Stórfjölskyldan Samankomin um síðustu helgi, en á myndina vantar Benjamín.
Stórfjölskyldan Samankomin um síðustu helgi, en á myndina vantar Benjamín.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jenný Kamilla Harðardóttir er fædd 15. mars 1953 á Landspítalanum og ólst upp í Garði en einnig á Gufuskálum á Snæfellsnesi. „Frá 1959-1965 áttum við heima á Lóranstöðinni á Gufuskálum, en pabbi vann þar sem vélamaður hjá bandarísku strandgæslunni

Jenný Kamilla Harðardóttir er fædd 15. mars 1953 á Landspítalanum og ólst upp í Garði en einnig á Gufuskálum á Snæfellsnesi.

„Frá 1959-1965 áttum við heima á Lóranstöðinni á Gufuskálum, en pabbi vann þar sem vélamaður hjá bandarísku strandgæslunni. Þegar við fluttum til Gufuskála þá var bara ein önnur íslensk fjölskylda þar. Hitt voru Bandaríkjamenn sem voru þar án fjölskyldu sinnar, þess vegna lærðum við t. d. hafnabolta sem var þeirra íþrótt. Á staðnum var samkomuhús þar sem sýndar voru nýjar bíómyndir sem komu beint frá Bandaríkjunum, þannig að þegar við fluttum aftur suður fór ég ekki í bíó í mörg ár þar sem ég hafði séð allar myndirnar sem voru þá í bíóhúsum.

Í Garði voru beljur og kindur allt í kring þótt við værum ekki með þær svo ég þurfti ekki að fara í sveit. Mér þótti voða merkilegt að vera kúasmali átta ára. Þá sótti ég kýrnar upp í heiði. Ég var það sem kallað var „tomboy“. Ég er alin upp að hluta í bandarísku umhverfi og við vorum með ensku frasana á hreinu, en tomboy er að gera ekki það sem er dæmigert fyrir stelpur. Mér fannst skemmtilegra að vera í indíánaleikjum og fótbolta heldur en í dúkkuleikjum.“

Jenný gekk í barnaskólann á Hellissandi og svo í Gerðaskóla í Garði, var eitt ár í Gagnfræðaskóla Keflavíkur og lauk þaðan landsprófi. Hún er handavinnu- og stærðfræðikennari frá Kennaraskóla Íslands. „Þegar ég var í skólanum þá skiptist námið í tvennt, fyrstu tvö árin til að læra eitthvað bóklegt og stærðfræði hefur alltaf heillað mig svo ég valdi hana. Seinni tvö árin lærðum við það sem kallað var handavinna í þá daga en heitir textílmennt í dag.“

Jenný var grunnskólakennari við Gerðaskóla í Garði, skrifstofumaður hjá Íslenskum markaði og forstöðumaður þar í tvö ár og síðan forstöðumaður hjá Miðnesheiði, dótturfyrirtæki 66°Norður. Síðustu árin hefur hún unnið hjá Suðurnesjabæ, áður Sveitarfélaginu Garði, mestan hluta sem skjalastjóri.

„Ég kenndi í tólf ár, var umsjónarkennari en kenndi einnig stærðfræði og síðan handavinnu þegar fór að líða á. Síðan fór ég í flugstöðina, ætlaði að breyta til í eitt ár, en þau urðu 27. Íslenskur markaður var hlutinn sem seldi minjagripi, matvörur og hitt og þetta. Hann var stofnaður af íslenskum iðnfyrirtækjum og þegar ég byrjaði þá voru bara Íslenskur markaður og Fríhöfnin í flugstöðinni. Íslenskur markaður var síðan leystur upp í útboði 2006 og þá fór ég til Miðnesheiðar og við rákum verslanirnar Rammagerðina og 66°Norður.

Það urðu auðvitað breytingar þegar Sandgerði og Garður voru sameinuð í Suðurnesjabæ, en enginn missti vinnuna þótt tekið hefði verið fram að ekki væri víst við fengjum sömu stöðu og við hefðum starfað við. En ég fékk að halda skjalastjórastarfinu, því sem ég hef mestan áhuga á, en mér hefur fundist gaman að grúska í gömlum skjölum, þar er saga bæjarins.“

Jenný hefur verið í Lionsklúbbnum Garði frá því haustið 1987 og gegnt ýmsum störfum innan Lionsklúbbsins. Hún var fyrsta konan á Norðurlöndunum til að vera í Lionsklúbbi. „Á alþjóðaþinginu 1987 var loksins ákveðið að konur gætu orðið fullgildir Lionsfélagar og þá um haustið gekk ég til liðs við þá og hef eiginlega verið eina konan hér í Garði í þessum strákaklúbbi síðan þá. Er Lions „First lady“.“ Jenný hefur einnig verið formaður yfirkjörstjórnar í sínu sveitarfélagi frá 2006.

Helstu áhugamál Jennýjar eru ferðalög og lestur góðra krimma. „Ég hef ábyggilega oftar ferðast utanlands en innan, enda stutt að fara. Ég hef ósköp gaman af því að fara til sólarlanda, fór til Gran Canarias í mörg herrans ár og núna til Tene. Það eru alltaf einhverjar ferðir á teikniborðinu, en það er ekki alveg komið á hreint hvert ég fer í sumar. Ég er hrifinn af Arnaldi og Ragnari og les náttúrlega líka erlenda krimmahöfunda. Minn uppáhaldshöfundur er samt Ólafur Jóhann þótt hann sé ekki alltaf í krimmum. Síðasta bókin hans, Játning, er geggjuð.“ Jenný ætlar að njóta afmælisdagsins með fjölskyldu sinni. „Ég ætla að borða með börnunum mínum, tengdabörnum og barnabörnum. Þau búa öll hérna í nágrenninu sem betur fer.“

Fjölskylda

Börn Jennýjar með Richard Dawson Woodhead, f. 6.4. 1947, d. 27.12. 2019, útfararstjóra, en þau skildu árið 2006, eru 1) Agnes Ásta, f. 26.4. 1974, féhirðir, búsett í Suðurnesjabæ. Maki: Einar Gunnar Einarsson, starfsmaður þingflokks Framsóknarmanna; 2), Frank Dawson, f. 6.10. 1981, starfsmaður ÍAV þjónustu, búsettur í Suðurnesjabæ. Maki: Bennie May Wright húsmóðir. Synir Franks eru Richard Dawson, f. 2000, og Benjamín Ágúst Dawson, f. 2007; 3) Lára Gestrún, f. 18.5. 1988, skrifstofustjóri og eigandi JBÓ pípulagna, búsett í Innri-Njarðvík. Maki: Ólafur Tryggvi Eggertsson, pípulagningameistari og eigandi JBÓ pípulagna. Börn þeirra eru Ástrós Anna, f. 2007, Jóhann Már, f. 2011 og Elínrós Anna, f. 2019.

Systur Jennýjar: Oddný Guðbjörg Harðardóttir, f. 9.4. 1957, alþingismaður, búsett í Suðurnesjabæ, og Dagný Magnea Harðardóttir, f. 8.6. 1961 d. 20.9. 2019, skrifstofumaður, bjó í Reykjavík.

Foreldrar Jennýjar voru Agnes Ásta Guðmundsdóttir, f. 26.10. 1933, d. 30.11. 1982, verslunarmaður, bjó í Björk í Gerðahreppi, og Hörður Sumarliðason, f. 4.2. 1930, 13.1. 2012, plötusmiður, bjó í Kópavogi. Þau skildu. Stjúpmóðir Jennýjar og eiginkona Harðar er Erna Hartmannsdóttir, f. 16.6. 1935, sjúkraliði, búsett í Kópavogi.