„Það besta við að búa á Íslandi er að maður hefur leyfi til að vera með alls konar hatta. Ég hef nýtt mér það óspart. Ég er alla ævi búin að vera með tvær ferilskrár og eiginlega tvo fataskápa; annars vegar fyrir söngkonuna og hins vegar fyrir viðskiptakonuna. Ég elska að mega vera hvað sem er árið 2023,“ segir Svanlaug Jóhannsdóttir.
„Það besta við að búa á Íslandi er að maður hefur leyfi til að vera með alls konar hatta. Ég hef nýtt mér það óspart. Ég er alla ævi búin að vera með tvær ferilskrár og eiginlega tvo fataskápa; annars vegar fyrir söngkonuna og hins vegar fyrir viðskiptakonuna. Ég elska að mega vera hvað sem er árið 2023,“ segir Svanlaug Jóhannsdóttir. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að segja bless við barnið mitt er það hræðilegasta sem ég hef gengið í gegnum, en hann hefði aldrei getað átt gott líf og því fékk hann að fara.

Morgunblaðið/Ásdís

Í Urðarhvarfinu með útsýni til fjalla hitti blaðamaður Svanlaugu Jóhannsdóttur, fyrirtækjaeiganda, frumkvöðul og söngkonu. Orðið lífskúnstner kemur líka upp í hugann, en Svana, eins og hún er ávallt kölluð, hefur komið víða við. Hún hefur búið á Spáni, í London, í Ekvador og Argentínu, starfað við leikhús og lært söng en beinir nú kröftum sínum að fyrirtækinu OsteoStrong sem hún á og rekur með eiginmanninum Erni Helgasyni. Listin er þó aldrei langt undan; Svana syngur og leikur í hjáverkum og er von á kvikmynd frá henni bráðlega.

Örn kemur og heilsar upp á blaðamann og afsakar bilaða kaffivél en mætir með frískandi mangódrykk í kampavínsglösum. Það lífgar upp á gráan hversdagsleikann og er góð tilbreyting frá kaffisullinu. Svana er komin í stellingar og hefur sannarlega frá mörgu að segja, enda hefur hún upplifað bæði sorgir og sigra í lífinu.

Lærimæður í listum

Svana átti ljúfa og góða æsku en hún er uppalin í Reykjavík.

„Ég hélt alltaf að ég væri alin upp í sveit því það var svo stórkostlegur mói á bak við húsið okkar í Skipholtinu. Ég var alltaf að tala við álfana því það voru ekki margir krakkar í hverfinu,“ segir Svana og brosir.

„Ég gekk í Ísaksskóla hjá Herdísi Egilsdóttur og fór svo síðar í kór hjá Möggu Pálma. Þær eru lærimæður mínar í listinni og kannski ástæðan fyrir því hvað ég er á góðum stað í dag. Það er ekki alls staðar sem maður finnur svona frumkraft og hlýju og rými til sköpunar eins og hjá þeim. Þegar maður er með áhuga á öllu er ómetanlegt að fá að stíga inn í þeirra veröld,“ segir Svana og segist sem barn alltaf hafa verið að syngja.

Í Ísaksskóla byrjaði hún daginn með söng og hélt Svana að þannig byrjaði allt fólk sinn dag.

„Við settumst aldrei í sætin okkar fyrr en búið var að syngja. Ég man svo þegar ég byrjaði í venjulegum grunnskóla að ég stóð bara eins og hálfviti við stólinn minn á meðan aðrir krakkar hlömmuðu sér í stólana sína. „Hvað eru þau að gera? Vita þau ekki hvernig lífið virkar?“, segist Svana hafa hugsað.

Þegar Svana var um átta ára gömul fékk hún hlutverk í Stundinni okkar og lék þar með Eddu Heiðrúnu Backman.

„Það var engu líkt og mér leið alltaf eins og við værum jafningjar, þó að hún væri stjarna og ég bara barn. Hún var svo mikill fagmaður,“ segir Svana og segist eftir þessa upplifun hafa ákveðið að verða leikkona.

