Ingibjörg Gísladóttir
Ingibjörg Gísladóttir
Við virðumst sem þjóð ekki hafa dug til að stjórna okkur sjálf. Eigum við að leyfa alheimsauðvaldinu að taka það að sér?

Ingibjörg Gísladóttir

Nýlega birtist Elon Musk á skjá á fundi World Government Summit í Dubai og ræddi um að það væri of mikil áhætta fólgin í alheimsríkisstjórn. Hann tók dæmi af Rómaveldi: Eftir fall þess reis veldi kalífanna og varðveitti rjómann af menningu þess en með falli alheimsríkis sé hætta á að menning heimsins myndi glatast.

En af hverju að hafa áhyggjur? Jú, á síðasta fundi B20 ríkja var einnig mættur sjálfur Davosfurstinn, Klaus Schwab, sem hefur stært sig af því að hafa troðið fylgisveinum sínum inn í ríkisstjórnir heimsins. Á myndum frá fundinum mátti sjá Schwab umkringdan þjóðaleiðtogum og allir voru þeir í eins, en mismunandi litum skyrtum. Ég fékk deja vu tilfinningu, þetta minnti mig á það er doktor einn í íslömskum fræðum lýsti yfir stofnun Ríkis íslams árið 2014.

Klaus er upphafsmaður þeirrar stefnu er stóru fjárfestingasjóðirnir, Blackrock, Vanguard o.fl. hafa tekið upp og kölluð er ESG. Við fjárfestingar skal tekið tillit til hvernig fyrirtækin standa sig á sviði umhverfisverndar, félagsþátta og stjórnunar. Hafa skal í huga launamun kynjanna, fjölbreytni starfsmanna (sjálfsmyndarpólitíkin), hvað fyrirtækið gerir til að draga úr CO2-losun og hve mikið það greiðir í skatta svo dæmi séu nefnd. Hugmyndir hans virðast ríma við sjálfbærnimarkmið SÞ. Stór hluti valdastéttar heimsins virðist vera meðlimir í félagi Schwab, World Economic Forum (WEF). Á síðasta fundi í Davos mátti líta mörg þekkt andlit og útibú frá Blackrock.

Hverjir eru það sem vilja stjórna heiminum? Flestir virðast þeir tengjast BNA, bankamenn, fólk af gömlum erfðaættum en líka nýríkir menn eins og Jeff Bezos. Í BNA ríkir fyrirtækjaræði, lobbíistar þeirra eru margir og forstjórar stórfyrirtækja veljast gjarnan til embætta í stjórnsýslunni. Þeir stjórna helstu fjölmiðlum, fréttastofum, samtökum, netmiðlum og stofnunum SÞ og ESG-fjárfestistefnan styrkir völd þeirra enn fremur.

Veldi þessarra manna byggist á því að dollarinn er notaður sem alþjóðamynt og þeir verja hann með kjafti og klóm, eins og Obama gerði er hann rústaði Líbýu en Gaddafí hafði kynnt gulldínarinn sem Afríkumynt. Þau lönd er ekki spila með BNA eru ýmist beitt viðskiptaþvingunum eða valdarán er framið með aðstoð CIA (sbr. það sem gerðist í Kíev 2014).

Þeir eru ekki margir en stjórna með því að ýta undir sundrungu manna á milli, m.a. með innflutningi fólks frá öðrum menningarheimum, balkanvæðingu þjóðfélaga. Frú Merkel er að sjálfsögðu WEF-meðlimur. Írar mótmæla því kröftuglega nú um mundir að stórir hópar vegabréfslausra karla séu hýstir í íbúabyggð og óttast konur og börn mjög um öryggi sitt.

Önnur leið til að etja fólki saman er með ný-marxismanum (eymdarhyggjunni). Í stað þess að stilla verkalýðnum upp gegn auðvaldinu er sett upp fjölþátta kerfi þar sem hvítir eru sagðir kúga litaða, karlar konur, gagnkynhneigðir regnbogahópinn o.s.frv. Leiðtogar BLM voru t.d. svartar LBGTQ konur enda studdu fjölmiðlar þær ákaft. Hvítir gagnkynhneigðir karlar eru hins vegar neðst á skalanum og hvítt fólk sagt rasískt í eðli sínu.

Við sáum það á kóvíðtímanum að réttur lyfjafyrirtækjanna til að selja vörur sínar er æðri rétti manna. Alþjóðasamþykktir banna að menn séu neyddir til að þiggja tilraunalyf. Allt sem okkur var sagt um C-19 hefur reynst rangt, samt kallar WHO eftir alræðisvaldi. Í næstu (tilbúnu?) kreppu munu heimsvaldasinnarnir kynna sig sem bjargvætti og bjóðast til að taka við stjórn mála.

Samruni Evrópuríkja er þáttur í áætluninni. Í atvinnuumsókn sinni á Bilderbergfundi lagði WEFmeðlimurinn Ursula von der Leyen fram sýn sína um Bandaríki Evrópu, með sameiginlegum lögum og án neitunarvalds einstakra ríkja. Hún fékk embættið með stuðningi frú Merkel og Macron sem bæði eru í WEF.

Á Íslandi er líkt og alheimsstjórnin sé nú þegar við völd. Engum tilskipunum frá ESB er hafnað og Marrakech-samningurinn um frjálst flæði fólks var samþykktur. Í honum er ákvæði um að svipta megi fjölmiðla stuðningi séu þeir gagnrýnir á slíkt. Í framhaldinu fengu fjölmiðlar okkar fjárhagsstuðning.

Samþykktur var samningur við Pfizer um kaup á tilraunalyfi - kostnaður vegna mögulegra skaðabóta skyldi lenda á ríkinu, enda hefur Pfizer reynslu af því að þurfa að punga út fyrir slíku.

Við samþykktum líka sektargreiðslur vegna CO2-útblásturs þó við vitum vel að áður hafi komið hlýskeið án hækkaðs CO2-magns. Bæði Landnámshlýskeiðið og Litla ísöldin voru sýnd í fyrstu skýrslu IPCC en svo tók hokkígrafið, sem Al Gore (og fjölmiðlar) gerðu frægt, við sem sannleikur. Trúlega eiga þær greiðslur að fjármagna rekstur alheimsstjórnarinnar.

Með því að skoða viðbrögð Kanadastjórnar (þar eru margir WEF-meðlimir innanborðs) í kóvíðfárinu getum við séð hvert stefnir: lögregluríki, fangelsanir, frysting fjármuna og löggilding líknardráps fyrir stöðugt fleiri hópa. Rafræn, rekjanleg mynt er einnig í farvatninu, mjölormar kynntir sem mannamatur auk 15 mín. bíllausra borga.

Draumurinn um hóglífi á UBI-bótum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar gæti hæglega breyst í martröð. Er ekki öruggara að halda í þjóðríkið?

Höfundur starfar við umönnun aldraðra

Höf.: Ingibjörg Gísladóttir