Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Dvelur hann í djúpum sæ. Dragnast allir með hann. Hjónabands er böðull æ. Býr jörð fyrir neðan. Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn: Djöflafiskur í djúpum sæ

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Dvelur hann í djúpum sæ.

Dragnast allir með hann.

Hjónabands er böðull æ.

Býr jörð fyrir neðan.

Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn:

Djöflafiskur í djúpum sæ.

Djöful sinn hver togar.

Djöfull hjóna dapur æ.

Djöfuls vítislogar.

Þá er komið að lausninni frá Helga R. Einarssyni:

Djöflar víða í sjónum synda.

Sinn hefur djöful hver.

Hjónadjöflar deilur mynda.

Djöfull Satan er.

Bergur Torfason frá Felli leysir gátuna:

Djúpt í sæ býr djöflaskata

sinn djöful hver einn hafa má.

Hjónadjöflar hjónin hata,

á HELI djöfull býr víst á.

Guðrún B. svarar:

Í djúpum sæ er sædjöfull

og sinn skal fólkið djöfsa toga.

En hjónadjöfull hálfgjöfull

vill horfa á djöflastjörnu loga.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Sædjöfull í sjónum er.

Sinn hver djöful teymir.

Þann hjónadjöful dæma ber.

Djöfla Víti geymir.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Daginn lengir smátt og smátt,

smýgur ljósið inn um gátt,

gleðst ég dátt við geislaspil

og gátu létta bjóða vil:

Gáfnaljós er gumi sá.

Gola sveigir lauf og strá.

Gægist vofa gluggann á.

Góður í skóla vera má.

Að vanda flutu limrur með lausn Helga:

Tækifærissinninn

Hef í leti legið

lífsins notið, hlegið,

svamlað hér,

það hentar mér

að hnoða misjafnt deigið.

Allt í lagi

„Að eldast er allt í lagi,

sagði ellismellurinn Bragi,

meðan hönd ber ég styrka

og í hallæri virka:

Haus minn, náttúra’ og magi.“

Jón Thoroddsen orti um stúlku:

Gull að fullu hefur hún

og hörundslitinn bjarta,

en löstr er það að Lofnar brún

lýsir köldu hjarta.