„Þegar mér var sagt að ég þyrfti að sækja launatékkann minn man ég að ég hugsaði að þetta væri fullkomið; ég gæti orðið leikkona og fengið greidda peninga! Ég man ég hitti afa minn stuttu síðar og sagði honum að ég ætlaði að verða leikkona. Hann sagði að það gengi ekki; leikkonur hefðu ekki efni á að gefa börnum sínum að borða. Ég hugsaði málið og næst þegar ég hitti hann sagði ég honum að ég myndi verða leikkona með hlutverk; ég myndi finna út úr hlutunum og hann þyrfti ekki að vorkenna mér. En svo varð ég aldrei leikkona þó ég sé „performer“ og söngkona og hafi samið sjálf leikverk,“ segir hún og segir að hið listræna hafi ávallt fylgt sér.

„Annað heilahvelið er listrænt en hitt snýr að viðskiptahliðinni. Í MR var ég í stjórn Herranætur en var líka í eðlisfræðideild,“ segir Svana, en hún er með BS í viðskiptafræði og meistaragráðu í listum.

Þegar heimurinn ferst

Svana tók sér ársfrí frá menntaskólanámi og fór sem skiptinemi til Ekvadors sautján ára gömul.

„Þetta var mjög afdrifaríkt ár í sögu Evkadors. Það varð fjármálahrun og það hurfu 90% af öllum peningum fólksins. Pabbinn á heimilinu lokaði sig inni í herbergi í viku því hann missti vinnuna sem var mikil skömm fyrir hann. Það er mjög erfitt að vera inni á heimili fólks þegar heimurinn er að farast,“ segir Svana og segist hafa orðið „kaþólsk“ í hugsun á þessu ári.

„Þetta var töff ár en líka geggjað. Ég fór tvisvar til Galapagos-eyja og inn í frumskóginn,“ segir Svana og segir ævintýraþrána alltaf hafa blundað í sér.

Eftir stúdentspróf lá leiðin úr elstu menntastofun landins í þá nýjustu, en Svana lærði viðskiptafræði við HR, með viðkomu í Barcelóna í skiptinámi.

„Í HR fékk ég hvatningu en þar er svo mikið frelsi og mikil nýsköpun. Þar fékk ég leyfi til að hugsa á nýjan hátt,“ segir hún og segist hafa lagt leiklistardraumana á hilluna en datt í hug að hún gæti mögulega orðið framleiðandi eða verkefnastjóri í leikhúsi. Svana skrifaði einmitt lokaritgerð sína um verkefnastjórnun í listræna geiranum.

„Ég var að reyna að vera skynsöm,“ segir Svana þegar blaðamaður nefnir að hún hafi valið praktískt nám fram yfir leiklist.

Fékk tækifæri í fangið

„Ég var svo á námskeiði í verkefnastjórnun þegar einn félagi úr bekknum spyr mig hvað væri mitt draumaverkefni. Ég hafði aldrei pælt í því en svaraði: „Það væri að setja upp söngleikinn Litlu stúlkuna með eldspýturnar“,“ segir Svana og segir að kvikmynd byggð á söngleiknum hafi verið sýnd á RÚV fyrir jólin í áraraðir. Svana hafði reynt að leita að upplýsingum um söngleikinn, en ekki fundið, enda var netið ekki komið á þessum árum. En þessum vini tókst að hafa uppi á höfundi söngleiksins úti og lét Svönu hafa þær upplýsingar.

„Ég sendi honum línu og sagðist vera stelpa á Íslandi sem langaði að setja upp þetta verk. Hann svaraði mér, sendi mér handritið og tónlistina og sagði: „Góða skemmtun og þú þarft ekki að borga mér.“ Þetta var alveg risafjárfesting þegar maður er 22 ára og í háskóla. En þarna fékk ég tækifæri í fangið og þegar það gerist þá hleyp ég með það,“ segir hún og segist hafa fengið pabba sinn með sér í lið og var söngleikurinn settur upp í Íslensku óperunni.

