Helgi Snær Sigurðsson
HBO er einhver allra besti framleiðandi sjónvarpsefnis á þessari öld og þrátt fyrir harðari samkeppni hin síðustu ár virðist stöðin enn á toppnum. Fyrstu þættirnir sem slógu í gegn hjá HBO voru The Sopranos, sérlega vel skrifaðir og vandaðir þættir í alla staði og fleiri frábærar þáttaraðir fylgdu á eftir á næstu árum, m.a. Six Feet Under, The Wire, Game of Thrones og Chernobyl. Auðvitað hefur ekki allt verið frábært sem HBO hefur framleitt en sannarlega margt.
Nýjasta rósin í hnappagatið eru þáttaraðirnar The White Lotus. Tvær hafa verið gefnar út og sú þriðja á leiðinni. Persónusköpunin í þeim og fléttan er fyrsta flokks og spaugið bleksvart. Í fyrri þáttaröð segir af gestum á hótelinu The White Lotus á Havaí. Þeir eru forríkir og afar sjálfhverfir með hin ýmsu vandamál. Ein skrautlegasta persónan er kona um sextugt, Tanya, sem er nýbúin að missa móður sína. Í sorg sinni hengir hún sig á einn starfsmann hótelsins og þarf sá að sinna henni öllum stundum. Tanya þessi kemur aftur við sögu í annarri seríu og saga hennar þar er kostuleg. Tönyu leikur hin stórkostlega Jennifer Coolidge og á hún á skilið að fá öll heimsins sjónvarpsþáttaverðlaun fyrir.