Adja gengur yfir karl nokkurn og freistar þess þannig að lækna hann af meinum sínum.
Adja gengur yfir karl nokkurn og freistar þess þannig að lækna hann af meinum sínum. — AFP/Olympia de Maismont
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Böggull fylgir þó skammrifi. Ef marka má Ödju þá þýðir þessi næmni hennar fyrir andaheimum að þeir sem eru afbrýðisamir út í hana dunda sér við það á nóttunni að leggja á hana álög.

Þessi þarna, í bleiku peysunni, á eftir að lenda bráðlega í slysi,“ spáir hún án þess að blikna. „Þarna er líka maður sem kominn er til að rannsaka mig,“ bætir hún við án þess þó að benda á viðkomandi.

Múgurinn, sem saman er kominn í þorpinu Toeghin Peulh í Búrkína Fasó, rekur upp stór augu og hlustar í andakt á Ödju, tvítuga konu, sem sögð er búa yfir þeirri náðargáfu að geta heilað fólk með atbeina andanna.

Adja horfir á víxl til himins og á söfnuðinn fyrir framan sig. Andlit hennar allt í kippum. Hún lætur svo sem ekki mikið yfir sér, berfætt, með fléttað hár og í appelsínugulum stuttermabol og köflóttu pilsi. En veit hún hvað hún syngur?

Löng hefð fyrir heilun

Löng hefð er fyrir heilun í landinu enda þótt margir býsnist yfir henni. Yfirvöld eru líka umburðarlynd gagnvart slíkum gjörningi. „Hermt er að fólk blóti þessari hefð í sand og ösku á daginn en stundi hana á nóttunni,“ segir einn af aðstoðarmönnum Ödju við fulltrúa AFP-fréttastofunnar sem er á staðnum.

Meðal þeirra sem leitað hafa til Ödju er fólk sem kveðst hafa orðið fyrir barðinu á illum öndum. Ung kona, Fatoumata, er ein þeirra en hún missti skyndilega allan mátt í fótum. Hún lá hreyfingarlaus á jörðinni meðan Adja hellti yfir hana vígðu vatni og gekk síðan yfir hana, berfætt. Bænasöngur viðstaddra hækkaði um eina áttund á meðan og rann saman við angistaróp annars andsetins fólks í hópnum sem beið eftir að komast að.

Getur ekki læknað alla

Adja gat ekki læknað Fatoumötu, hún reis ekki á fætur, en næsti skjólstæðingur, sem glímdi við sama vanda, fékk bót meina sinna, að því er virtist, og gekk alsæll á braut.

Fylgjendur Ödju segja aðdráttarafl hennar einmitt liggja í þessu, hún geti ekki heilað alla og telji ekki eftir sér að viðurkenna það. Máttur hennar nái bara ákveðið langt. Það lýsi styrk og bendi til þess að mátturinn sé ósvikinn.

„Frægð Ödju byggist á ærleika hennar,“ sagði Awa Tiendrebeogo við AFP, en Adja á að hafa læknað ættingja hennar af þrálátum svima. „Við höfðum reynt allar mögulegar meðferðir og ekkert virkaði. Þá heyrðum við af Ödju og komum hingað.“

Er það vel enda er mál kunnugra að Búrkína Fasó, eitt fátækasta ríki í heimi, hafi ekki upp á margt að bjóða í hefðbundnum meðölum þegar kemur að andlegum kvillum þegna landsins.

Ef marka má rannsókn sem innlendir vísindamenn gerðu og fjallað var um í læknatímaritinu l‘Encephale árið 2018 má halda því fram að 41% þjóðarinnar glími við andlega kvilla af einu eða öðru tagi en aðeins brot þeirra fái viðeigandi læknisaðstoð.

Adja er gælunafn en hún heitir réttu nafni Amsetou Nikiema. Hún trúði AFP fyrir því að hún sækti mátt sinn til óskilgreinds andlegs fyrirbrigðis sem tók yfir líf hennar og harðbannaði henni að segja ósatt. Fyrir þremur árum á hún að hafa gert hálfgert kraftaverk með mætti sínum og spurðist það hratt út.

Rukkar ekki inn

Athafnirnar fara fram utan dyra í skóginum og eru styrktar með framlögum frá vel stæðum aðilum, eins og AFP orðar það. Adja rukkar ekki inn en hvatt er leynt og ljóst til frjálsra framlaga frá viðstöddum.

Böggull fylgir þó skammrifi. Ef marka má Ödju þá þýðir þessi næmni hennar fyrir andaheimum að þeir sem eru afbrýðisamir út í hana dunda sér við það á nóttunni að leggja á hana álög. Hún benti AFP meira að segja á kvalafull ósýnileg sár hér og þar á líkama sínum. Þau náðust ekki á mynd.

Sveit lífvarða, aðstoðarfólks og ævisöguritara umkringdi hana en eigi að síður var hún hress í bragði og óþvinguð í fasi.

„Ástæðan fyrir því að ég hlæ út í eitt er sú að ég vil létta fólki lífið. Fólk lagði fæð á mig þegar ég var barn og fyrir vikið hef ég alltaf þráð að vera vel liðin,“ sagði hún. „Fjölskylda mín kom mjög illa fram við mig í æsku og beitti mig harðræði og það gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag; ég kann að hugsa um aðra. Líði maður ekki þjáningar í bernsku, kemst maður hvorki lönd né strönd í þessu lífi.“

Þorpið orðið segull

Toeghin Peulh liggur um 30 kílómetra suður af Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó. Fyrir atbeina Ödju er þorpið orðið að segli fyrir fólk sem glímir við veikindi eða sálarstríð af einhverjum toga. Daginn sem AFP stakk þarna við stafni brunaði bílalestin eftir malarvegunum á fund Ödju og fréttaveitan fullyrðir að þúsundir manna hafi lagt leið sína þangað í von um lækningu til handa sjálfum sér eða ástvinum sínum. Orðsporið ferðast núorðið langt á undan Ödju sjálfri.

Í hinni mennsku elfur sem streymdi í átt að heilaranum unga mátti finna hlekkjaða menn og bæklaða og svo menn sem sagðir voru andsetnir, undir álögum óheppninnar eða hundeltir af illum öndum.

Hvað reyna menn ekki þegar örþunnt félagsnetið grípur þá ekki?