Selfoss Salurinn góði er í neðri hluta þessa hálfkaraða turnhúss.
Selfoss Salurinn góði er í neðri hluta þessa hálfkaraða turnhúss. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ætla má að kostnaður við að fullgera menningarsal við Hótel Selfoss geti orðið allt að 1.200 millj. kr. og nú er leitað leiða til þess að hefja framkvæmdir. Salurinn er í turnbyggingu hótelsins sem var reist fyrir um 50 árum

Ætla má að kostnaður við að fullgera menningarsal við Hótel Selfoss geti orðið allt að 1.200 millj. kr. og nú er leitað leiða til þess að hefja framkvæmdir. Salurinn er í turnbyggingu hótelsins sem var reist fyrir um 50 árum. Þótt aðrir hlutar byggingarinnar, sem síðar var stækkuð frá upphaflegri gerð, séu tilbúnir er salurinn ófrágenginn. Mikill vilji hefur verið til að bæta þar úr og á dögunum áttu fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar vegna þessa fund með Lilju Dögg Alfreðsdóttur ráðherra menningarmála.

Frá 2016 liggur fyrir samkomulag við ríkið um stuðning við verkefnið. Þá var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við verkefnið yrði 600 millj. kr. og að ríkið myndi greiða 60% á móti 40% hlut heimamanna. Þá er einnig horft til aðkomu eigenda hótelhluta hússins.

„Okkur er í mun að hefjast megi handa sem fyrst,“ segir Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar og forseti bæjarstjórnar Árborgar. „Nýverið tóku nýir eigendur við hótelinu og við væntum þess að þeir leggi lið. Fyrir þá reikna ég með að samkomusalur sem tekur allt að 370 manns í sæti geti skapað mikla möguleika, t.d. varðandi ráðstefnuhald og slíkt. Fyrir samfélagið hér á Suðurlandi, til dæmis tónlistarlíf og leiklistarstarf, væri líka til eflingar að fá salinn í gagnið sem fyrst.“ sbs@mbl.is