— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Segðu mér frá tónleikunum Morricone og Rota í nýju ljósi. Morricone og Rota störfuðu báðir á gullaldartíma ítalskrar kvikmyndaframleiðslu og þeir urðu fljótt órjúfanlegur hluti þess heims. Þeir urðu strax þekktir fyrir kvikmyndatónlist en voru minna þekktir fyrir að skrifa verk fyrir kammersveitir

Segðu mér frá tónleikunum Morricone og
Rota í nýju ljósi.

Morricone og Rota störfuðu báðir á gullaldartíma ítalskrar kvikmyndaframleiðslu og þeir urðu fljótt órjúfanlegur hluti þess heims. Þeir urðu strax þekktir fyrir kvikmyndatónlist en voru minna þekktir fyrir að skrifa verk fyrir kammersveitir. Morricone var mikið nútímatónskáld. Ég hitti hann fyrir meira en þrjátíu árum í Róm, en hann lést í fyrra. Hann sagði alltaf að sér fyndist mjög gaman að gera kvikmyndatónlist og þar fengi hann laun, en ástríða hans lá í nútímatónlist. Hann gerði alltaf eitthvað auka, það sem ég kalla glimmer. Við ætlum að spila tónlist eftir hann, en það var erfitt að finna tónlistina hans því hann gaf ekki mikið út, á meðan Nino Rota var rosalega duglegur að gefa út tónlist.

Hvernig fékkstu þá tónlistina hans?

Ég auglýsti á Facebook og fékk óvænt símtal og tölvupóst frá syni Morricone. Það var mjög gleðilegt. Hann sagði að hann vissi að kvikmyndatónlist föður hans myndi lifa áfram, en nútímatónlistin ekki eins. Þannig að hann er smátt og smátt að gefa mér alla tónlist Morricone sem ég vil fá. Ég bauð honum og bróður hans á tónleikana en þeir komast því miður ekki.

Þú ert þá komin í samband við fjölskylduna?

Já, af því að mér finnst þessi nútímatónlist vera meira hann og vil koma henni á framfæri. Hann hætti aldrei að semja nútímatónlist. Á þessum tónleikum valdi ég verk eftir bæði Morricone og Rota sem lýsa þeirra ferli.

Á ekki eiginmaður þinn líka verk á tónleikunum?

Jú, eiginmaður minn Steingrímur Þórhallsson samdi verk í þeirra anda, en ég fann ekkert verk eftir Ítalana sem var samið beint fyrir flautu, selló, klarínett og píanó. Steini hafði komið til Ítalíu eftir að hann sá kvikmyndina Cinema Paradiso. Hann varð heillaður af tónlistinni í þeirri mynd.

Pamela De Sensi er flautuleikari. Hún er í kammersveitinni sem mun flytja verk á tónleikunum Morricone og Rota í nýju ljósi sem verða þriðjudaginn 14. mars kl. 20 í Listasafni Sigurjóns. Með henni verða Ármann Helgason á klarínett, Sigurður Halldórsson á selló og Eva Þyri Hilmarsdóttir á píanó. Miðar fást á tix.is.