Bikarinn Valur og ÍBV eru líkleg til að mætast í úrslitaleik.
Bikarinn Valur og ÍBV eru líkleg til að mætast í úrslitaleik. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Undanúrslitaleikirnir í bikarkeppni kvenna í handknattleik fara fram í Laugardalshöllinni í kvöld en með þeim hefst hin svokallaða bikarhelgi HSÍ sem stendur til laugardags. Annað kvöld eru undanúrslitin hjá körlunum og úrslitaleikirnir fara síðan…

Undanúrslitaleikirnir í bikarkeppni kvenna í handknattleik fara fram í Laugardalshöllinni í kvöld en með þeim hefst hin svokallaða bikarhelgi HSÍ sem stendur til laugardags.

Annað kvöld eru undanúrslitin hjá körlunum og úrslitaleikirnir fara síðan fram á laugardaginn, úrslitaleikur kvenna klukkan 13.30 og úrslitaleikur karla klukkan 16.

Í undanúrslitum kvenna í kvöld mætast Haukar og Valur í fyrri leiknum klukkan 18 en ÍBV mætir Selfossi í Suðurlandsslag í seinni leiknum klukkan 20.15.

Miklar líkur eru á því að tvö efstu lið úrvalsdeildarinnar, ÍBV og Valur, hafi betur í þessum viðureignum og mætist í úrslitaleiknum á laugardaginn. Liðin tvö eru jöfn með 32 stig í tveimur efstu sætunum á meðan keppinautar þeirra sitja í sjötta og sjöunda sætinu.

Eyjakonur hafa verið á sérstaklega mikilli siglingu og hafa frá 19. október unnið alla fjórtán leiki sína í deildinni.

Haukar eru með 12 stig og Selfyssingar eru í næstneðsta sæti deildarinnar með 8 stig og þurfa líklega að fara í aukakeppni í vor um sæti í deildinni.

Valur hefur unnið alla þrjá leiki sína við Hauka á Íslandsmótinu í vetur, 37:22, 34:26 og 27:26 og ÍBV hefur unnið báða sína leiki gegn Selfossi, 32:27 og 40:19.

Valur er ríkjandi bikarmeistari kvenna og hefur unnið bikarinn átta sinnum. ÍBV vann bikarinn síðast árið 2004, þá í þriðja sinn og Haukar unnu sinn fjórða og síðasta sigur í bikarkeppninni árið 2007. Selfoss hefur aldrei orðið bikarmeistari.