Áformað er að stækka Keflavíkurflugvöll um á fjórða hundrað þúsund fermetra eða sem nemur ríflega fimmföldum grunnfleti Smáralindar. Fjallað er um þessi áform í skýrslu VSÓ vegna umhverfismats sem unnin var að frumkvæði Isavia

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Áformað er að stækka Keflavíkurflugvöll um á fjórða hundrað þúsund fermetra eða sem nemur ríflega fimmföldum grunnfleti Smáralindar.

Fjallað er um þessi áform í skýrslu VSÓ vegna umhverfismats sem unnin var að frumkvæði Isavia.

Fyrst ber að nefna fyrsta áfanga fyrirhugaðrar austurálmu en hann er alls um 22 þúsund fermetrar. Hluti hennar verður tekin í notkun í sumar en þar verður meðal annars nýr komusalur með töskubeltum og nýtt veitingarými á annarri hæð.

Þá verður suðurbygging stækkuð til austurs en þessar viðbyggingar eru sýndar á grafinu hér til hliðar.

Landgangurinn milli suður- og norðurhluta flugstöðvarinnar verður breikkaður svo úr verður tengibygging. Með því skapast möguleikar á verslunar- og veitingasvæðum við flughliðin. Hins vegar verður norðurbyggingin, gamla flugstöðin, stækkuð til suðurs.

Hægt að stækka fríhöfnina

Með þeirri viðbyggingu verður meðal annars hægt að stækka fríhöfnina á fyrstu hæð, veitinga- og verslunarrými á annarri hæð og koma fyrir landamærum við inngang austurálmunnar, á þriðju hæð.

Þá verður fyrirhuguð norðurbygging allt að 35 þúsund fermetrar. Um er að ræða stækkun norðurbyggingarinnar til norðurs en með því verða til ný afgreiðslusvæði komu- og brottfararfarþega. Á annarri hæð norðurbyggingar verður innritunarsalur brottfararfarþega, ásamt nýju svæði fyrir öryggisleit. Á fyrstu hæð verða ný færibönd við heimkomu.

Svonefndur austurfingur, austur af austurálmunni, verður allt að 80 þúsund fermetrar. Eins og teikningin hér fyrir ofan sýnir verða mörg flughlið í austurfingrinum og hugsanlega um að ræða eina lengstu byggingu á Íslandi.

Samkvæmt skýrslu VSÓ verður nýr landgangur byggður til austurs í áföngum. Fullbyggður á hann að rúma allt að 17 flugvélahlið með landgöngubrúm, ásamt hliðum sem nýtt verða fyrir fjarstæði. Á jarðhæð verður flokkunarkerfi fyrir farangur ásamt rútuhliðum.

Mun rúma fjölda bíla

Samhliða stækkun flugstöðvarinnar er ráðgert að reisa tvö bílastæðahús sem verða samtals allt að 100 þúsund fermetrar. Til viðbótar er áformað að taka um 41 þúsund fermetra undir bílastæði ofanjarðar, en Isavia býður nú meðal annars upp á langtímaleigu á stæðum í hólfi P3.

Til að setja þetta í samhengi segir í skýrslu VSÓ að skammtíma- og langtímastæði fyrir farþega séu nú alls 100 þúsund fermetrar.

Byggt á demantasvæði

Loks er áformað að reisa samtals yfir 28 þúsund fermetra mannvirki á svonefndu demantasvæði en það er utan við svæðið sem kortið sýnir.

Alls eru þetta ríflega 338 þúsund fermetrar.

Við þetta má bæta uppbyggingu flugbrauta en sá þáttur er ekki til umfjöllunar hér. Þá er mikil uppbygging fyrirhuguð á svæðum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag og laugardag.

Metjöfnun árið 2026

Með stækkun flugstöðvarinnar á að mæta væntri fjölgun farþega á næstu tíu árum.

Í skýrslu VSÓ er vikið að farþegaspá Isavia. Samkvæmt henni muni 11,4 til 13,6 milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll árið 2032. Þá sé áætlað að árið 2026 verði fjöldi farþega álíka mikill og metárið 2018 eða um 9,9 milljónir en 10,3 milljónir að hámarki.

Með þessari uppbyggingu breytist ásýnd flugstöðvarinnar. Gamla flugstöðin með rauðlituðu klæðningunni, sem er fyrir miðju kortinu sem hér fylgir, verður heldur smá í samanburði við allar þær byggingar sem stendur til að reisa.

Höf.: Baldur Arnarson