Hellnar Vinsæll áfangastaður á Snæfellsnesi. 26 metra langur sjóvarnargarður verður lagfærður í sumar.
Hellnar Vinsæll áfangastaður á Snæfellsnesi. 26 metra langur sjóvarnargarður verður lagfærður í sumar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ráðist verður í endurbætur og viðhald sjóvarnar við bryggjuna við Hellna á Snæfellsnesi í sumar. Vegagerðin hefur fengið leyfi frá Umhverfisstofnun til þessarar framkvæmdir sem er innan friðlýsts svæðis strandarinnar við Stapa og Hellna

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ráðist verður í endurbætur og viðhald sjóvarnar við bryggjuna við Hellna á Snæfellsnesi í sumar. Vegagerðin hefur fengið leyfi frá Umhverfisstofnun til þessarar framkvæmdir sem er innan friðlýsts svæðis strandarinnar við Stapa og Hellna.

Um er að ræða 26 metra langan kafla sem er vörn fyrir húsið sem stendur á svæðinu. Áætlað er að í verkið fari um 300 rúmmetrar af grjóti og kjarna en efni til framkvæmdarinnar mun koma úr grjótnámu við efri Höfða, Rifi.

„Að verkinu kæmu 2-3 starfsmenn með beltagröfu eða hjólaskóflu og vörubíl. Tæki munu keyra eftir aðkomuvegi að bryggju og bryggjunni sjálfri. Verktími er áætlaður 3-5 dagar og yrði farið í framkvæmdina í ágúst eða september 2023,“ segir í lýsingu á verkinu frá Vegagerðinni.

Ekki áhrif á verndargildi svæðisins til lengri tíma

Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins til Vegagerðarinnar kemur fram að sveitarfélagið hafi sótt um að þetta verk yrði unnið og það sé á gildandi samgönguáætlun 2020-2024. Áætlað er að kostnaður verði á bilinu þrjár til fjórar milljónir króna.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin telji líklegt að þessar endurbætur hafi áhrif á lífríki fjörunnar á framkvæmdasvæðinu og upplifun gesta sem heimsækja svæðið. „Framkvæmdin er þó ekki talin líkleg til að hafa neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins til lengri tíma litið þar sem um er að ræða endurbætur á núverandi sjóvörnum,“ segir í umsögninni

„Framkvæmdin mun bæta öryggi á svæðinu til lengri tíma litið þar sem garðinum er ætlað að verja bryggju sem gestir svæðisins nýta. Gæta þarf þó að öryggi gesta á meðan framkvæmd fer fram og loka aðgengi gesta að vinnusvæðinu,“ segir þar ennfremur.