Átrúnaðargoðin Hjónin Valdimar Guðjónsson og Kristín Ólafsdóttir við styttur af fjórmenningunum frægu.
Átrúnaðargoðin Hjónin Valdimar Guðjónsson og Kristín Ólafsdóttir við styttur af fjórmenningunum frægu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Bítlarnir breyttu öllu. Þetta finnur maður vel í Liverpool en þar er sögu hljómsveitarinnar gert hátt undir höfði með söfnum, skoðunarferðum, tónlistarviðburðum og minjagripasölu. Að tala um Bítlaborgina á vel við,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður í Rokklandi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Bítlarnir breyttu öllu. Þetta finnur maður vel í Liverpool en þar er sögu hljómsveitarinnar gert hátt undir höfði með söfnum, skoðunarferðum, tónlistarviðburðum og minjagripasölu. Að tala um Bítlaborgina á vel við,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður í Rokklandi. Hann var fararstjóri í Bítlatúr til Liverpool í Bretlandi um síðustu helgi þar sem söguslóðir The Beatles voru heimsóttar. Ferðaskrifstofan TA-sport stóð að ferðinni í samvinnu við Moggaklúbbinn.

Hljómsveit númer eitt

Ólafur Páll segir að Bítlarnir séu merkasta hljómsveit sögunnar; númer eitt hvernig sem á það er litið. Þáttaskil hafi orðið þegar fyrsta stóra platan þeirra, Please Please Me, kom út 22. mars 1963. Á miðvikudag í næstu viku eru því liðin 60 ár frá því platan kom út og þeirra tímamóta verður væntanlega minnst víða.

„Straumar og stílar í lögum Bítlanna á þeim tólf plötum sem þeir gáfu út eru alveg svakalega ólíkir. Það er eins og það séu margar hljómsveitir í þessum fjórum strákum frá Liverpool. She loves you er allt öðruvísi lag en Yesterday. Þau tvö eru allt öðruvísi en Helter Skelter og kannski Obladi oblada eða Hey Jude,“ segir fararstjórinn.

Þröngur radíus

Í leiðangrinum um helgina var komið við á Bítlasafni borgarinnar og í hinum sögufræga Cavern Club þar sem hljómsveitin kom fram næstum 300 sinnum í árdaga Bítlaæðisins. Ennig var farið í rútuferð um borgina – Magical mystery tour – að æskuheimilum þeirra Pauls McCartneys, Johns Lennons, Ringos Starr og George Harrisons.

„Æskuheimili bítlastrákanna, Penny Lane, Strawberry Field og þessir helstu Bítlastaðir eru í frekar þröngum radíus svo segja má að við höfum náð öllu því helsta. Í hópnum, sem taldi rúmlega 20 manns, var fólk sem almennt þekkti vel til Bítlanna, en saga þeirra er til skráð af ótrúlegri nákvæmni í blöðum, bókum og kvikmyndum og á netinu,“ segir Ólafur Páll sem væntir þess að ferðir sínar með Bítlaaðdáendur til Liverpool verði fleiri í fyllingu tímans.

Beint í blóðrásina

„Bítlarnir eru mínir menn,“ segir Valdimar Guðjónsson, bóndi í Gaulverjabæ í Flóa. Þau Kristín Ólafsdóttir, kona hans, voru í hópnum sem fór til Liverpool um helgina og nutu hennar vel.

„Ég er fæddur árið 1961 og fékk því Bítlana beint í blóðrásina frá eldri systkinum mínum. Lærði lögin og meðtók menninguna sem þeim fylgdi. Ég man líka vel þá sorg sem helltist yfir marga þegar spurðist út árið 1970 að hljómsveitin væri hætt. Þetta voru ótrúlegir tímar.“

Valdimar segir að margt í Liverpool minni á Bítlana svo fólk fái sanna tilfinningu fyrir því að það sé á heimaslóð þeirra en ekki í tilbúnum sýndarheimi. Rútuferðin að æskuheimilum Bítlanna og skólanum sem þeir gengu í verði eftirminnileg. „Svo var engu líkt að koma í Cavern-klúbbinn, þar sem hljóðfæraleikarar spiluðu Bítlalögin. Þarna var frábær stemning rétt eins og á sveitaballi í Flóanum forðum.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson