Keppnin Nafnið Diljá gæti orðið á allra vörum á næstu vikum og mánuðum.
Keppnin Nafnið Diljá gæti orðið á allra vörum á næstu vikum og mánuðum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um síðustu helgi var mikið um dýrðir í úrslitum Söngvakeppninnar. Í lokaeinvíginu hafði framlag Diljár betur. Nafnið Diljá verður því væntanlega áfram á allra vörum næstu vikur og mánuði. Diljárnafnið hefur þekkst í íslensku í nokkrar aldir og er…

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson @arnastofnun.is

Um síðustu helgi var mikið um dýrðir í úrslitum Söngvakeppninnar. Í lokaeinvíginu hafði framlag Diljár betur. Nafnið Diljá verður því væntanlega áfram á allra vörum næstu vikur og mánuði. Diljárnafnið hefur þekkst í íslensku í nokkrar aldir og er rakið til gríska gyðjunafnsins Delía; svo segja höfundar Íslenskrar orðsifjabókar og Nafna Íslendinga.

Nafnið Delía er dregið af Deley (Delos) í Eyjahafi. Til Deleyjar hafði Letó hrakist undan ofsókn og afbrýði Heru, og gat þar loks fætt börn þeirra Seifs, tvíburasystkinin Artemis og Apolló. Artemis bar fleiri grísk nöfn og var Delía eitt þeirra, dregið af heiti fæðingareyjunnar. Artemis fæddist á undan Apolló og veitti móður þeirra fæðingarhjálp við að koma tvíburabróðurnum í heiminn. Artemis var ein meginguðanna tólf og var henni meðal annars tileinkað Artemisarhofið í Efesos, eitt sjö undra veraldar.

Líkt og fleiri grísk goð (svo sem Seifur/Júpíter og Afródíta/Venus) bar Artemis enn annað nafn í latneskri hefð, þ.e. Díana, sem varð vinsælt eiginnafn víða um lönd. Í ársbyrjun voru um 300 Díönur í þjóðskránni hér á landi. Heldur fleiri, eða 406, báru Diljárnafnið, ýmist eitt sér eða með öðru nafni.

Tvíburarnir Apolló og Artemis, eða Delía, voru meðal annars tignuð sem annars vegar sólguð og hins vegar mánagyðja. Sem fyrr segir telst nafnið Delía hafa orðið að Diljá í íslensku – og máninn minnti einmitt vel á sig yfir Faxaflóa 4. mars, kvöldið sem Diljá Pétursdóttir bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni, en fullt tungl var 7. mars.

Í Nöfnum Íslendinga er þess getið til að vinsældir Diljárnafnsins hérlendis megi rekja til persónunnar Diljár í Vefaranum mikla frá Kasmír sem Halldór Laxness gaf út 1927. Persóna Diljár í Vefaranum hefur eflaust orkað sterkt á marga lesendur. Álit Guðbjargar Þórisdóttur bókmenntafræðings og skólastjóra, í grein í Andvara 1992, var að líðan Diljár og hugarangur hefði hreyft meira við konum en körlum sem hefðu aftur á móti sýnt persónu Steins Elliða meiri athygli gegnum tíðina.

Silfá er dæmi um nafn sem endar eins og Diljá. Um síðustu áramót voru 30 Silfár í þjóðskránni. Í Nöfnum Íslendinga eru tilgreindir eldri rithættir nafnsins, Silpha/Silphá, og það sagt skylt Silva og Silvía, sbr. latneska orðið silva 'skógur'.

Á fyrri öldum mátti láta Maríunafnið ríma við orð eins og , sjá, o.s.frv. Má hér nefna Maríuvísur þær sem Árni Magnússon sagði „uppskrifaðar úr þeim rotnu kálfskinnsblöðum“ frá Hofi í Vopnafirði. Upphafið er „Enginn heyrði og enginn sá, engin tungan greina má, hversu að dýr er drottning sjá, drottins móðir, Máríá“ og er sama mynstri fylgt öll 16 erindin. Hefðin lifir að þessu leyti í kvæði Davíðs Stefánssonar sem orti Máríá, mild og há“ sem sungið er við alþekkt lag Páls Ísólfssonar.