„Hann fékk svo tilnefningu til Grímunnar, en ég söng ekki sjálf í söngleiknum heldur var framleiðandi, í markaðsmálum og aðstoðarleikstjóri, enda hélt ég þá að það væri það sem ég vildi gera,“ segir hún og segir alla þrjá höfunda verksins hafa komið til Íslands til að sjá söngleikinn.

„Þeir sögðu þetta vera bestu útgáfuna sem þeir hefðu séð og buðu mér í kjölfarið að koma að vinna með sér í London. Þar var ég svo sýningarstjóri á West End í tvö ár, í fimm leikhúsum. Þetta var geggjaður skóli, en ég fann þá að mig langaði upp á svið.“

Tangósöngur í Argentínu

Eftir ævintýrið í London flutti Svana heim og fór að vinna með Jakobi Frímanni í Reykjavík Records og sótti auk þess söngtíma.

„Þar voru hugsjónamenn sem vildu hjálpa íslensku tónlistarfólki við að gera góða hluti í útlöndum. Ég fékk þá innsýn í tónlistargeirann,“ segir hún og segist alltaf hafa verið að syngja en fann ekki hvaða hillu hún væri á sem söngkona.

„Mig langaði að búa til einhvern stað þar sem hægt væri að nærast á menningu og sögu. Það er svo mikið niðurrif og ofbeldi í því sem við sjáum á skjánum og svo margar hræðilegar sögur. Mig langaði að segja sögur af fólki sem er að láta gott af sér leiða; sögur af fólki sem er hamingjusamt til æviloka,“ segir hún og segist hafa viljað segja sögur sem fylla fólk af jákvæðri orku og samdi því einn slíkan leikþátt.

„Ég hafði þá kynnst manninum mínum og var ólétt, og þegar ég var komin níu mánuði á leið bauðst mér að fara á tangósöngnámskeið í tvo daga. Þarna bara fann ég sjálfa mig! Ég hafði verið meira í klassíkinni en þarna fann ég að ég átti heima. Ég söng eitt slíkt lag á tónleikum og fékk standandi uppklapp og mikla hvatningu. Barnið fæddist svo og ég fór í fæðingarorlof og við fluttum stuttu síðar til Argentínu og ég lærði þar allt um argentínskan tangó og Örn lærði smá spænsku.“

Blaðamaður stöðvar aðeins söguna.

Þú heillaðist svo mikið af tangótónlist að þú fluttir til Argentínu?

„Já, bara í eina önn, svona eins og allir gera með sex mánaða gamalt barn,“ segir hún og hlær.

„Það var draumur í dós. Ég fór þar í söngnám til manns sem hafði verið barnastjarna í Argentínu og hann gat sagt mér svo mikið af sögum. Þetta var algjört ævintýri,“ segir hún og segist einnig hafa sótt söngtíma hjá fleirum þar ytra.

„Ég man þegar ég fór í fyrsta söngtímann og kennarinn segir: „Já, þannig að þú vilt læra tangó? Hvað kanntu?“ Ég svaraði að mér fyndist tangó geggjaður og að ég kynni eitt lag sem væri Balada para un loco eftir Piazzolla. Hann svaraði: „Piazzolla er ekki tangó!“ Fyrir honum er tangó það sem iðkað var á árunum 1920-1930, en Piazzolla er nýtt tvist og hefur ótrúleg áhrif á blóðið mitt,“ segir Svana og útskýrir að það séu ekki aðeins tónsmíðarnar sem heilli sig þar heldur einnig textarnir.

Sonurinn jarðaður heima

Við heimkomuna hugðist Svana klára meistaranámið á Íslandi, en Örn fékk þá símtal sem breytti öllum þeirra plönum. Honum var boðið starf við að stjórna stærstu nautasláturhúsum Spánar.

