[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frá mínum bæjardyrum séð er allt sem viðkemur músík skemmtilegt, líka það sem öðrum finnst leiðinlegt, svo sem að edita eða fínessa eitthvað. Mér þykja allir hlekkirnir í keðjunni áhugaverðir.

Daníel Máni Konráðsson er að láta húðflúra sig þegar ég slæ á þráðinn til hans. Helvíti mikið rokk í því enda þótt læknar og skrifstofumenn gefi sjómönnum og rokkurum auðvitað lítið eftir í seinni tíð þegar kemur að því að mála strigann sem almættið sá okkur fyrir. Daníel Máni biður að vonum um svigrúm enda ekki gott að koma skipulagi á hugsanir sínar með nál hangandi yfir sér tímunum saman og við ákveðum að mæla okkur mót morguninn eftir.

Þá er Máni, eins og hann er jafnan kallaður, búinn að jafna sig eftir flúrunina en megnið af öðrum handleggnum var undir í þessari lotu. „Þetta er ekki það þægilegasta sem maður gerir, þetta voru einhverjir sex tímar í gær, en fínt þegar það er búið,“ segir hann brosandi meðan við komum okkur fyrir í afdrepi í höfuðstöðvum Morgunblaðsins í Hádegismóum.

Tilefni samtalsins er það að Máni gekk á liðnu ári til liðs við hið goðsagnakennda dauðamálmband Aborted, sem á rætur að rekja til Belgíu, en starfar nú á alþjóðagrunni. Spurður hvernig það hafi komið til upplýsir Máni að aðdragandinn sé í raun langur. „Fyrir um áratug, þegar ég var um tvítugt, hlustaði ég mikið á Aborted og leit upp til tveggja gítarleikara í bandinu,“ segir Máni en svo skemmtilega vill til að hann kemur nú í staðinn fyrir annan þeirra, Mendel bij de Leij. Aborted var stofnað í Belgíu árið 1995 en hefur tekið miklum breytingum í áranna rás og lagað sig að tíðarandanum, að sögn Mána, öfugt við mörg bönd sem spila bara sömu gömlu slagarana á tónleikum. „Við erum ekki að spila mikið gamalt efni á tónleikum. Það er styrkleikamerki og eitt af því sem heillar mig mest við bandið.“

Máni lét sér ekki nægja að hlusta á Aborted heima í herbergi á þessum tíma, heldur setti sig í samband við meðlimi bandsins á netinu. Þeim hefur greinilega litist vel á það sem Máni var að gera og fengu hann í áheyrnarprufu. „Það passaði ekki inn í mengið á þeim tíma,“ segir hann, „en ég hélt áfram smá sambandi við Sven de Caluwé, söngvara og stofnanda Aborted, án þess þó að leiða meira hugann að því næstu árin að ganga til liðs við þá.“

Meira gerðist heldur ekki fyrr en íslenska málmbandið Une Misère, sem Máni er í, fór á Evróputúr með Aborted og pólska bandinu Decapitated árið 2019. „Þá endurnýjuðum við kynnin. Fljótlega eftir það hætti annar gítarleikarinn og eitt leiddi af öðru. Einn af mínum styrkleikum er að semja lög og þarna var ég líka nýbúinn að gera plötu með hinu bandinu mínu hérna heima, Ophidian I, sem var vitnisburður um það sem ég stend fyrir í tónlist. Úr varð að ég sendi Sven og strákunum í Aborted sex eða sjö lög og var í framhaldinu ráðinn í bandið. Eitt af þessum lögum, Infinite Terror, er einmitt nýjasti síngull Aborted; kom út síðasta haust.“

– Munu hin lögin koma út líka?

„Já, ég á von á því. Við erum langt komnir með að semja nýja plötu og ég á talsvert af lögum á henni.“

Fyrsta verkefni Mána með Aborted var að koma fram á nokkrum tónlistarhátíðum í Evrópu síðasta sumar. Í þeirri lotu var Infinite Terror einnig hljóðritað og myndband tekið upp sem áhugasamir geta flett upp á YouTube. Hann fór líka í fjögurra vikna tónleikaferð með Aborted um Bandaríkin síðasta haust, ásamt dauðkjarnabandinu Lorna Shore, sem hann segir hafa verið mikla veislu. „Þetta voru svona 1.000 til 2.000 manna staðir, alls staðar uppselt og stemningin gríðarleg. Bandaríkjamenn eru harðari en við hérna í Evrópu; mæta fyrr á staðinn og eru komnir til að skemmta sér. Það er mjög gaman að spila fyrir þá.“

Hálfgert hirðingjaband

Aborted var stofnað í Belgíu en á sér eiginlega ekkert varnarþing lengur. „Þetta er hálfgert hirðingjaband í dag. Sven er eini Belginn en auk mín eru þarna bassaleikari frá Ítalíu, Stefano Franceschini, og gítarleikari og trommari frá Bandaríkjunum, Ian Jekelis og Ken Bedene. Við búum allir í okkar heimalöndum en komum saman þegar til stendur að túra eða taka upp nýtt efni. Þess á milli vinnum við bara saman í fjarvinnu. Það er praktískt og gengur ágætlega.“

– Þannig að þú þarft ekki að flytja utan út af Aborted?

„Nei, ekki þannig lagað, en ég á samt frekar von á því að flytja til útlanda á einhverjum tímapunkti í framtíðinni.“

Sven er elstur þeirra félaga, á fimmtugsaldri, en hinir fjórir eru allir rétt skriðnir yfir þrítugt. „Þetta eru toppgæjar og okkur kemur mjög vel saman enda á svipuðum stað í lífinu,“ segir Máni.

– Hvernig upplifun er að vera orðinn hluti af þessu merkilega bandi?

„Svolítið súrrealískt,“ svarar hann hlæjandi. „Ekki síst vegna þess að ég talaði eiginlega ekki um þetta við neinn fyrr en allt var í höfn. Þetta er svolítið steikt en fyrst og síðast gaman. Samstarf okkar varð fljótt mjög náttúrulegt. Þetta eru frábærir músíkantar og alltaf tilhlökkunarefni að fara á svið með þeim. Maður veit að eitthvað magnað er að fara að gerast.“

Næstu verkefni Aborted eru Bandaríkjatúr í apríl og svo kemur bandið fram á einhverjum sumarfestivölum. Í haust er skónum svo stefnt í hljóðver í Denver í Bandaríkjunum til að taka upp nýja plötu. Gert er ráð fyrir sex vikum, þar sem allir lausir hnútar verða hnýttir. „Ætli platan komi svo ekki út snemma á næsta ári,“ segir Máni.

– Blasir ekki við að Aborted komi til Íslands og haldi tónleika?

„Það hefur komið til tals að koma til Íslands en ekkert orðið úr eða planað enn. Það kemur að því einn daginn þegar stjörnurnar raðast þannig upp er ég nokkuð viss um.“

Ég veiti því athygli að Máni gengur undir nafninu Dan Konradsson ytra. „Já,“ segir hann brosandi. „Þó nafnið Máni sé ekkert sérlega flókið þá er reynsla mín sú að útlendingar eigi alla jafna frekar erfitt með að bera það fram, svo vel sé. Þannig að ég einfalda bara hlutina og kalla mig Dan.“

– Kom ekki til álita að rokka þetta ennfrekar upp og nota Dan Moon?

Nú skellihlær Máni. „Nei, veistu, ég held að það sé ekki að gera sig.“

Við getum verið sammála honum um það.

Veikur í sex ár

Máni nýtur þess sérstaklega að standa á sviði í dag. Ekki nóg með að heimsfaraldurinn hafi höggvið allt tónleikahald í herðar niður um langa hríð, heldur glímdi hann þar á undan árum saman sjálfur við erfið veikindi. „Það byrjaði þegar ég var rúmlega tvítugur. Ég fékk flensu og pældi svo sem ekkert meira í því. Nema hvað vikurnar liðu og ég náði mér ekki; var alltaf hálfslappur og nefið á mér stíflað. Síðan fékk ég hellu fyrir annað eyrað sem losnaði ekki. Mér var sagt að ég væri með sambland af slæmu ofnæmi, mögulega út af myglu og öðru, en engin endanleg greining lá fyrir.“

Næstu sex árin eða svo gekk Máni ekki á öllum strokkum, reyndi þó að vinna en var mikið frá vegna veikinda. „Ég var alltaf þreyttur og máttlítill og greip allar pestir og varð mjög veikur mjög hratt. En reyndi samt að harka af mér.“

Hann hafði ekki burði til að koma fram á tónleikum en greri nánast saman við gítarinn heima hjá sér. „Ég spilaði mjög mikið á gítarinn, aðallega til að halda höndunum uppteknum, og ætli það hafi ekki átt stóran þátt í að koma mér í gegnum þennan tíma. Það jákvæða við það var að ég er miklu betri gítarleiki eftir veikindin en ég var fyrir þau,“ upplýsir hann brosandi.

