Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
Í kjarasamningum sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í desember 2022 var ákveðið að taka upp sameiginlegt verðlagseftirlit. Samningsaðilar hittast einu sinni í mánuði og bera saman bækur sínar og til stendur að opna sérstaka matvælagátt á vefnum. Þar verður verð á vörum frá Bónus, Krónunni og Samkaupum birt. Einnig verður fylgst með eldsneytisverði og gjaldskrám bankanna. Keðjurnar þrjár eiga að gefa upp verð á 83 tilgreindum vörutegundum einu sinni á sólarhring. Markmiðið er að bæta upplýsingagjöf til neytenda til að auka samkeppni og ekki síður til að hemja verðbólguna.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, sem reka 64 verslanir um land allt, tekur undir þau markmið en er gagnrýninn á fyrirkomulagið. „Það hlýtur að vera keppikefli allra að ná niður verðbólgunni því hún er ekki góð fyrir neinn.“ Hann gagnrýnir þó að þrjár matvörukeðjur séu teknar út fyrir sviga og settar í kastljósið án þess að skoða alla aðfangakeðjuna.
„Á síðasta ári fengum við til okkar rúmlega 380 tilkynningar um verðbreytingar og aðeins tuttugu af þeim fólu í sér óbreytt verð eða lækkun.“ Hækkanahrinan hefur haldið áfram á fyrstu mánuðum ársins að sögn Gunnars sem segir að horfa verði á heildarmyndina.
„Smásalan er aðeins einn hlekkur í aðfangakeðjunni. Ég hef gagnrýnt að innlendir framleiðendur og heildsalar veigri sér ekki við að fleyta kostnaði sem þeir verða fyrir beint til smásölunnar sem hefur ekki skilað þeim hækkunum að fullu út í verðlagið.“
Forstjóri Samkaupa segir aðstæður á markaðnum vera krefjandi og halda verði vel á spilunum. „Við og aðrir í sömu grein erum í miklum hagræðingaraðgerðum til að mæta þessu. Hvar er aðhaldið þegar kemur að framleiðendum, stórum heildsölum, flutningageiranum og verðskrám bankanna?“ spyr Gunnar. „Það er margt annað sem hefur áhrif á hag heimilanna en matvöruverð.“
Gunnar er hóflega bjartsýnn á að það takist að ná tökum á verðbólgunni á þessu ári. „Það eru allt of miklar hækkanir hjá hinu opinbera, sveitarfélögum, framleiðendum, heildsölum og öðrum sem fólk þarf að leiða hugann að frekar en að horfa eingöngu á hvað vörukarfan er að hækka milli ára.“