„Við pökkuðum saman búslóðinni og bjuggum næstu fimm árin í litlum bæ fyrir utan Madrid. Þarna var mikil einangrun en líka draumur þegar maður er með lítil börn, en við bjuggum í risavillu sem kostaði álíka og að leigja bílskúr hér heima,“ segir Svana en þegar þau fóru út áttu þau Ísgerði, fædda 2010. Starkaður fæddist svo á Spáni árið 2013, en þriðja barnið þeirra hjóna, Garpur, lést aðeins mánaðargamall árið 2015.

„Hann fæddist með hjartagalla,“ segir hún og segir hjartagallann hafa sést í sónar og voru þau búin undir að hann þyrfti að gangast undir aðgerð.

„Okkur var sagt að hann myndi kannski ekki vinna spretthlaup á Ólympíuleikunum en að hægt væri að gera við þetta,“ segir hún.

„Við vissum að hann yrði settur í hitakassa fram að aðgerð, en svo komst hann aldrei í aðgerðina. Þetta var mjög þungt, en við þurftum að taka ákvörðun að hætta inngripum, en þetta var engin ákvörðun því það var í raun ekkert val. Það var fljótt ljóst að þetta myndi fara illa. Það er ótrúlegt hvað gerist þegar maður er settur í þessar aðstæður. Við höfðum einn dag til að ákveða okkur. Ég var búin að gráta niðurstöðurnar og vissi hvað við þurftum að gera,“ segir hún og segir þau hafa farið heim í sveitina þar sem eldri börnin voru í pössun hjá ömmu sinni og afa.

„Ég pakkaði niður og sendi börnin heim til Íslands með foreldrum mínum,“ segir hún og segist hafa verið skýr með það hvernig hún vildi hafa hlutina.

„Svo vaknar maður daginn eftir og líður eins og maður geti ekki staðið upp. Eins og það sé risablýhella yfir brjóstinu,“ segir Svana og segir litla drenginn svo hafa dáið í fangi hennar.

„Við fórum með hann heim og héldum jarðarför á Íslandi sem var mjög heilandi. Það var troðfull kirkja af fólki sem vildi vera með okkur í liði,“ segir hún og segir að í kjölfarið hafi þau farið aftur til Spánar í nokkra mánuði, en Örn sagði upp vinnunni og gátu þá hjónin fengið frið til að vera saman og syrgja. Þau pökkuðu svo saman og fluttu heim.

„Við héldum vel utan um hvort annað og gerum enn. Ég segi alltaf að ég sé best gifta manneskjan sem ég þekki. Ég er ofboðslega þakklát fyrir hjónabandið mitt.“

Ertu að senda hann núna?

Svana og Örn virðast sannarlega ætluð hvort öðru, en Svana segir að sama hvað hafi dunið á, sé alltaf gaman hjá þeim.

„Við kynntumst í salsapartíi í bústað við Apavatn. Hann er skæður salsadansari.“

Var það ást við fyrstu sýn?

„Sko, ég hafði sagt við hann þarna uppi að hann ætti að senda mér manninn í lífi mínu; að ég væri tilbúin en ég ætlaði sjálf ekki að lyfta litla fingri. Ég sendi það út í kosmósið að nú væri tíminn kominn. Ég er svo kynnt fyrir honum og horfi í augun á honum og hugsaði: „Núna? Af hverju ertu að senda mér hann núna?“ Þetta var ekki ást við fyrstu sýn en ég vissi strax að þetta yrði stór saga,“ segir hún og segist í raun ekki hafa verið alveg undirbúin.

„Örn talar oft um þetta erfiða tímabil þar sem honum fannst ég ekki vera að hleypa honum að mér, en þetta voru bara tíu dagar,“ segir hún og brosir.

„Við erum svo heppin,“ segir hún og segir þau alltaf leyfa hvort öðru að hlaupa á eftir draumum sínum, jafnvel langt út fyrir landsteinana.

„Ég er rosa sátt og hef fundið frið. Þrátt fyrir okkar missi, sem var viðbjóðslegt að ganga í gegnum, þá vissi ég að Garpur væri með hjartagalla áður en hann kom í heiminn. Að segja bless við barnið mitt er það hræðilegasta sem ég hef gengið í gegnum, en hann hefði aldrei getað átt gott líf og því fékk hann að fara,“ segir hún og segir áfallið hafa sest að bæði í sál og líkama.

