Arnór segir í bókinni að skortur á íslenskum herafla leiði af sér að við ráðum hvorki yfir sérfræðikunnáttu né viðbragðsliði til að mæta óvæntum ógnum.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Fyrir réttri viku, laugardaginn 4. mars, kynnti Arnór Sigurjónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, bók sína, Íslenskur her – breyttur heimur, nýr veruleiki. Bókin er ekki mikil að vöxtum, kilja á íslensku og ensku, og stendur höfundur sjálfur að útgáfunni.

Arnór minnir á hugsjónamenn fyrri tíma sem gáfu út skorinorða bæklinga til að kveikja umræður um mál sem þeir töldu varða alla þjóðina.

Fyrir rúmum fjórum áratugum samþykktu norsk stjórnvöld að Arnór fengi þjálfun og stundaði nám í norska landhernum. Hann hlaut þar liðsforingjatign og starfaði í alls sjö ár á vegum norska hersins, meðal annars við friðargæslustörf í Suður-Líbanon.

Undir lok febrúar 1981 fórum við Kjartan Gunnarsson í heimsókn til friðargæslusveitar Arnórs við landamæri Ísraels í Suður-Líbanon og ritaði ég greinaflokk um þá ævintýralegu, en ekki hættulausu, för okkar hér í blaðið 22. til 31. mars 1981.

Af löngum kynnum veit ég því að Arnór sest ekki niður og skrifar bók sína að loknum embættisstörfum fyrir íslenska ríkið heima og erlendis nema vegna þess að hann telur málið eiga brýnt erindi við sem flesta.

Ég er honum sammála um nauðsyn þess að ræða hvaða leið sé best til að tryggja landamærahelgi og fullveldi þjóðarinnar við núverandi aðstæður í öryggismálum. Allar þjóðir sem eiga aðild að NATO útvista hluta af öryggisgæslu sinni en engin nema sú sem státar af því að vera herlaus útvistar hernaðarþættinum algjörlega. Ekki nóg með það, við leggjum ekki heldur neina rækt við sjálfstætt mat á hagsmunum okkar á þessu sviði.

Þegar tillaga um uppfærslu þjóðaröryggisstefnunnar var lögð fyrir alþingi nú í vetur var í texta hennar ekki minnst á varnir landsins en utanríkismálanefnd þingsins bætti tveimur orðum um þær inn í endanlegu ályktunina.

Þögnina um hernaðarlega þáttinn má rekja til skorts á tillögum sem mótast af reynslu og þekkingu á þessu sviði. Þekkingin er hvorki til hjá ríkinu né annars staðar og engin augljós áform eru um að leggja grunn að henni.

Arnór segir í bókinni að skortur á íslenskum herafla leiði af sér að við ráðum hvorki yfir sérfræðikunnáttu og þekkingu né viðbragðsliði til að mæta óvæntum ógnum þar til aðstoð berst frá öðrum.

Þetta ásamt skorti á fræðilegu rannsóknarsetri hér á sviði öryggis- og varnarmála samhliða almennu áhugaleysi stjórnmála- og fjölmiðlamanna leiðir til þess að íslensk stjórnvöld þegja um hvert stefnir í hermálum í okkar heimshluta og hvað gera þurfi vegna breytinga sem hafa orðið.

Breytingarnar hafa þó að sjálfsögðu áhrif hér á Norður-Atlantshafi eins og sjá má af grunnstefnu NATO sem samþykkt var í Madrid í júní 2022 og samstarfsyfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna um öryggismál frá ágúst 2022.

Norræn viðhorf í öryggismálum hafa gjörbreyst á innan við einu ári. Af fjölmörgu skulu nefnd sex atriði:

1. Finnar og Svíar hafa sótt um aðild að NATO.

2. Norðmenn hafa hækkað viðbúnaðarstig herafla síns og aukið varnir gegn skemmdarverkum á hafi úti.

3. Danir leggja nú mun meiri áherslu á varnir Grænlands og Færeyja en þeir hafa nokkru sinni gert.

4. Ákveðið hefur verið að opna ratsjá í þágu NATO í Færeyjum sem lokað var árið 2007.

5. Kynntar hafa verið hugmyndir um að Danir ætli að breyta flugvellinum í Syðri-Straumfirði á Grænlandi í herstöð á næsta ári.

6. Norrænu ríkin fjögur, án herlausa Íslands, hafa mótað samræmda varnaráætlun og vilja norrænt herstjórnarsvæði í NATO.

Þetta eru aðeins dæmi, listinn gæti orðið miklu lengri. Hvar stendur Ísland í þessu tilliti?

Upplýsingar um framkvæmdir á vegum mannvirkjasjóðs NATO í landinu eru torséðar en þangað greiðum við árlegt framlag. Draga má í efa að þjóðinni sé ljóst að uppfærsla hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið meiri í 40 ár. Nú eru framkvæmdirnar allar undir forsjá íslenskra yfirvalda og jafnframt öryggisgæsla vegna þeirra.

Fram til 2006 fóru Bandaríkjamenn í Keflavíkurstöðinni með forystu á Norður-Atlantshafi í umboði Atlantshafsherstjórnar NATO í Norfolk. Nú hafa Danir áhuga á að láta meira að sér kveða í nafni NATO-herstjórnarinnar hér á okkar slóðum.

Í greinargerð með þjóðaröryggisstefnunni sem nú hefur verið samþykkt segir: „Ný Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum gegnir því hlutverki að tryggja öryggi og varnir siglingaleiða yfir Norður-Atlantshaf, í GIUK-hliðinu og norður í Íshaf.“ Ekkert er gefið til kynna um hvernig íslensk stjórnvöld ætli að láta að sér kveða eða bregðast við breyttum hernaðarlegum aðstæðum hér á okkar slóðum.

Fyrr en síðar verður ríkisstjórnin að taka ákvarðanir vegna áætlana Atlantshafsherstjórnarinnar. Þá er einnig nauðsynlegt að fyrir liggi hvernig Ísland tengist nýrri sameiginlegri norrænni herstjórn innan vébanda NATO.

Öll óvissa um þetta er óviðunandi. Opna verður umræður um þessi mál miklu meira. Það er löngu tímabært að slíta barnsskónum.

Bók Arnórs er þörf áminning um nauðsyn þess að ræða landvarnir Íslands á innlendum forsendum en ekki aðeins sem útvistunarmál. Hann nefnir meðal annars að setja verði lagaákvæði um hlutverk Landhelgisgæslu Íslands við nýjar aðstæður.

Í ljósi ábendinga ríkisendurskoðunar fyrir rúmu ári og álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um nauðsyn skýrari ábyrgðarkeðju í öryggismálum er einkennilegt að ekki hafi verið tilkynnt um undirbúning slíkra lagabreytinga.