Einar Guðni Ólafsson fæddist í Reykjavík 11. maí árið 1945. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum 4. febrúar 2023.

Foreldrar Einars voru Sigríður Marín Einarsdóttir húsfreyja, frá Bakka í Dýrafirði, f. 4. október 1921, d. 27. október 2011 og Ólafur Friðrik Gunnlaugsson dagbókari, frá Brimilsvöllum, Snæfellsnesi, f. 23. júní, d. 30. október 1986.

Einar Guðni átti eina systur, Guðlaugu, f. 1950.

Einar var giftur Kristbjörgu S. Þorsteinsdóttur, f. 25. júlí 1948, þau giftust í febrúar 1971 og eignuðust þau þrjár dætur: 1) Þóra Sigfríður, f. 17. september 1971, maki Smári Viðarsson og börn þeirra eru Einar Örn, f. 1989, maki Guðrún Ása Eysteinsdóttir, f. 1990, Sunneva, f. 1989 og Hinrik Atli, f. 1995. 2) María Sunna, f. 5. júlí 1975, maki Smári V. Waage, börn þeirra eru Daníel, f. 1994, Katrín Ósk, f. 1999 og Davíð Emil, f. 2007. 3) Sigríður Lára, f. 1978, maki Ólafur Ingi Stígsson, börn þeirra eru Stígur Annel, f. 2001, Mikael Guðni, f. 2003 og Rebekka Myrra, f. 2009.

Langafabörnin eru þrjú, Rakel Þóra, Óliver Smári og Melina Helga.

Einar Guðni ólst upp í Vesturbænum og gekk í Melaskóla og Hagaskóla. Að lokinni hinni hefðbundnu skólagöngu fór hann í iðnnám og lærði vélvirkjun og tók smiðjutíma sinn í Landssmiðjunni. Þótt Einar hafi lært vélvirkjun þá þróaðist hans starfsferill þannig að hann fékkst við pípulagnir á sinni starfsævi og vann sjálfstætt.

Útför Einars fór fram í kyrrþey hinn 10. febrúar 2023, að hans ósk.

Elsku fallegi, sterki, hlýi og bara besti pabbi sem hægt er að hugsa sér að eiga lést laugardaginn 4. febrúar í faðmi fjölskyldunnar. Missir okkar systra, mömmu, barnabarna, langafabarna og tengdasona er gríðarlega mikill.

Það er óbærileg tilhugsun að geta ekki hringt í pabba, knúsað hann, bullað í honum, hlegið með honum, fundið hlýjuna hans og hlustað á hann segja manni frá hinu og þessu sem hann vissi. Að fá hlýju móttökurnar hans og brosið þegar maður kíkti til hans í heimsókn; „ert þetta þú rósin mín“ og þegar við kvöddumst hlýlegt knús eða fingurkoss og oftar en ekki kveðjuna „Guð veri með þér“.

Pabbi okkar var fyrst og fremst fjölskyldumaður og ekkert mikilvægara í hans lífi en elsku mamma, sem hefur nú misst sinn besta vin, og við dætur hans, tengdasynir, barnabörn og barnabarnabörn. Pabbi var einstaklega hjartahlýr og elskaði ekkert meira en fjölskylduna sína og samverustundir með henni. Þessi hlýja er einmitt það sem tengdasynir hans tala allir um að hafa tekið fyrst eftir þegar þeir kynntust honum og hversu greiðvikinn hann var og alltaf tilbúinn að hjálpa. Enda heillaði hann fólk alls staðar sem hann kom og ég veit að margir munu minnast hans með hlýhug.

Pabbi var alltaf svo áhugasamur um allt sem var að gerast í lífi okkar systra og fjölskyldna og hvatti okkur áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur og maður fann alltaf hvað hann var stoltur af okkur og við systur vissum alltaf að við vorum elskaðar. Hann stóð einnig alltaf eins og klettur við bakið á manni, sama hvað bjátaði á, og það var svo gott að geta leitað til hans. Elsku pabbi var einnig var mikill náttúrunnandi og fullur af fróðleik um allt sem tengdist náttúrunni, hvort sem það var um plöntur, dýr, eldfjöll eða himingeiminn. Hann gat nefnt flesta hóla, dali og ár og þekkti flesta fugla á flugi og hljóðin þeirra og hefði getað sagt þér allt um flóru Íslands. Fróðari mann er erfitt að finna, enda hefur okkur alltaf þótt við eiga besta, klárasta og sætasta pabbann.

Hann elskaði allt sem tengdist útivist og leið hvergi betur en úti í náttúrunni, hvort sem var á sjó eða landi, sigldi á bátnum sínum og gekk um fjöll og firnindi.

Pabbi var mikill húmoristi og sagði okkur systrum sögur og ævintýri þegar við vorum yngri með miklum tilþrifum og leik, þannig að við vorum gjörsamlega agndofa og hlustuðum með mikilli innlifun. Svo þegar barnabörnin fæddust fengu þau að líka að njóta og heyra þessar sögur og ævintýri með sömu tilþrifum enda átti pabbi einnig einstakt samband við barnabörnin sín. Við erum óendanlega þakklátar fyrir allar góðu minningarnar og allt sem þú kenndir okkur. Nú tekur við nýr og breyttur veruleiki sem er að læra að lifa án pabba okkar.

Söknuðurinn nístir og minningarnar sem við eigum um þennan yndislega mann munu halda áfram að hlýja okkur og hugga. Pabbi, við elskum þig og kveðjum þig með miklum trega, þar til við hittumst á ný.

Þínar dætur,

Þóra Sigfríður, María Sunna og Sigríður Lára (Sigga Lára).