Borgarfjörður Erla Ýr Pétursdóttir var vinningshafi í söngvarakeppni Grunnskóla Borgarfjarðar árið 2023.
Borgarfjörður Erla Ýr Pétursdóttir var vinningshafi í söngvarakeppni Grunnskóla Borgarfjarðar árið 2023. — Ljósmynd/Þórhildur Jóhannesdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sögufélag Borgarfjarðar hélt endurreisnar- og aðalfund síðasta haust og er skemmst frá því að segja að miklu lífi hefur verið blásið í þessar gömlu glæður þótt starfsemin hafi aldrei lagst alveg af

Úr bæjarlífinu

Birna G. Konráðsdóttir

Borgarfirði

Sögufélag Borgarfjarðar hélt endurreisnar- og aðalfund síðasta haust og er skemmst frá því að segja að miklu lífi hefur verið blásið í þessar gömlu glæður þótt starfsemin hafi aldrei lagst alveg af. Núna er Borgfirðingabók komin inn á timarit.is, þó ekki átta yngstu árgangarnir, samþykktir félagsins hafa verið í endurskoðun og í farvatninu er lestur úr Borgfirðingabókum fyrir Storytel, sem verður tilbúið von bráðar.

Félagið var stofnað árið 1963 og í upphafi var tilgangur þess ekki hvað sístur að safna saman æviskrám Borgfirðinga og varðveita gamlan og nýjan fróðleik um héraðið. Borgfirskar æviskrár hafa komið út í 13 bindum, öllum þeim sem áhuga hafa á ættfræði til ómældrar ánægju, en einnig gaf félagið út íbúatöl í árafjöld, en meðal annars vegna nýrra persónuverndarlaga og minnkandi sölu var þeirri útgáfu hætt.

Aðalstarfsemi undanfarinna ára hefur falist í útgáfu Borgfirðingabókar, sem áður var nefnd, er kemur út árlega, en útgáfa hennar hófst árið 1981. Þá komu út þrjár bækur. Hlé varð síðan á útgáfunni fram til ársins 2004 en hefur verið óslitin síðan. Í bókunum er fróðleikur af ýmsum toga og aldri frá starfssvæði félagsins ásamt frumsömdu efni, ljóðum, smásögum og fleiru. Bækurnar hafa notið sívaxandi vinsælda og reynt hefur verið af fremsta megni að dreifa efnistökum þannig að greinar og þættir séu sem víðast af svæðinu og lögð hefur verið áhersla á að sem flestir fái eitthvað við sitt hæfi. Ný Borgfirðingabók kemur út í vor, eins og undanfarin ár.

Um allan Borgarfjörð hafa mannfagnaðir verið haldnir á nýju ári af miklum móð og þátttakan – ja aldrei verið meiri eða betri segja elstu menn. Félagsheimili héraðsins hafa verið fyllt af gestum hverja helgina á fætur annarri á þessu fremur unga ári. Þar er fólk að mæta meðal annars á þorrablót, hrossaketsveislur, nú eða góugleði og ýmislegt fleira, þeir allra hörðustu mæta á allt sem er í boði. Á samkundum þessum gleðst fólk saman því maður er jú manns gaman. Á þorrablótum héraðsins er gert góðlátlegt grín að óförum nágrannanna, etinn misjafnlega súr matur, hlegið, kjaftað og dansað. Haft hefur verið á orði að óvenju víða hafi rykfallnir dansskór verið dregnir fram úr skúmaskotum, hreinsaðir upp og síðan brunað á ball, til að „tjútta og trylla“, eins og sagði í góðum slagara. Mannlífið virðist því sannarlega vera að komast í fyrra horf eftir skemmtanasvelti Covid-áranna. Hvort þessi aðsóknarmet verði slegin að ári kemur síðar í ljós.

Söngvarakeppni Grunnskóla Borgarfjarðar (GBF) hefur verið árlegur viðburður þar sem margir söngvarar hafa í áranna rás stigið á svið í fyrsta sinn. Og núna loksins, eftir Covid, var blásið til hátíðar og þessi ríflega 20 ára gamla skemmtun haldin að nýju.

Grunnskóli Borgarfjarðar samanstendur af þremur starfsstöðvum sem staðsettar eru á Varmalandi, Kleppjárnsreykjum og Hvanneyri, og stigu keppendur á svið í íþróttahúsinu á Kleppjárnsreykjum. Umsjón þessa viðburðar, þar sem keppendur koma úr 4.-10. bekk, hefur ætíð verið í höndum skólans sjálfs en Guðjón Guðmundsson kennari hefur haft veg og vanda af framkvæmdinni öll árin.

Að þessu sinni buðu nemendur upp á 18 misjafnlega mannmörg atriði og samkvæmt venju var enginn aðgangseyrir. Kynnar voru þeir Axel Þór Gíslason og Guðmundur Bragi Borgarsson sem stóðu sig með stakri prýði. Ljóst var að loknum atriðum að dómnefndar biði erfitt starf með að úrskurða með verðlaunasætin því keppnin var afar jöfn. Gaf dómnefndin sér því góðan tíma áður en þau Helena Rut Hinriksdóttir, Helgi Eyleifur Þorvaldsson og Jakob Sigurðsson kunngerðu úrslitin, en einstaklingar í dómnefnd eru valdir úr nærumhverfinu og skarta ýmiss konar reynslu. Fyrsta sæti hlaut Erla Ýr Pétursdóttir með lagið „Heyr mína bæn,“ í öðru sæti var Kristján Karl Hallgrímsson sem söng og spilaði á gítar og Polina Litkovska var í þriðja sætinu en hún söng fallegt lag frá Úkraínu. Gerður var góður rómur að og keppendum klappað lof í lófa að loknum hverjum flutningi fyrir sig.

Glanni, unglingadeild er samstarfsverkefni björgunarsveita í Borgarfirði, það er að segja björgunarsveitanna OK, Heiðars og Brákar. Starfið er miðað að einstaklingum fæddum 2006-2009, þ.e. unglingum á aldrinum 14-17 ára. Markmið starfsins er að kynna unglingum starf björgunarsveita og almenna útivist en á 18. ári geta þau síðan gengið í almenna björgunarsveit, ef áhugi er fyrir hendi.
Deildin hefur starfað í tæp tvö ár og eru meðlimir 15-20 og hefði verið sett fyrr á laggirnar ef ekki hefði verið fyrir Covid-faraldurinn. Í vetur hafa Vigdís Ósk Viggósdóttir og Gunnar Örn Kárason einkum leitt starfið. Þau segja að þeim finnist nauðsynlegt að bjóða upp á svona unglingastarf í samfélaginu, bæði fyrir krakka sem ekki finna sig í öðrum tómstundum og líka til að vekja áhuga á starfi í björgunarsveitum og fá þá vonandi um leið nýliða inn í sveitirnar þegar verunni í ungliðadeildinni lýkur.

Í Glanna er farið yfir allt sem tengist björgun og ferðamennsku og ýmislegt sem getur hjálpað þessu unga fólki í lífinu sjálfu, allt frá því að kunna að velja réttan klæðnað fyrir ferðalög og útivist upp í að skipta um dekk. Enn fremur læra unglingarnir skyndihjálp, leitartækni og meðhöndlun slasaðra eins og t.d. að flytja sjúklinga.

Farið var á landsmót ungliðadeilda síðasta sumar á Höfn í Hornafirði og var almannarómur meðal sveitarmeðlima að það hefði verið gríðarlega gaman. Sveitin hefur verið mjög virk og fundir haldnir annað hvert mánudagskvöld og segja unglingarnir sjálfir að starfið sé mjög fræðandi, skemmtilegt og hæfilega krefjandi.Auk Vigdísar og Gunnars eru leiðbeinendur þau Páll Einarsson, Erlendur Breiðfjörð, Þórir V. Indriðason og Íris Sól Þrastardóttir.