„Áfallið er fast í taugakerfinu en ég kynntist svo EMDR-meðferð og fór í nokkra tíma og fann hvað það hafði góð áhrif á mig.“

Að kyssast í kaffitímanum

Hjónin voru nýflutt til landsins þegar þau skelltu sér til London á vikunámskeið hjá lífsþjálfanum og fyrirlesaranum heimsþekkta Tony Robbins. Svana segir þau hafa viljað víkka sjóndeildarhringinn.

„Ég vildi finna út hvað ég vildi meira af í lífinu og hvað minna af. Við komumst að því að okkur fannst ofsalega gaman að vera saman og datt þá í hug að stofna saman fyrirtæki. Þá gætum við líka verið að kyssast í kaffitímanum. Á námskeiðinu ákváðum við að við myndum fara heim, safna pening í þrjú ár og þá myndum við fá geggjaða hugmynd sem við gætum hrint í framkvæmd,“ segir Svana og segir að á fimmta degi námskeiðsins hafi hugmyndin kviknað.

„Það er hægt að láta sig dreyma um ýmislegt en ef maður hefur ekki heilsuna er ekkert að fara að gerast. Heilsan þarf að vera í lagi svo hægt sé að framkvæma eitthvað í alvöru. Ein af kynningunum þennan daginn var frá fyrirtækinu OsteoStrong. Við vorum mjög fljótt sannfærð um að þetta vildum við kynna Íslendingum,“ segir hún.

„Þetta er mjög nýtt; við erum fimmta landið sem opnar svona stöð,“ segir Svana, en ekki varð úr að safna í þrjú ár, því ákafinn var svo mikill. Svana virðist ekki bíða með hlutina!

„Frá því að við fengum þessa hugmynd og þar til við opnuðum liðu níu mánuðir,“ segir Svana, en fjölskyldan skellti sér í mánuð til Mexíkó til undirbúnings. Krakkarnir fóru í skóla á meðan hjónin sömdu viðskiptaáætlun og sóttu um öll tilskilin leyfi.

„Við opnuðum í ársbyrjun 2019. Þetta hefur verið algjört ævintýri og ótrúlega ánægjulegt. Við erum með einstakt starfsfólk og gætum auðvitað aldrei gert þetta allt sjálf,“ segir Svana og segir svo gefandi að sjá hversu mikið æfingarnar hjálpa fólki. Hugsunin á bak við OsteoStrong er að fólk styrki sig, meðal annars beinin, við það að setja álag á líkamann við öruggar aðstæður. Æfingarnar taka stuttan tíma, en fólk er yfirleitt ekki lengur en 25 mínútur í hverri heimsókn. Svana segir fólk sem kemur einu sinni í viku í heilt ár að meðaltali auka styrk sinn um 73%.

„Þegar ég labba hér inn fyllist hjarta mitt af gleði og þakklæti því ég er búin að sjá mikinn árangur og hversu margt fólk treystir okkur,“ segir hún, en þess má geta að þúsund manns koma í OsteoStrong í viku hverri en alls hafa um tíu þúsund manns komið í stöðina. Margir viðskiptavina OsteoStrong eru með stoðkerfisverki eða vilja koma í veg fyrir beinþynningu og heilsuleysi í framtíðinni.

„Fólk er oft með verki og búið að prófa allt hitt. Þetta er ekki beint líkamsrækt heldur ein önnur leið til að örva líkamann til vaxtar. Við sjáum fólk auka lífsgæði sín. Við vissum að OsteoStrong væri magnað fyrirbæri en við höfðum ekki hugmynd um það hvað það er í raun að hjálpa mörgum á ofboðslega stuttum tíma.“

Að hlæja og gráta í einu

Þótt nóg sé að gerast í viðskiptum hjá Svönu sinnir hún samt enn listagyðjunni. Árið 2019 setti hún upp sýninguna Í hennar sporum í Tjarnarbíói en hún hafði safnað skóm frá konum sem hún leit upp til, sagði svo sögu þeirra og söng lög. Vigdís Finnbogadóttir forseti var ein af þeim sem létu Svönu skó í té.

