— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Áratugum síðar vafrar hugur nóbelsskáldsins til þess hvernig best væri og öruggast að gæta þessa alls. Og verður skáldinu þá hugsað til „kerlingarinnar í Torfastaðakoti“. Hún hefur nú forframast og situr í forsæti öflugasta húss á Íslandi og eru þó nýjustu fangelsi talin með. Bað Halldór nú Nordal, húsráðanda þar, að geyma þessar gersemar þar næstu aldir.

Það var líkt Jóhannesi Nordal að ljúka stórmyndarlegri sjálfsævisögu sinni tæplega 99 ára gamall og koma henni út í tæka tíð og segja þetta orðið gott. Hann hafði á drýgstum hluta síns langa lífs, eftir að námi lauk hér heima og síðan erlendis, unnið þjóð sinni afburðavel og notið ríkulegs trúnaðar. Og þá auðvitað ekki síst verið fengin verkefni sem tengdust þeirri sérfræðigrein, sem hann nam snemma, ákveðinn í að kynna sér út í hörgul grundvöll lífsstarfs síns. Hagfræðin var tiltölulega ný fræðigrein og ekki hægt að hefja háskólanám í henni hér heima, svo að gagn yrði að. Nýja bókin, Lifað með öldinni, sækir auðvitað um margt í sérfræðina og þess hluta lífsstarfans og í mörg störfin hliðsettu sem tengdust þeim þætti stjórnsýslunnar með einum eða öðrum hætti. Stærstu einstöku „aukastörfin“ hefðu enst öðrum sem fullgild vinna og ríflega það. Stjórnarformennska í Landsvirkjun og formennska í ýmsum samninganefndum sem véluðu um orkufrekan iðnað, sem alið var á tortryggni um, og hvort slíkt væri samboðið íslenskum hagsmunum eða væri ómerkilegur erindrekstur útlenda auðvaldsins sem ætlaði sér að hafa íslenska sveitamenn að féþúfu eða annað af þeim toga. Vildu æðimargir leggja flest út á versta veg. Reynslan ber þeim illspám ekki góðan vitnisburð. En frásagnir um þessa þætti, svo fróðlegir og mikilvægir sem þeir voru fyrir framvindu og efnahag þjóðarinnar, eru aðeins hluti af efni þessarar bókar.

Bókarhöfundur var forvitinn mjög í bestu merkingu. Hann fylgdist með nýjungum, innanlands sem utan. Og hvar sem eitthvað sögulegt var að gerast fylgdist hann með, mætti og vildi ekki missa af neinu. Er notalegt að verða í bókinni samferðamaður hans víða, þótt maður hafi ekki verið þar sjálfur. Þá er perónugallerí bókarinnar fjölmennt og áhugavert. Og Jóhannes var frá ungum aldri áhugasamur um allt þetta fólk og vinsamlegur því og þótti vænt um flesta upp frá því. Hann var ekki endilega allra vinur, en um leið var hann varla óvinur neins. Hefur kannski eins og aðrir sneitt hjá fólki sem gaf sjálft ekki mikið af sér eða var þeirrar gerðar að náin eða góð kynni bættu litlu við. Hann hallmælir varla nokkrum manni, þótt hugsanlega megi lesa eitthvað á milli lína, sé lagst eftir því. Kaflar frá æskuárum eru áhugaverðir og augljóst að hann hefur tekið á móti æsku sinni opnum og forvitnum augum og eignast vini eða minningar sem héldu til enda. Eins er um fjölskyldu og ástvini og má ímynda sér hversu mikill styrkur það var í lífi sem gat verið stormasamt í ytri tilveru. Heimsstyrjöld geisaði á æsku- og manndómsárum hans, sem hafði áhrif hér og vakti ótta í næsta nágrenni. En hún breytti einnig mörgu til bóta, ekki síst efnahagslega!

