Þjálfari Ágúst Jóhannsson stýrði æfingu liðsins í Safamýrinni í gær.
Þjálfari Ágúst Jóhannsson stýrði æfingu liðsins í Safamýrinni í gær. — Morgunblaðið/Eggert
„Þetta var frekar þungt eftir leikinn en við erum búnir að fara vel yfir hann og vorum að klára fund þar sem við fórum aðeins yfir sóknarleikinn. Þar sáum við fullt af litlum hlutum sem ætti að vera auðvelt að laga,“ sagði Ágúst…

„Þetta var frekar þungt eftir leikinn en við erum búnir að fara vel yfir hann og vorum að klára fund þar sem við fórum aðeins yfir sóknarleikinn. Þar sáum við fullt af litlum hlutum sem ætti að vera auðvelt að laga,“ sagði Ágúst Jóhannsson, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Safamýri í gær.

Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir afar mikilvægan leik gegn Tékklandi í 3. riðli undankeppni EM 2024 sem fram fer á sunnudaginn kemur í Laugardalshöll en liðin mættust í Brno í Tékklandi á miðvikudaginn þar sem Tékkar unnu 22:17-sigur.

Ísland er með 4 stig í öðru sæti riðilsins á meðan Tékkar eru með 6 stig í efsta sætinu og þarf Ísland að vinna með sex marka mun eða meira til þess að endurheimta efsta sæti riðilsins.

„Auðvitað er gott að fá þennan leik strax. Höfum ekki haft mikinn tíma en núna fáum við tvær æfingar og það er mjög mikilvægt að við notum æfingarnar vel og vinnum í okkar málum ef svo má segja. Við ætlum okkur að gera það og reyna að hafa þetta eins markvisst og við getum. Vonandi náum við að snúa þessu við.

Það myndi koma mér mikið á óvart ef það yrði erfitt að hvetja menn til dáða á morgun. Strákarnir fengu á kjaftinn og það eru allir staðráðnir og innstilltir á það að snúa þessu við í Höllinni. Allar okkar æfingar miðast að því að bæta frammistöðuna frá leiknum á miðvikudag því ef við spilum á eðlilegri getu þá eigum við að vinna þá,“ sagði Ágúst. bjarnih@mbl.is