Steinunnar Guðmundsdóttur, sem gerðu garðinn landsfrægan ekki síður en Þórbergur, með viðtalsbók Stefáns Jónssonar „Nú, Nú ...“ sem útvarpað var um 1970.

Verkefni Ingibjargar var ærið við uppeldi barnahópsins, en hún fylgdist jafnframt með bústörfum og miðlaði ómetanlegum sýnishornum af þeim með myndum sem hún tók, m.a. af útræði frá Bjarnarhöfn. Þau Torfi og fjölskylda urðu með félögum á Höfn stoð og stytta í starfi Alþýðubandalagsins sem stofnaði félag í Austur-Skaftafellssýslu á árunum 1967–68. Síðar tók við tengdadóttirin Þorbjörg sem við mörg vildum sjá sem fulltrúa á Alþingi. Hún tók hins vegar við skólastjórn af tengdaföður sínum og fór síðar ásamt Fjölni Torfasyni fyrir stofnun Þórbergsseturs á Hala upp úr aldamótum. Í starfi þess menningarseturs sá Ingibjörg og afkomendur stóra drauma rætast. Þar mætti hún staðfastlega á viðburði uns skömmu fyrir andlátið. Við þökkum Ingibjörgu lífsstarfið sem borið hefur ríkulegan ávöxt.

Kristín og Hjörleifur Guttormsson.