Handknattleikskonurnar Elna Ólöf Guðjónsdóttir og Berglind Þorsteinsdóttir eru gengnar til liðs við Fram en þær hafa báðar leikið allan sinn feril með HK. Báðar hafa þær misst nánast alveg af yfirstandandi tímabili vegna meiðsla. Elna hefur aðeins náð að spila einn leik í vetur og Berglind þrjá en fjarvera þeirra hefur verið blóðtaka fyrir lið HK sem er neðst í úrvalsdeildinni og er þegar fallið fyrir tvær síðustu umferðirnar. Berglind hefur leikið með A-landsliði Íslands og Elna Ólöf með B-landsliðinu.
Knattspyrnumaðurinn Alejandro Garnacho verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla en hann er samningsbundinn Manchester United á Englandi. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í gær en leikmaðurinn meiddist á ökkla í markalausu jafntefli United og Southamtpon um nýliðna helgi. Garnacho, sem er einungis 18 ára gamall, hefur komið við sögu í 15 leikjum með United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp önnur tvö til viðbótar.
Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Birgir Finnsson og Hákon Arnar Haraldsson eru allir í úrvalsliði 21. umferðar í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á vefsíðu deildarinnar. Sævar skoraði tvö mörk, annað eftir sendingu Kolbeins, þegar Lyngby vann Midtjylland 3:1 og Hákon skoraði eitt marka Köbenhavn sem vann Horsens 4:1.
Knattspyrnukonan Mia Gunter lést á dögunum en hún lék með KR hér á landi tímabilið 2018. Gunter var einungis 28 ára gömul þegar hún lést en hún lék 17 leiki með KR í efstu deild þar sem hún skoraði þrjú mörk. Hún var fædd og uppalin í Kanada en fjölskylda hennar minntist hennar á vefsíðu Edmonton Journal í gær. Eftir að samningur hennar við KR rann út hélt hún til Englands þar sem hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá háskólanum í York á dögunum. Gunter var ekki að glíma við veikindi samkvæmt Edmonton Journal og andlát hennar bar því að með sviplegum hætti.
Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, missir af síðari viðureign liðsins gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, sem fram fer í Madrid í dag. Henderson, sem er 32 ára gamall, ferðaðist ekki með liðinu til Spánar í gær vegna veikinda. Real Madrid leiðir 5:2 í einvíginu en Liverpool komst í 2:0 í fyrri leiknum á Anfield áður en Real Madrid svaraði með fimm mörkum í röð.
Bikarmeistarar Vals í handknattleik kvenna hafa orðið fyrir miklu áfalli þar sem landsliðsmarkvörðurinn Sara Sif Helgadóttir er meidd og leikur ekki meira með liðinu á tímabilinu. Handbolti.is greindi frá þessu í gær. Sara Sif meiddist í síðasta leik Vals, gegn Stjörnunni í úrvalsdeildinni á laugardag, og hefur myndataka leitt í ljós að hún verður frá í að minnsta kosti átta vikur eftir að hafa meiðst á hné. Aftara krossband í hægra hné er tognað og einnig eru liðbönd tognuð.