Júlíus Oddsson fæddist 5. janúar 1939 í Mörtungu á Síðu. Hann lést á heimili sínu 2. mars 2023. Hann var sonur hjónanna Odds Skúlasonar og Ástu Þórunnar Helgu Ólafsdóttur. Systkini Júlíusar eru Ólafur Oddsson, f. 1943, Sigurveig Oddsdóttir, f. 1945, d. 2004, og Skúli Oddsson, f. 1954.

Eftirlifandi eiginkona Júlíusar er Margrét Einarsdóttir, f. 1941. Þau hjón hófu búskap á Langholti árið 1963. Þar bjuggu þau til fardaga 1978 en þá fluttu þau í Mörk á Síðu. Í Mörk bjuggu þau til 2016 en þá fluttu þau á Kirkjubæjarklaustur.

Börn þeirra eru fjögur: 1) Vignir, f. 1963, kvæntur Þorbjörgu Helgadóttur, börn þeirra eru Páll Sigurður, Margrét og Þorkell Óskar og barnabörnin Hekla Petrónella, Birkir Freyr og Steinunn Lóa. 2) Þórunn, f. 1966, gift Erlendi Björnssyni, börn þeirra eru Leifur Bjarki, Steinn Orri og Guðlaug og barnabörnin Kría, Björn og Einar Helgi. 3) Birna Margrét, f. 1967, sonur hennar er Darri. 4) Hjalti Þór, f. 1971, hann er kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur, þau eiga börnin Sigurð Magnús og Unni Helgu og barnabörnin eru Emma Líf, Matthildur Yrsa, Jökull Karl, Rúnar Þór og eitt ófætt.

Útför Júlíusar fer fram frá Prestsbakkakirkju á Síðu í dag, 11. mars 2023, klukkan 11.

Ó, leyf mér þig að leiða

til landsins fjalla heiða

með sælu sumrin löng.

Þar angar blóma breiða

við blíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég

þar aðeins við mig kann ég

þar batt mig tryggða band

því þar er allt sem ann ég,

það er mitt draumaland.

(Jón Trausti)

Elsku pabbi minn hefur nú lokið sinni jarðvist. Síðustu kvöldin sem hann dvaldi meðal okkar voru norðurljósin á sjaldgæfu flugi, í mögnuðum litum og það gladdi mig að geta deilt með honum stuttu myndskeiði af ægifögrum norðurljósadansi sem ég tók sama kvöld og ég heimsótti hann í hinsta sinn. Rúmum sólarhring seinna var hann allur og ég vil trúa því að hann hafi laumast út í nóttina, upp í himininn til að sameinast þessu magnaða náttúrufyrirbæri. Því þegar ég minnist pabba þá minnist ég fyrst og fremst náttúrubarnsins sem hann var. Dálæti hans á hinu smáa: maríuerlunni knáu, þrautseigum geldingahnappnum og angandi blóðbergi; aðdáun hans á ofurkrafti náttúrunnar og þeim mögnuðu formum og fyrirbærum sem hún getur skapað og ást hans á óbyggðum og fjalllendi. Ég minnist þess hvernig hann þekkti og gat nefnt hverja þúfu á sínum heimaslóðum en einnig hvernig það kom mér ítrekað á óvart hversu staðkunnugur hann virtist gjarnan vera á stöðum sem hann hafði kannski aldrei heimsótt í eigin persónu eða þá fyrir löngu. Þá hafði hann kannski einhvern tíma lesið sér til, heyrt um, eða horft á þætti um þær slóðir og gleymdi engu. Það var alltaf gaman að vera með honum í smalamennskum og öðru stússi og varð nánast mælanlega skemmtilegra eftir því sem lengra frá byggð var farið.

Hann naut þess að grúska og lesa sér til um hina ýmsu hluti og það skilaði honum staðgóðri þekkingu á ólíklegustu málum. Horfði mikið á sjónvarp þó hann þrætti fyrir það en það skilaði honum líka ákveðinni víðsýni og skilningi. Hann hafði takmarkað umburðarlyndi fyrir óþarfa veseni en hvað sem á gekk þá heyrðist hann aldrei hallmæla nokkrum manni.

Pabbi var ótrúlega vinnusamur og sú vinnusemi entist meðan hann hafði þrek til. Hann var vandvirkur og nákvæmur svo okkur börnunum hans þótti oft nóg um enda grínuðumst við stundum með að það væri eiginlega ekki hægt að hjálpa honum að gefa kindunum því það væri alls ekki sama hvernig stráin sneru. Þessi smámunasemi rjátlaðist þó að mestu af honum með árunum gagnvart okkur en nákvæmnin og vandvirknin voru órjúfanlegur hluti af hans karakter og gögnuðust honum og samferðafólki hans á svo margan hátt. Hann var til að mynda afburðagóður grjóthleðslumaður og þar nýttust þessir eiginleikar sérlega vel. Þeim hlutverkum sem hann tók að sér sinnti hann af trúmennsku og alúð fram á síðasta dag. Snyrtimennskan fylgdi honum sömuleiðis til endaloka og jafnvel síðustu vikurnar lagði hann áherslu á að leggjast aldrei órakaður til svefns og passaði að teppið sitt væri snyrtilega samanbrotið.

Elsku pabbi minn, ég er þakklát fyrir þig, ég er þakklát fyrir að hafa getað átt þennan dýrmæta tíma með þér síðustu vikur og ég er þakklát fyrir að þú kvaddir sáttur og æðrulaus.

Farðu sæll á vit náttúrunnar.

Birna.

hinsta kveðja

Júlíus Oddsson! Mikli hugsuður.

Minn elsti og helsti heimildarmaður.

Ævinlega mun ég sakna þín, vinur.

Vera Roth.