Náttúran Hugrún segir fjölskylduna njóta sín best í göngutúrum úti í náttúrunni, ekki síst nálægt heimahögunum.
Náttúran Hugrún segir fjölskylduna njóta sín best í göngutúrum úti í náttúrunni, ekki síst nálægt heimahögunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugrún Harpa fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akranesi 11. mars 1983, en strax eftir fæðinguna var keyrt með hana beint austur á Hornafjörð. „Ég er alin upp á Hlíðarbergi á Mýrum yngst og eina stelpan með þrjá eldri bræður

Hugrún Harpa fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akranesi 11. mars 1983, en strax eftir fæðinguna var keyrt með hana beint austur á Hornafjörð. „Ég er alin upp á Hlíðarbergi á Mýrum yngst og eina stelpan með þrjá eldri bræður. „Það var einstaklega gott umhverfi til að alast upp við og maður lærði strax að umgangast skepnur og náttúruna.“ Bærinn er þarna alveg upp við fjöllin og nálægt Fláajökli. Foreldrar Hugrúnar lögðu mikla áherslu á það að skynja og virða náttúruna. „Ef manni leið illa var maður alltaf hvattur til að fara út og hlusta á lækinn, fuglana eða fjallið. Það dýrmætasta sem maður tekur frá því að alast upp í sveit er þessi tenging.“ Hugrún segist þó muna eftir að hafa verið í stöðugri jafnréttisbaráttu alla æsku með þrjá eldri bræður. „Ég vildi fá að gera allt eins og bræður mínir og öll rök foreldra minna sem byggðust á aldurstengdum útskýringum héldu í mínum huga alls ekki vatni. En ég hef oft sagt að bræður mínir eigi stóran þátt í uppeldinu enda voru þeir og eru svo frábærir að þeir hvöttu mig alltaf áfram.“

Hugrún gekk í Mýraskóla fram að 8. bekk en fór þá í Heppuskóla. „Fyrsta heiðarlega tilraunin til að flytja frá Hornafirði var þegar ég fór í Fjölbrautaskólann í Garðabæ og var þar í eitt og hálft ár þar til kom til verkfalls. Þá fór ég heim og lauk stúdentsprófinu í framhaldsskólanum hér,“ segir hún og bætir við að það eigi ekki við sig að búa í Reykjavík. Hugrún hafði hitt væntanlegan eiginmann sinn, Trausta, strax þegar hún var í 10. bekk. Hann hafði verið í mörg sumur í sveit í Öræfunum hjá frænda sínum. „Það var nú eiginlega út af honum sem ég fór í Garðabæinn fyrst, en í dag er hann farinn að segja að hann sé Hornfirðingur og líður mjög vel hér.“ Eftir stúdentsprófið flutti Hugrún með Trausta til Selfoss í tvö ár og síðan til Reykjavíkur þegar hún byrjaði í félagsfræði í Háskóla Íslands. „Ég tók fyrsta árið í Reykjavík, en ég samdi síðan við alla kennarana mína um að taka námið í fjarnámi frá Hornafirði og fór heim. Ég var ennþá í náminu þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn 2007 sem seinkaði útskrift um eitt ár, eða til 2009.“ Hugrún fór að vinna meðfram náminu á leikskólanum á Höfn. Árið 2011 fór hún í meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði frá HÍ og gerði það með sama hætti frá Höfn. „Ég hafði samband við Brynhildi Davíðsdóttur sem var yfir náminu, sem aðstoðaði mig við að semja við kennarana.“

Hugrún segir námið hafa verið geysilega skemmtilegt. „Ég er með grunninn í félagsfræðinni og fer inn í námið með þessa áherslu á samband manns og náttúru. Lokaverkefnið mitt fjallaði um náttúrutengsl og umhverfisstjórnun.“ Námið lengdist aðeins því Hugrún verður ófrísk að tvíburum og þau fæðast í febrúar 2013. „Það hefur nú alltaf verið gert grín að mér fyrir að vera mjög skipulögð, en ég hafði alltaf sagt að ég ætlaði að eiga þrjú börn fyrir þrítugt og ég rétt náði því,“ segir hún hress. „En þegar ég var búin með námið var ég líka búin með barneignirnar.“

Árið 2015 ræður Hugrún sig til Nýheima þekkingarseturs sem verkefnastjóri og 2017 tekur hún við forstöðu setursins. „Nýheimar eru í rauninni samstarfshattur ólíkra stofnana, sem vinna að menntun, menningu, nýsköpun og rannsókn. Við erum í húsinu Nýheimar á Höfn. Þetta er virkilega öflugt þekkingarsamfélag á staðnum. Mín vinna felur í sér að vinna að öllum þessum fjórum stoðum, verkefnum á þessum sviðum. Verkefnin eru fjölbreytt og ég leiði samstarf margra stofnana. En svo erum við líka í sjálfstæðum verkefnum,“ segir hún og nefnir m.a. rannsókn á líðan og stöðu ungs fólks, stafrænni hæfni eldri borgara, sjálfbærni í ferðaþjónustu auk fjölda Evrópusamstarfsverkefna. „Ég hef alltaf brunnið fyrir málefnum landsbyggðarinnar og þetta er frábær starfsvettvangur til að vinna samfélaginu mínu gagn.“

Hugrún segist vilja nýta frítíma sinn sem mest með fjölskyldunni og þau hafa gaman af allri útivist. Ég veit ekkert betra en að keyra heim í sveitina og fara í góðan göngutúr og við gerum það mikið með börnunum okkar.“ Hugrún var varabæjarfulltrúi árin 2010-2014, sem hún segir hafa verið mjög lærdómsríkt. Síðan situr hún í sóknarnefnd, sem sumir segja hana fullunga til að gera. „En það er líklega það síðasta sem ég mun hætta því mér þykir ofsalega vænt um þetta hlutverk og vil passa upp á kirkjuna okkar því þar eigum við öll okkar bestu og líka erfiðustu stundir.“

Fjölskylda

Eiginmaður Hugrúnar Hörpu er Trausti Magnússon, f. 6.5. 1981, húsasmiður. Þau eru búsett á Hornafirði. Foreldrar Trausta eru Charlotta María Traustadóttir, f. 28.4. 1948, búsett í Kópavogi og Magnús B. Sigurðsson, f. 18.12. 1948, d. 17.1. 2023. Börn Hugrúnar Hörpu og Trausta eru Sigursteinn Ingvar, f. 3.7. 2007 og tvíburarnir Sólrún Freyja og Svavar Breki, f. 15.2. 2013.

Bræður Hugrúnar Hörpu eru 1) Friðrik Hrafn, f. 26.8. 1971, bóndi á Hornafirði; 2) Haraldur Örn, f. 31.1. 1977, endurskoðandi á Hvanneyri; 3) Sigursteinn Haukur, f. 14.4. 1980, rafmagnsverkfræðingur í Gautaborg.

Foreldrar Hugrúnar eru Katrín Lilja Haraldsdóttir, f. 28.3. 1953, búsett á Hornafirði og Reynir Sigursteinsson, f. 30.9. 1950, d. 6.8. 2018.