Burgess Veldi hinna illu er „að mörgu leyti skemmtileg og dramatísk frásögn, vissulega löng, raunsæ og grimm.“
Burgess Veldi hinna illu er „að mörgu leyti skemmtileg og dramatísk frásögn, vissulega löng, raunsæ og grimm.“ — Ljósmynd/The International Anthony Burgess Foundation
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Veldi hinna illu ★★★★· Eftir Anthony Burgess. Helgi Ingólfsson íslenskaði. Ugla, 2022. Kilja, 604 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Það vantar ekki metnaðinn í þessa miklu sögulegu skáldsögu breska höfundarins Anthony Burgess (1917-1993), sannkallaðan doðrant sem hefst í tíma nærri krossfestingu Krists, sem kemur upprisinn örlítið við sögu, og fylgir nokkrum lærisveina hans og postulum í nær hálfa öld þar sem þeir fara út um löndin við Miðjarðarhaf og kristna fólk. Sjónarhornið færist markvisst og reglulega frá trúboðunum að rómversku keisurunum og átökunum um völdin á þessum tíma – það eru svo sannarlega krassandi lýsingar og frásagnir af taumlausu óhófi, grimmd og spillingu. Og þótt persónugalleríið sé gríðarstórt, og að hluta kunnuglegt þeim sem aldir eru upp við kristna þjóðkirkju og einhverja þekkingu á rómverskri sögu, þá lukkast höfundinum vel að halda sér við nokkrar meginpersónur og samband þeirra á milli, sem heldur sögunni saman allt þar til söguheimurinn hrynur við gosið í Vesúvíusi árið 79 en það færði Pompeii í kaf í glóandi ösku.

Burgess var afskaplega fjölhæfur og afkastamikill listamaður. Þekktasta skáldsaga hans er
A Clockwork Orange, sem Stanley Kubrick gerði eftir rómaða kvikmynd sem höfundurinn afneitaði. Hann skrifaði á fjórða tug skáldsagna, margar sögulegar, og líka ljóð, leikrit og ævisögur, hann var einnig mikilvirkur gagnrýnandi, þýðandi og slyngur málvísindamaður – eins og víða má sjá glitta í í Veldi hins illa, þar sem persónur glíma iðulega við ólík tungumál innan rómverska heimsveldisins og misgóðan skilning á þeim. Svo var Burgess líka afkastamikið tónskáld, samdi á þriðja hundrað skráðra tónverka og þar á meðal þrjár sinfóníur, og þá eru ónefnd handrit að sjónvarpsþáttum en þessi skáldsaga mun hafa orðið til þegar hann var að viða að sér efni og undirbúa skrif handrita að sjónvarpsþáttaröðinni A.D.

Burgess velur að búa til sögumann, Sadok nokkurn, sem situr dauðveikur í skattlandinu Helvetíu undir lok fyrstu aldar, á veldistíma Dómitíanusar keisara, og segir frá útbreiðslu kristninnar í nokkra áratugi þar á undan. Það er sígild aðferð til að komast upp með að blanda allskyns óstaðfestum sögusögnum við staðreyndir og heimildir og gengur ágætlega upp, þótt Sadok stígi þó fullsjaldan sjálfur fram og þessum lesanda hætti til að gleyma honum í orðmörgu flæði frásagnarinnar. En slíkur sögumaður getur komið með fyrirvara inn í frásögnina, um hvað hann viti í raun og þurfi því að skálda, sem fulltrúi höfundarins: „Ég þjáist einnig af því að geta ekki rifjað upp af nægilegri nákvæmni öll smáatriði í þessari margbrotnu sögu, en mest byggir hún á einhverju sem ég heyrði í fyrndinni og vart er hægt á neinn hátt að fá skjalfest svo óyggjandi sé“ (254). Sadok segir frá í þriðju persónu og skyggnist iðulega í hug persóna sinna og skýrir athafnir þeirra og ákvarðanir.

Strax er byrjað að flétta frásögnina úr tveimur meginþáttum, annarsvegar sögu nokkurra lærisveina og fylgismanna Jesú, svokallaðra Nazarena, og glímu þeirra við að kristna fólk, og hinsvegar sögu keisara þess tíma. Mikilvæg undirfrásögn, sem notuð er meðal annars til að sýna fjölmenningu þess tíma og blöndun ólíkra ættbálka innan keisaraveldisins, er ástarsaga rómversks hundraðshöfðingja – Markúsar Júlíusar Trankvillusar sem meðal annars er látinn taka þátt morðinu á Calígúla keisara, og gyðingastúlkunnar Söru sem um tíma er þræll við hirð keisarans. Í hópi hinna kristnu beinast sjónir einkum að gyðingnum Sál, sem var jafnframt rómverskur borgari sem gekk í byrjun hart fram í ofsóknum á hendur kristnum en frelsaðist síðan og tók upp nafnið Páll og leiddi trúboðið af miklum krafti og elju – er þar kominn Páll postuli. Í minni hlutverkum eru til að mynda lærisveinninn og fiskimaðurinn Pétur og sískrifandi læknir, guðspjallamaðurinn Lúkas.

Mesti safinn í frásögninni felst í lýsingum á sturlun keisaranna og illsku þeirra, sem og atburðunum í innsta hring Rómarveldis. Ég er einn ótal margra sem hafa notið þess að vafra um sögufrægar hæðir og rústir Rómarborgar og lesa mér til um þessa tíma, og reyna að sjá fyrir mér og skilja hvað gekk þar á. Frásögn Burgess veldur þar svo sannarlega ekki vonbrigðum – myndirnar sem hann dregur upp af Tíberíusi, Kládíusi, Calígúla og Neró eru svo sannarlega skrautlegar, kostulegar og harmrænar í senn, undirbyggðar af heimildum þess tíma, hvort sem fjallað er um fullkomið virðingarleysið fyrir lífi fólks, svall af öllu tagi, launráð eða bruna borgarinnar.

Veldi hins illa er umfangsmikil söguleg skáldsaga, að mörgu leyti skemmtileg og dramatísk frásögn, vissulega löng, raunsæ og grimm. Þótt hún byggi á öllum þessum heimildum, lýsi söguheimum mjög vel og á köflum ítarlega og fjalli um merkilega sögulega tíma, sem trú milljóna út um heimsbyggðina byggist á, þá er hún að mörgu leyti skrifuð fyrir almennan lesanda, og það býsna vel. Á stundum minnti uppbyggingin á handrit að sjónvarpsþáttum – enda tengdust skrif Burgess einu slíku – eins og svo margir kjósa að sitja löngum stundum yfir um þessar mundir, með vel skrifuðum samtölum og fjölbreytilegu persónugalleríi, þar sem ört er skipt á milli meginsviða þar til allt er leitt saman í lokin undir spúandi eldfjalli.

Helgi Ingólfsson þýðir þessa löngu, flakksömu og orðmörgu sögu lipurlega og á hrós skilið, enda hefur það eflaust verið snúið á stundum að færa þessa tvö þúsund ára gömlu tíma og frásögn sem byggist mikið á Biblíunni og rómverskum heimildum, og á stundum með allskyns málfarspælingum, inn í samtíma okkar á svo flæðandi og eðlilegu máli.