Sorg Móðir snertir mynd af föllnum syni sínum, sem hangir á minningarvegg um fallna hermenn í Kænugarði.
Sorg Móðir snertir mynd af föllnum syni sínum, sem hangir á minningarvegg um fallna hermenn í Kænugarði. — AFP/Sergei Supinsky
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Valerí Salúsjní, yfirmaður Úkraínuhers, sagði í gær að orrustan um Bakhmút væri lykillinn að því að hægt væri að halda aftur af sókn Rússa, en harðir bardagar geisuðu enn í miðborg hennar í gær.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Valerí Salúsjní, yfirmaður Úkraínuhers, sagði í gær að orrustan um Bakhmút væri lykillinn að því að hægt væri að halda aftur af sókn Rússa, en harðir bardagar geisuðu enn í miðborg hennar í gær.

Ákvörðun Úkraínumanna að halda uppi vörnum gegn áhlaupi Rússa á borgina hefur verið gagnrýnd, þar sem vestrænir hernaðarsérfræðingar eru flestir á því að hernaðargildi borgarinnar sé lítið, í það minnsta miðað við þær mannfórnir sem bæði Rússar og Úkraínumenn hafa fært í orrustunni um Bakhmút til þessa.

„Varnaraðgerðirnar á þessu svæði skipta lykilmáli við að halda aftur af óvinunum. Þær eru lykillinn að stöðugleika varna okkar á allri víglínunni,“ sagði Salúsjní í gær, en skrifstofa Selenskís Úkraínuforseta greindi frá því í gær að forsetinn hefði fundað með yfirstjórn hersins og var þar samþykkt einum rómi að herinn myndi áfram verja Bakhmút.

Bæði Jevgení Prigosjín, stofnandi Wagner-hópsins, og Denis Pushilín, leppstjóri Rússa í Donetsk-héraði, hafa sagt að barist sé um „sérhvern metra“ í Bakhmút, en Rússar ógna nú síðasta veginum að borginni, sem Úkraínuher hefur vald á. Prigosjín varaði hins vegar við því í gær að Úkraínumenn væru í óðaönn að undirbúa gagnárás til þess að hrekja sveitir sínar frá borginni.

Berjist fyrir „tilveru sinni“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær að Rússland væri að berjast fyrir tilverurétti sínum sem ríki í Úkraínu. Pútín heimsótti í gær flugvélaverksmiðju í Búratíu-héraði og sagði þar að Rússar hefðu reynt að „laga samskiptin“ við Úkraínu í marga áratugi, en að Maídan-byltingin 2014 hefði breytt ástandinu til hins verra, en Rússar hófu innrás í Donbass-héruðin og Krímskaga í kjölfar hennar.

Pútín bætti við að hann hefði haft áhyggjur af því að efnahagur Rússlands myndi kikna undan refsiaðgerðum vesturveldanna, en að Rússland stæði nú uppi sem „efnahagslega fullvalda ríki“ í kjölfar innrásarinnar. Sagði Pútín að efnahagur Rússlands hefði reynst sterkari en nokkurn mann hefði grunað.

Neðri deild rússneska þingsins samþykkti í gær lagabreytingu, sem gerir það refsivert að gagnrýna „sjálfboðaliða“ sem berjast fyrir Rússa í Úkraínu. Áður var bannað að gagnrýna aðgerðir hersins í Úkraínu, en Wagner-málaliðahópurinn féll ekki undir þá löggjöf.

Frumvarpið fer nú fyrir efri deild þingsins áður en það verður sent Pútín til staðfestingar, en verði lögin samþykkt mun fólk sem gagnrýnir Wagner-hópinn eiga yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi, eða sömu refsingu og nú gildir um gagnrýni á herinn. Saksóknarar í Rússlandi hafa nú þegar höfðað rúmlega 5.800 mál gegn fólki sem „gerði lítið úr“ rússneska hernum.

Finnar inn á undan Svíum?

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að það væru auknar líkur á því að Finnland myndi ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið á undan Svíum, þar sem tyrknesk stjórnvöld settu sig enn upp á móti inngöngu Svía.

Kristersson sagði á blaðamannafundi í gær að Svíar hefðu ekki fengið staðfestingu á því, en að það væri tilfinning Svía eftir þau samtöl sem Svíar, Finnar og Tyrkir hafa átt síðustu vikur um aðildarumsóknir norrænu ríkjanna tveggja.

Ríkin sóttu á sama tíma um aðild að bandalaginu í maí á síðasta ári, og stóðu vonir til þess að umsóknarferlinu yrði lokið í tæka tíð fyrir leiðtogafund NATO í Vilníus, sem verður haldinn í júlí. Einungis tvö ríki af þrjátíu eiga eftir að staðfesta samþykki sitt fyrir inngöngu ríkjanna tveggja, Ungverjaland og Tyrkland.

Tyrkir hafa sakað Svía um að skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn, og þá sérstaklega úr röðum Kúrdíska verkamannaflokksins, PKK, sem skilgreindur er sem hryðjuverkasamtök víða á Vesturlöndum. Hafa Tyrkir látið í ljósi þá skoðun að Svíar þurfi enn að gera meira til þess að hljóta náð fyrir augum sínum.

Stefnt er að því að ungverska þingið greiði atkvæði um aðildarumsóknirnar tvær á allra næstu vikum, og sagði Csaba Hende, einn varaforseta þingsins, í síðustu viku að gert væri ráð fyrir því að þær yrðu samþykktar.

Kristersson sagði í gær að hann væri sannfærður um að Svíþjóð yrði eitt af bandalagsríkjunum fyrr eða síðar. „Þetta er ekki spurning um hvort Svíþjóð verður NATO-ríki, heldur nákvæmlega hvenær Svíþjóð verður NATO-ríki,“ sagði hann. Þá ítrekaði Kristersson, að Svíar væru nú öruggari en fyrir aðildarumsóknina, þar sem nokkur bandalagsríki hefðu veitt Svíum tvíhliða tryggingar í öryggis- og varnarmálum í kjölfar umsóknarinnar.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson