Rjúpa Ófáir landsmenn hafa skoðanir á því hvernig veiðum er stýrt.
Rjúpa Ófáir landsmenn hafa skoðanir á því hvernig veiðum er stýrt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján Jónsson kris@mbl.is Gert er ráð fyrir að stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu komi út í haust en Umhverfisstofnun stýrir þróunarverkefni sem hófst árið 2021 um gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir tegundir villtra fugla og spendýra á Íslandi.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Gert er ráð fyrir að stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu komi út í haust en Umhverfisstofnun stýrir þróunarverkefni sem hófst árið 2021 um gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir tegundir villtra fugla og spendýra á Íslandi.

Fyrsta áætlunin sem gefin verður út fjallar um rjúpu og sú næsta í röðinnni verður líklegast um lunda. Samstarfshópar, leiddir af Umhverfisstofnun, eru stofnaðir um hverja áætlun og í þeim eru ýmsir hagsmunaaðilar, sérfræðingar og stofnanir.

Freyja Pétursdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, tjáði Morgunblaðinu í gær að áætlunarinnar um rjúpu gæti verið að vænta í haust. Spurð um áætlun varðandi lunda, sem einnig er á dagskrá, segir Freyja þá vinnu vera á byrjunarstigi.

Liðsauki að utan

Að sögn Freyju voru á dögunum haldnar vinnustofur hjá Umhverfisstofnun um gerð stjórnunar- og verndaráætlana. Annars vegar um rjúpu í þrjá daga og um lunda í tvo daga.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrustofu, Fuglaverndar og SKOTVÍS tóku þátt í vinnustofunni. Bandarískur prófessor, Fred A. Johnson, stýrði vinnustofunni en hann starfar við háskóla bæði í Flórída og Árósum.

„Í Árósum ber hann ábyrgð á rannsóknum tengdum stjórnunar- og verndaráætlunum villtra fugla í Evrópu. Fred er með áratuga reynslu af rannsóknum í stofnvistfræði, tölfræðigreiningum, stofnlíkanagerð og ákvörðunarfræðum,“ segir Freyja.

Innleiða nýja aðferðafræði

Hún er ánægð með hvernig vinnunni vindur fram.

„Óhætt er að segja að góður árangur hafi náðst í vinnustofunni og samstarfið gekk vel. Vinnustofan var mikilvægt skref í að innleiða nýja aðferðafræði sem er gerð til þess að auka gagnsæi og efla traust milli stofnana, hagsmunaaðila og almennings. Stjórnunar- og verndaráætlanirnar eru unnar eftir aðferðafræði sem kallast Adaptive Harvest Management sem hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu á síðustu árum. Aðferðafræðin hefur einnig verið notuð með góðum árangri í Bandaríkjunum á síðustu áratugum við veiðistjórn á villtum fuglum. Aðferðafræðin byggir á þverfaglegum grunni þar sem áhersla er lögð á aðkomu hagsmunaaðila í ákvarðanatökuferlinu, aukið gagnsæi og meiri fyrirsjáanleika við ákvarðanatöku,“ segir Freyja enn fremur.

Á næstu vikum verða birtar á heimasíðu Umhverfisstofnunar helstu niðurstöður úr vinnustofunum, næstu skref við gerð áætlananna og tímalína fyrir innleiðingu.