Saga úr sveitinni

„Þótt gestkvæmt væri á Torfastöðum stóðu flestir aðkomumenn stutt við og höfðum við krakkarnir því yfirleitt lítið af þeim að segja. En sumarið 1933 kom óvenjulegur gestur og dvaldi um kyrrt í tvær eða þrjár vikur. Þetta var Halldór Kiljan Laxness og vöktu hættir hans forvitni okkar, enda vissum við að hann væri skáld. Sat hann lengst af í gestaherberginu, borðaði hvorki með heimilsfólkinu né yrti á okkur krakkana, en fór þess á milli í gönguferðir eða sat í djúpum þönkum undir kálgarðsveggnum. Einn sunnudag dró þó til tíðinda þegar að allir fóru af bæ nema ég og systurnar Ólöf og Þorbjörg Pálsdætur, sem báðar áttu eftir að verða kunnir myndhöggvarar. Hildur móðir þeirra var systir séra Eiríks. Þær voru nokkrum árum eldri en ég og fannst tilvalið að grípa tækifærið og nota mig til að gera eitthvert sprell. Fundu þær út ýmiss konar kvenfatnað og klæddu mig í múnderingu sem átti að líkjast peysufötum. Síðan átti ég að fara inn til skáldsins, sem sat við skriftir eins og hans var vani og látast vera gömul kona úr sveitinni. Gerði ég þetta fúslega, bankaði að dyrum, gekk inn og kynnti mig, sagðist vera Gunna gamla og ætti heima í Torfastaðakotinu. Halldór tók ljúflega á móti mér, sagðist hafa gaman af að hitta fólk úr sveitinni og spurði almæltra tíðinda. Hófust nú alllangar viðræður um búskapinn í kotinu sem Halldór tók þátt í íbygginn á svip eins og ekkert væri eðlilegra. Kvöddumst við síðan með virktum og hann þakkaði mér kærlega fyrir komuna, en ég sneri aftur til systranna ánægður með mig og hvernig þetta hafði gengið. Þegar ég svo hitti Halldór aftur nokkru síðar í heimsókn hjá föður mínum heilsaði hann mér að bragði með orðunum: „Kemur nú ekki kerlingin í Torfastaðakoti.“

Það er svo önnur og alkunn saga, sem Jóhannes nefnir því ekki, að Halldór Laxness hélt áfram sínum háttum, vinnusemi og afköstum, sem enduðu með því að þeir þarna í Akademíunni í Svíþjóð verðlaunuðu það allt saman með æðstu verðlaunum sem rithöfundar geta gert sér vonir um að fá, hérna megin grafar. Fylgdu því veglegir fjármunir frá sprengjugerðarmanninum mikla, mikilvægt skrautritað skjal, svo ekkert fór lengur á milli mála, og gullpeningur sver að auki. Áratugum síðar vafrar hugur nóbelsskáldsins til þess hvernig best væri og öruggast að gæta þessa alls. Og verður skáldinu þá hugsað til „kerlingarinnar í Torfastaðakoti“. Hún hefur nú forframast og situr í forsæti öflugasta húss á Íslandi og eru þó nýjustu fangelsi talin með. Bað Halldór nú Nordal, húsráðanda þar, að geyma þessar gersemar þar næstu aldirnar.

Hvar er hann í pólitík?

Það veltu ýmsir fyrir sér hvar Jóhannes Nordal stæði í pólitík og urðu ekki miklu nær. En nú vitum við, þökk sé bókinni góðu, að það átti sér stað innri barátta í huga unga mannsins. Hann gekk í breska Verkamannaflokkinn sem námsmaður ytra og vangaveltur hans sýna að hann hallaðist til vinstri. En jafnframt segir hann að þetta hafi verið í fyrsta og seinasta sinn sem hann varð sér úti um flokksskírteini. En í bréfi til Sigurðar föður síns segir hann: „Ég gerði fyrri hlutann í fyrravetur allákveðna tilraun til að verða góður kommúnisti, að vísu gegnsýrðist ég af Marxisma um tíma, enda þótt ég næði aldrei þeirri kommúnistísku vígslu, og þakka það mótmælatilhneigingu minni, en undir vor var ég laus undan álögum Marxismans. Að vísu voru það byltingarkenningarnar, sem fyrst gerðu mig skeptiskan, en þótt flestir Vesturlanda kommúnistar haldi því fram að bylting verði ekki nauðsynleg bætir það lítið úr skák, því eftir er kommúnistíski hugsunarhátturinn: hroki þess sem þykist hafa höndlað eina og allan sannleikann, og þar af leiðandi fyrirlitning á öllum andstæðingum og öllum verðmætum sem ekki falla fyrirhafnarlaust inn í kerfið. – Þegar kommúnistar hugsa um framtíðarlandið, er það þeim ekki hvatning til að verða betri menn, þvert á móti, það síðasta sem nokkur sannur kommúnisti gerir er að leita og leiðrétta sína eigin galla, ekkert illt er í þeim sjálfum, allt í auðvaldinu og áhangendum þess. Barátta þeirra er öll út á við og þess vegna aldrei mórölsk barátta. Mig langar í raun og veru til að geta réttlætt eða að minnsta kosti haft samúð með kommúnistum, en ef ekki verður óvænt breyting á skoðunum mínum er ég hræddur um að ég muni brátt fylla flokk þeirra, sem sterklegast vara við hættunni sem mörgum dýrmætustu verðmætum vestrænnar menningar stafar frá lífsskoðun og aðferðum kommúnista.“