Árlega setur Svana svo upp sýningu þar sem hún sameinar söng við sögur en Svana segist hafa sótt hugmyndina til hátíðarinnar dags hinna dauðu sem haldin er í Mexíkó.

„Í framhaldi af þeirri reynslu að missa son set ég upp hátíð í kringum dag hinna dauðu,“ segir hún og segir fólk koma þá í kvöldverð og á sýningu í Gamla bíói.

„Við eigum svo fá orð og litla hugmyndafræði í kringum dauðann og sorgina og það er mjög stutt síðan orðræðan var bara: „Jæja, er hún búin að jafna sig?“ Eða: „Hún var svo sterk að hún mætti bara strax í vinnuna daginn eftir og það sást aldrei á henni,“,“ segir Svana og segir að hún hafi merkt það eftir sonarmissinn hvað fólk átti erfitt með að tala við hana.

„Ég vil ekki að við brotnum, heldur bognum, og þetta er svona stund til að hafa skemmtilegt. Það er gott að minnast þeirra sem eru látnir því þó að ástvinurinn sé farinn erum við enn hér og eigum fullt af ást og hlýju og alls konar góðu. Maður þarf ekki að segja bless að eilífu heldur getur maður oft sagt bless. Þessir tónleikar mínir eru fullir af litum og gleði en það má bæði hlæja og gráta í einu. Þetta er mín tilraun til að breyta einhverju í þessum efnum.“

Leiklistargyðjan hefur einnig kallað Svönu til sín en hún er að fara að leika í bíómynd í vor.

„Myndin heitir Konur, draumar og brauð og þar fæ ég að syngja alls konar lög. Ég og Sigrún Vala Valgeirsdóttir erum að gera þessa mynd sem er leikin heimildarmynd. Við förum hringinn um landið og heimsækjum konur sem eru að reka kaffihús og veitingastaði. Ég leik þar stílfærða litríka dívu sem ferðast um landið með kassalaga sjávarlíffræðingi. Svo lendum við í alls konar ævintýrum á leiðinni. Hugmyndin á bak við myndina er að lyfta upp starfi þessara kvenna sem hafa skapað samkomustað fyrir fólk í sínu nærumhverfi, hlaupið til og reddað þegar þörf myndaðist og verið mikilvægir hlekkir í að ferðamenn um landið eigi bragðgóðar og skemmtilegar upplifanir. Í myndinni er ég í rauninni að gera það sama og í leikverkinu í Tjarnarbíói; ég er að fara í spor þessara kvenna,“ segir Svana og segir þetta hlutverk hafa dottið upp í hendurnar á sér. Nú er búið að fá alla styrki til kvikmyndargerðarinnar, en Svana er einnig leikstjóri og handritshöfundur.

Vinn við að auka lífsgæði

Svana er greinilega athafnakona sem er stútfull af hugmyndum og draumum sem hún lætur rætast. Hún segist finna að hún hafi lært með árunum að sleppa tökunum og finna léttleikann í lífinu og segir viðskiptin og listina vel geta farið saman.

„Það besta við að búa á Íslandi er að maður hefur leyfi til að vera með alls konar hatta. Ég hef nýtt mér það óspart. Ég er alla ævi búin að vera með tvær ferilskrár og eiginlega tvo fataskápa; annars vegar fyrir söngkonuna og hins vegar fyrir viðskiptakonuna. Ég elska að mega vera hvað sem er árið 2023,“ segir Svana.

„Ég fæ svo mikið út úr því að syngja og heyra hvað það gefur fólki mikið. Þá fæ ég sömu sælutilfinningu og þegar fólk segir við mig: „Oh, mér er ekki lengur illt í bakinu!“ Ég er í þeim bransa að auka lífsgæði fólks.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir