Svakalegir Michael B. Jordan og Jonathan Majors í Creed III. Bylmingshögg frá Damien í maga Adonis.
Svakalegir Michael B. Jordan og Jonathan Majors í Creed III. Bylmingshögg frá Damien í maga Adonis.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin Creed III ★★★·· Leikstjórn: Michael B. Jordan. Handrit: Keegan Coogler og Zach Baylin. Aðalleikarar: Michael B. Jordan, Tessa Thompson, Jonathan Majors, Wood Harris, Phylicia Rashad, Mila Davis- Kent og Jose Benavidez. Bandaríkin, 2023. 116 mín.

KVIKMYNDIR

Helgi Snær Sigurðsson

Þegar ég var á tólfta aldursári fór ég að sjá Rocky IV í bíó og varð yfir mig hrifinn líkt og flestir jafnaldrar mínir. Þarna voru miklir karlar í krapinu, óttalausir hnefaleikakappar að berja hvor annan í hringnum (sem er reyndar ferhyrningur), hin góðu Bandaríki á móti hinum vondu Sovétríkjum. Þetta var árið 1986 og Rocky átti harma að hefna gegn risanum Ivan Drago sem drap vin hans, Appollo Creed, í hringnum. Apollo var kokhraustur þegar hann dansaði í kringum risann en endaði undir grænni torfu.

Ég var bara 11 ára og því hrifnæmur, vildi gjarnan verða hreystimenni eins og Rocky. Þegar horft er á myndina í dag er í besta falli hægt að hlæja að allri vitleysunni, hinni svarthvítu heimssýn, fáránlega einföldum og illa mótuðum persónum og ótrúlega lélegu handritinu. En skemmtileg er myndin, engu að síður. Enn einu sinni fylgdi Sylvester Stallone Rocky-formúlunni sem virkaði svo vel í fyrstu þremur myndum. Vitgrannur og góðhjartaður fátæklingur sem kann það eitt að boxa verður vellauðugur heimsmeistari í hnefaleikum eftir að hafa sigrast á hinum ýmsu hindrunum, andlegum sem líkamlegum.

Og áfram hélt færibandið, Stallone sem lék Rocky í hverri myndinni á eftir annarri varð á endanum þjálfari sonar Apollo Creed heitins, Adonis (Jordan), og sá varð auðvitað líka heimsmeistari í þungavigt. Adonis þessi átti erfiða æsku, nema hvað og lærði að tjá sig með hnefunum. Hann er samt hinn vænsti náungi og mjúkur inn bið beinið þótt grjótharður sé hið ytra. Í kvikmyndinni Creed var Adonis kynntur til sögunnar, hann þurfti að fóta sig í heimi atvinnumennskunnar með aðstoð Rocky og kynntist líka verðandi eiginkonu sinni, Biöncu (Thompson). Þau eiga nú, í þriðju Creed-myndinni, unga dóttur og búa í svakalegu glæsihýsi með útsýni yfir alla Los Angeles. Dóttirin er heyrnarlaus og gjörn á að láta hnefana tala, líkt og pabbi hennar. Bianca reynir að miðla málum og útskýra fyrir bæði dóttur og eiginmanni að ofbeldi leysi engan vanda. Eiginmaðurinn virðist ekki alveg á því og vill endilega að dóttirin læri líka að nota hnefana. Skrítið uppeldi það, verður að segjast.

Adonis hefur nú lagt boxhanskana á hilluna og beinir orku sinni að næsta meistara, Felix Chaves sem leikinn er af raunverulegum boxara, José Benavides. Sá á að berjast við Viktor, son Ivans Drago. Dag einn birtist óvænt æskuvinur Adonis, Damien „Dame“ Anderson (Majors), nýlaus úr fangelsi eftir 18 ár. Damien var einn efnilegasti boxari landsins í flokki ungmenna áður en hann hlaut dóm og vill nú verða heimsmeistari. Adonis ákveður að hjálpa honum, enda þjakaður af samviskubiti. Damien virðist nefnilega eiga inni hjá Adonis og kemur fyrir í fyrstu sem vinalegur náungi en þó er greinileg spenna í samskiptum þessara fyrrum vina. Þegar Damien stígur inn í hringinn á æfingu kemur hans sanna eðli í ljós. Hann boxar ekki heiðarlega, virðist lítt gefinn fyrir reglur. Mál þróast svo þannig að Viktor getur ekki keppt vegna meiðsla og Damien býðst til að boxa við Chavez um heimsmeistaratitilinn. Og allir vita hvernig sá bardagi fer, þekki þeir til Rocky-formúlunnar. Hið sanna eðli Damien kemur þá í ljós og reynir hann hvað hann getur að niðurlægja Adonis. Auðvitað enda þeir undir lokin í hringnum, líkt og sjá má af öllu kynningarefni myndarinnar og stiklu.

Innblásin af anime?

Það kemur fátt sem ekkert á óvart í Creed III, eins og búast mátti við. Nema þá kannski ákveðin listræn tilþrif í lokabardaganum þar sem áhorfendur hverfa og leikvangurinn fyllist af reyk og á stundum gleður augað hugmyndarík myndataka sem sögð er innblásin af anime-teiknimyndum. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en flott er hún.

Það kemur eflaust fáum á óvart að boxatriðin eru þau atriði sem standa upp úr eftir þessa bíóferð. Þau eru vel útfærð, myndatakan
flott og boxið sannfærandi. Tökumaður eða -menn fara nálægt leikurunum og sjónarhornin eru mörg, stundum óvenjuleg og ég stóð mig að því að beygja mig í sætinu undan verstu höggunum. Aðalleikararnir tveir, Jordan og Majors, eru eins og villidýr sem att er saman í lokaatriðinu, öskrandi og nánast froðufellandi inni í hringnum. Hljóðvinnslan vekur líka athygli og nýtur hún sín vel í alltumlykjandi hljóðkerfi Egilshallar þar sem ég sá myndina. Mér þykir líklegt að í lokaatriðinu hafi leikararnir látið höggin dynja hvor á öðrum, þó svo ég viti að það hafi ekki verið með því afli sem virðist vera á tjaldinu og greinilegt að þessir tveir kappar hafa lagt mjög mikið á sig við líkamlegan undirbúning. Þeir eru rosalegir á að líta. Hin sígildu þjálfunaratriði sem finna má í öllum Rocky- og Creed-myndum eru líka á sínum stað, í þriðja hlutanum, og gaman að þeirri gömlu og ómissandi klisju.

Creed III er gerð eftir gamalli uppskrift sem virðist alltaf virka. Allt leikur í lyndi í fyrsta hluta, óvænt áskorun og ógn birtist um miðbikið sem þvingar hetjuna inn í hringinn undir lokin og hún fer auðvitað með sigur af hólmi. Þannig fer þessi kunnuglega saga hring eftir hring og mögulega út í hið óendanlega. Fá óvænt hráefni er að finna í þeirri uppskrift, þótt blæbrigðamunur sé á hverri mynd þar sem ólíkir menn eru við stjórnvölinn. Engin áhætta er tekin enda uppskera framleiðendur vel með mikilli miðasölu.

Majors er fínn leikari og fangar athygli manns í hvert sinn sem hann birtist en fær því miður ekki að fara mikið á dýptina þegar kemur að persónusköpuninni. Jordan er aftur á móti heldur flatur og ágætar leikkonurnar fá lítið að gera annað en að vera í öngum sínum eða styðja sinn mann. Hin unga dóttir Adonis og Biöncu, leikin af Milu Davis-Kent, er krúttleg og stelur senunni í hvert sinn sem hún birtist. Ég er ekki frá því að teboð með henni og Adonis í byrjun myndar, þar sem pabbinn þarf að klæða sig í froskagalla, sé eitt það besta í myndinni.

Á heildina litið er þetta fín afþreying og sama gamla sagan. En sagan virkar og spennan í boxatriðunum er að vanda mikil. Þetta er fyrsta kvikmynd Jordans sem leikstjóra og hann leysir verkefnið vel af hendi miðað við það sem hann hefur úr að moða, formúlunni og fyrirsjáanlegu handriti. Og væri ég núna 11 ára, líkt og þegar ég sá Rocky IV, þætti mér myndin líklega frábær. Ég færi eflaust boxandi heim í strætó.