— Morgunblaðið/Eggert
Lagfæringar standa yfir á Hafnarfjarðarbryggju sem er komin til ára sinna, en tæring hefur valdið götum á klæðningu hennar, að sögn Einars Kára Björgvinssonar hjá Köfunarþjónustunni ehf. Járnsmiðir með atvinnukafararéttindi eru sendir undir yfirborð …

Lagfæringar standa yfir á Hafnarfjarðarbryggju sem er komin til ára sinna, en tæring hefur valdið götum á klæðningu hennar, að sögn Einars Kára Björgvinssonar hjá Köfunarþjónustunni ehf. Járnsmiðir með atvinnukafararéttindi eru sendir undir yfirborð sjávar til að leggja fjögurra metra klæðningu utan á bryggjuna og gera hana eins og nýja. Kafarar þjónustunnar logsjóða í kafi og eru sendir með svokölluðum mannkörfum eins og þeirri sem sjá má á myndinni. Þar eru þeir að störfum í allt að fjórar klukkustundir í senn, fyrir og eftir hádegi. Reipi sem kallast naflastrengur tengir kafarana við yfirborðið, og eftir strengnum fer súrefni, símatenging, ljós og myndavél. Heitu vatni er dælt inn í búninga kafaranna til að halda á þeim hita við störf og segir Einar það í raun eins og að sitja í heitum potti að vera í búningunum. idunn@mbl.is