Það var ekki fyrr en Máni komst í kynni við Unni Steinu Björnsdóttur ofnæmislækni að land fór að rísa. Hún setti hann á öflug ofnæmislyf og sendi hann í tvær aðgerðir; fyrst á nefi til að auka loftflæðið og síðan á höfði, þar sem skorið var í höfuðkúpuna. „Mér snarbatnaði eftir það og hef verið góður síðan, það eru um það bil þrjú ár. Í dag er ég hraustur og frekar aktífur; er auðvitað á kafi í tónlistinni en stunda líka líkamsrækt og þarf ekkert að hlífa mér. Þetta er allt annað líf.“

Þrátt fyrir mótlætið missti Máni ekki móðinn og eftir að hann endurheimti heilsuna hefur sýnin verið mjög skýr – hann er staðráðinn í að skapa tónlist og helst vinna við hana í fullu starfi. „Strax og ég hafði heilsu til fór ég að vinna fyrstu plötu Ophidian I og fékk mikla útrás. Frá því að ég var krakki hef ég fengið að heyra að enginn geti unnið við tónlist á Íslandi og það á sérstaklega við um viðhorf fólks til þungarokks. „Þú verður að fá þér einnhverja vinnu með þessu, drengur!“ Þessi afstaða hefur alltaf verið mér hvatning, sérstaklega eftir að ég náði mér af veikindunum, og núna frá síðustu áramótum hef ég ekki starfað við neitt annað en þungarokk. Sem er dásamlegt. Ég viðurkenni að það er stundum fyndið að sitja heima og semja ný riff og það er bara það sem ég á að vera að gera. Þetta er vinnan mín!“

Hann hlær.

„Ég hef lagt hart að mér og núna er ég kominn á þann stað þar sem mig hefur alltaf dreymt um að vera. Fyrir það er ég rosalega þakklátur. Frá mínum bæjardyrum séð er allt sem viðkemur músík skemmtilegt, líka það sem öðrum finnst leiðinlegt, svo sem að edita eða fínessa eitthvað. Mér þykja allir hlekkirnir í keðjunni áhugaverðir.“

– Er gott upp úr þessu að hafa? Þá er ég kannski fyrst og fremst að tala um Aborted.

„Það er alveg upp úr þessu að hafa, ef menn hafa eitthvað fram að færa. Það sá ég á Bandaríkjatúrnum. Ég sé klárlega framtíð í þessu. Þess utan er geggjað að ferðast svona mikið og sjá alla þessa nýju staði.“

Hvar hafa þessir gaurar verið?

Fyrsta plata tæknidauðamálmbandsins Ophidian I, Desolate, kom út 2021 á vegum frönsku útgáfunnar Season of Mist. „Hún var nokkurn veginn tilbúin í lok árs 2019 en þegar heimsfaraldurinn skall á ákváðum við að bíða aðeins með útgáfuna og sjá til. Svo lagaðist ástandið ekkert, þannig að við létum bara slag standa 2021, eftir hvatningu frá útgáfunni. Þau hjá Season of Mist eru frábær og hafa mikla trú á bandinu, eins og fleiri íslenskum böndum.“

Desolate féll í frjóa jörð hjá leikum sem lærðum og seldist vel, að sögn Mána, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Enda spratt bandið svo að segja fullskapað fram. „Hm, hvar hafa þessir gaurar eiginlega verið?“ spurðu málmelskir sig og hleyptu brúnum. Samningur Ophidian I hljóðar upp á tvær plötur til viðbótar og Máni vonast til að sú næsta verði tilbúin á þessu ári. Efnið sé klárt, nú þurfi bara að finna tíma til að taka það upp. Það verður gert í hljóðveri sem hitt bandið hans hér heima, Une Misère, á í Ármúlanum en mögulega að einhverju leyti líka í Sundlauginni í Mosfellsbæ, því fræga hljóðveri Sigur Rósar.

Fyrsta plata Une Misère, Sermon, kom út 2019. Máni átti ekki formlega aðild að bandinu þá en var í góðu vinfengi við liðsmenn og hafði um tíma verið þeim innan handar, lánað þeim græjur, gefið þeim hollráð og fleira. Íslenska málmsamfélagið er mjög þétt, eins og við þekkjum. Eftir að platan kom út bættist hann í hópinn og fór með Une Misère á Evróputúr, sem fyrr var getið, og síðan í frægan Bandaríkjatúr snemma árs 2020 sem lauk eftir aðeins eitt gigg. „Strákar, það er skollinn á heimsfaraldur. Þið skuluð drífa ykkur heim!“ Máni segir það að vonum hafa verið sár vonbrigði en þeir náðu þó aðeins að stimpla sig inn vestra.

