Siggi Maður sem spilar með hjartanu.
Siggi Maður sem spilar með hjartanu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ríkissjónvarpinu hefur lengi verið legið á hálsi fyrir að rýma til í dagskránni á aðalrás sinni á besta útsendingartíma fyrir kappleikjum með landsliðum Íslands í öllum greinum og engum og jafnvel sópa sjálfum fréttatímanum út af borðinu

Orri Páll Ormarsson

Ríkissjónvarpinu hefur lengi verið legið á hálsi fyrir að rýma til í dagskránni á aðalrás sinni á besta útsendingartíma fyrir kappleikjum með landsliðum Íslands í öllum greinum og engum og jafnvel sópa sjálfum fréttatímanum út af borðinu. Þjóðin hefur látið þetta yfir sig ganga en síðasta miðvikudag sagði hún hingað og ekki lengra þegar íslenskur handknattsleikur var svo gott sem jarðsunginn í Brno í Tékklandi. Séra Tómas Myrkvi þjónaði fyrir altari og kastaði rekunum. Héðan í frá hlýtur að vera lágmarkskrafa að liðið sem veltir fréttum, veðri, auglýsingum og dagskrá úr sessi geti eitthvað! Svona fíaskó er best geymt á aukarásinni. Útsendingarstjórinn hefði auðvitað átt að rjúfa útsendinguna á miðvikudaginn þegar hann sá í hvað stefndi og henda fréttunum í loftið eða bara einhverju öðru; til dæmis hefði verið upplagt að endursýna Söngvakeppnina frá laugardeginum áður. Þar var í öllu falli í aðalhlutverki maður sem lagði sig allan fram og gjörsigraði hjörtu þjóðarinnar með framgöngu sinni – okkar allra besti Siggi Gunnars. Það er maður sem handboltalandsliðið (við segjum aldrei Strákarnir okkar þegar þeir spila svona illa) getur lært heilmargt af. Guðmundarígildin hljóta að boða hann á lokaæfingu liðsins í dag.

Höf.: Orri Páll Ormarsson