Þétt samstarf við sjálfstæðisforystu

Þá vekur athygli við lestur bókarinnar hversu náinn trúnaður ríkti á milli Jóhannesar og Ólafs Thors annars vegar og Bjarna Benediktssonar og Jóhannesar hins vegar. Fyrri tilvitnunin tengist ákvörðun Gunnars Thoroddsen um að hraða sér heim eftir óvænt fráfall Péturs Benediktssonar bankastjóra í Landsbankanum. „Síðla dags eftir lát Péturs var hringt úr forsætisráðuneytinu og ég beðinn að koma strax til fundar við Bjarna Benediktsson. … Ég sat lengi hjá Bjarna þennan dag og aftur næstu tvo dagana og við ræddum þetta mál fram og til baka. Ég hafði þó ekki neitt stöðu minnar vegna um embættisveitingar í Landsbankanum að segja. Ef til vill var það einmitt vegna þess að ég stóð utan við málið, en var um leið vinur Péturs og Mörtu, sem Bjarna fannst gott að geta rætt þetta viðkvæma mál við mig opinskátt og af fullri hreinskilni. Hann fann líka þessa daga vaxandi þrýsting af hálfu vina Gunnars sem höfðu haft samband við hann. Erfiðast þótti honum að Ásgeir Ásgeirsson skyldi hafa hringt til að tala máli Gunnars. Af þessum samtölum varð mér ljóst að Bjarni mundi af tilfinningalegum ástæðum aldrei geta samþykkt að Gunnar tæki við bankastjórastöðunni. Þar réði bæði tillitssemi við fjölskyldu Péturs og hans eigin tilfinningar. Þeir bræðurnir höfðu því miður ekki átt skap saman, en báru þrátt fyrir það djúpa virðingu og traust hvor gagnvart öðrum.“

Síðari tilvitnanirnar eru um samtöl Jóhannesar og Ólafs Thors: „Eins og drepið er á að framan, var Ólafur greinilega mjög þreyttur eftir þessi átök (kosningar), svo að við lá að það myndaðist alger ládeyða í stjórn landsins vegna lasleika hans, en mönnum virtist Bjarni Benediktsson í þungu skapi og óánægður með stöðu mála. Síðla sumars átti ég gott samtal við Ólaf. Gaf hann þá greinilega í skyn að hann væri að íhuga, hvenær hann ætti að draga sig í hlé. Hann sagðist fyrir löngu hafa sagt við Bjarna að hann væri tilbúinn að víkja og hefði beðið Bjarna að segja sér það hreinskilnislega strax og hann teldi það tímabært. Eftir það fór mig að gruna að þetta ætti Bjarni erfitt með að gera eins og á stóð og að það hefði valdið ógleði hans.“ … „Ennfremur var ákveðið að þeir Bjarni Benediktsson og Emil Jónsson skyldu taka að sér að stýra samningum við forystu verkalýðshreyfingarinnar. Kom þessi ákvörðun mér óneitanlega á óvart, enda hafði ég ekki tekið eftir því hver átti frumkvæði að henni. Ólafur virtist henni þó samþykkur, en ég hafði talið það sjálfgefið að hann leiddi væntanlegar viðræður við verkalýðsforystuna. Fyrir hádegi daginn eftir fékk ég svo upphringingu frá Ólafi. Sagðist hann vilja segja mér það sjálfur að hann myndi leggja fram lausnarbeiðni sína síðar um daginn. Hann hefði áttað sig á því á ríkisstjórnarfundinum daginn áður, þegar aðrir en hann voru tilnefndir til að semja við verkalýðshreyfinguna, að með því væru menn að gefa honum til kynna að kominn væri tími til þess að hann drægi sig í hlé.“