Annar skellur kom í byrjun síðasta árs þegar þáverandi söngvari Une Misère var látinn fara eftir að ásakanir á hendur honum um óviðeigandi hegðun komu fram opinberlega. Máni segir það mál hafa verið gríðarlega erfitt og reynt á menn en aldrei hafi annað komið til greina en að halda starfinu áfram. Nýr söngvari, Rúnar Geirmundsson, var fenginn að hirðinni. Spurður hvort það hafa verið auðvelt val svarar Máni: „Mjög svo. Það kom eiginlega enginn annar til greina. Rúnar er frábær söngvari og frontmaður, auk þess að vera eðalgæi. Hann hefur meira verið að einbeita sér að kraftlyftingum og öðru undanfarið og var ekki starfandi í neinu bandi. Það var okkar gæfa. Við erum strax búnir að tengja vel við Rúnar.“

Fyrsta lag Une Misère með Rúnar á oddinum, Misery Lives Forever, kom út í síðasta mánuði og því fylgdi myndband sem þeir piltar gerðu sjálfir. Máni segir stefnuna að halda áfram á sömu braut, semja og gefa sæmilega reglulega út lag og lag til að minna á tilvist bandsins.

Töluverður munur á böndum

Fyrir leikmannseyrað er hljóðheimur Aborted, Ophidian I og Une Misère ábyggilega nokkuð áþekkur. Níðþungur málmur, spartverskur og virtúósískur hljóðfæraleikur og ógurleg keyrsla. Það er eins og að menn eigi lífið að leysa. „Auðvitað eru einhver líkindi en fyrir mér er samt töluverður munur á þessum böndum,“ segir Máni brosandi. „Ophidian I er rosalega melódískt band en tónlistin mjög hröð. Aborted er líka mjög hratt og þungt band en aggressífara og óheflaðra og minni melódía, þó hún sé alveg þarna. Það er ákveðin orka sem þarf að skila af sér. Tónlist Une Misère er einfaldari og meira hreint og beint þungarokk sem höfðar líklega til breiðari hóps.“

Máni kann vel við sig í öllum böndum og vonast til að geta starfað með þeim öllum sem lengst. „Draumastaðan er að öll þessi bönd geti gefið út efni og túrað reglulega.“

– Hlýtur það samt ekki á endanum að skarast eitthvað?

„Jú, það er óhjákvæmilegt. Ég verð til dæmis ekki með Une Misère á Wacken Metal Battle, þar sem við erum sérstakir gestir, hér heima í apríl vegna þess að ég verð með Aborted í Bandaríkjunum. Það leysist hins vegar alveg fyrir þær sakir að tveir aðrir gítarleikarar eru í bandinu. Þetta er erfiðara með Ophidian I en þar erum við bara tveir á gítar og erfitt að taka gigg ef ég er fjarverandi.“

Er í fjarsambandi

Líf Mána hverfist að vonum fyrst og síðast um tónlist en spurður um önnur áhugamál nefnir hann annars vegar ljósmyndun og hins vegar hjóla- og skíðabretti. „Mér finnst gaman að taka myndir og er alltaf með myndavélina með mér á tónleikaferðalögum. Ég var mikið á brettum þegar ég var yngri og fylgist enn mjög vel með þeim heimi en verð sjálfur að fara varlega svo ég slasi mig ekki á höndum.“

Hann brosir.

Já, það er ekki gott að vera handlama gítarleikari.

Talið berst að persónulegum högum og í ljós kemur að Máni er í fjarsambandi; kærasta hans, sem er bandarísk, býr í Seattle. Þau byrjuðu saman síðasta haust og Máni segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um sambúð eða þá hvort þau komi til með að búa á Íslandi eða í Bandaríkjunum eða jafnvel annars staðar. „Hún hefur enn ekki komið hingað en ég er hrifinn af Seattle og hef eytt töluverðum tíma þar síðustu mánuði. Seattle er skemmtileg borg og auðvitað fræg fyrir öflugt tónlistarlíf. Kannski flyt ég bara þangað?“

Við ljúkum spjallinu á stöðu þungarokksins á heimsvísu og hér í fásinninu. „Ég held að hún hafi aldrei verið betri. Það er nokkuð klárt,“ byrjar Máni og það lifnar yfir honum. „Maður finnur glöggt hvað þungarokkið er vinsælt þegar maður túrar erlendis og er alltaf meira og meira að koma inn í meginstrauminn, sem er jákvætt þó alltaf séu einhverjir sem vilji halda þessu út af fyrir sig. Hér heima er þungarokkið alltaf að verða betra, skemmtilegra og fjölbreyttara. Þegar ég var að byrja fyrir rúmum tíu árum var ekkert band með samning við erlenda útgáfu, nú eru þau fjölmörg. Svartmálmbylgjan hefur svolítið drifið þetta áfram og bönd eins og Sólstafir plægt akurinn fyrir okkur hina. Gróskan er mikil og mér sýnist fullt af nýjum böndum vera að koma fram. Það eru spennandi tímar framundan!“