Atvinna Álíka margir voru án vinnu í febrúar og í janúar.
Atvinna Álíka margir voru án vinnu í febrúar og í janúar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atvinnuleysi á landinu var 3,7% í seinasta mánuði og hefur verið óbreytt frá því um seinustu áramót. Hlutfall atvinnulausra í janúar og febrúar sl. hefur ekki verið hærra frá því í maí á seinasta ári þegar skráð atvinnuleysi var 3,9%

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Atvinnuleysi á landinu var 3,7% í seinasta mánuði og hefur verið óbreytt frá því um seinustu áramót. Hlutfall atvinnulausra í janúar og febrúar sl. hefur ekki verið hærra frá því í maí á seinasta ári þegar skráð atvinnuleysi var 3,9%. Atvinnuleysi að undanförnu hefur hins vegar minnkað verulega frá því á fyrstu mánuðum seinasta árs en alls mældist 5,2% atvinnuleysi í febrúar árið 2022.

Úr 24% í 5,8% á tveimur árum á Suðurnesjum

Atvinnuleysið hefur á undanförnum árum mælst mest á Suðurnesjum en þar hefur það þó minnkað að undanförnu. Var atvinnuleysi í febrúar sl. 5,8% og minnkaði úr 6% í janúar. Í febrúar í fyrra var hins vegar 9,2% atvinnuleysi á Suðurnesjum og fyrir tveimur árum mældist 24% atvinnuleysi í landshlutanum.

Vinnumálastofnun birti í gær mánaðarskýrslu um skráð atvinnuleysi á landinu þar sem kemur fram að að meðaltali voru 6.855 einstaklingar atvinnulausir í febrúar sl., 3.910 karlar og 2.945 konur. Í lok febrúar voru alls 7.176 án atvinnu og í atvinnuleit. Að meðaltali fjölgaði atvinnulausum um 68 á milli mánaða. „Næstmest var atvinnuleysið 3,8% á höfuðborgarsvæðinu þar sem það stóð í stað frá janúar. Atvinnuleysi var 3,4% á landsbyggðinni í febrúar og minnkaði úr 3,5% í janúar. Á flestum stöðum á landsbyggðinni minnkaði atvinnuleysið frá janúar nema á Vestfjörðum þar sem það jókst lítilsháttar en var óbreytt á Vesturlandi og á Suðurlandi,“ segir í greinargerð VMST. Minnst atvinnuleysi er á hinn bóginn að finna á Norðurlandi vestra 1,3%, Austurlandi 2,1%, 2,4% á Vesturlandi og 2,5% á Vestfjörðum. Á Suðurlandi var atvinnuleysi 2,8% og 3,1% á Norðurlandi eystra.

Erlendir ríkisborgarar eru stór hluti atvinnulausra eða 46% í seinasta mánuði. Alls voru 3.334 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu um seinustu mánaðamót og samsvarar þessi fjöldi um 6,9% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. 1.610 þeirra komu frá Póllandi og eru þeir um 48% allra erlendra ríkisborgara sem skráðir eru atvinnulausir. VMST gaf í febrúar út 277 atvinnuleyfi til erlendra ríkisborgara til að stafa hér á landi. Þar af voru 144 leyfi veitt til nýrra erlendra ríkisborgara á vinnumarkaðinum og 133 leyfi voru framlengd.

Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum

Fram kemur í greiningu VMST að um seinustu mánaðamót hafði atvinnulausum fækkað í flestum atvinnugreinum frá því í lok janúar. „Mest var hlutfallsleg fækkun í fiskveiðum og tengdum greinum um 6% eða 29 einstaklingar og í opinberri þjónustu um 5% eða um 48 einstaklingar. Meðal atvinnugreina var fjöldi atvinnulausra 1.089 í verslun og flutningum í lok febrúar og hafði fækkað úr 1.117 í janúar sl. en fjöldi atvinnulausra var hins vegar 1.720 í febrúar 2022,“ segir í skýrslunni.

Sérfræðingar VMST gera ráð fyrir að draga muni úr atvinnuleysinu í yfirstandandi mánuði. Atvinnuleysi gæti orðið á bilinu 3,4% til 3,6% í mars.