Yngvi Harðarson
Yngvi Harðarson
Þetta er mat Yngva Harðarsonar, hagfræðings og framkvæmdastjóra Analytica, sem telur jafnframt að órói í bandarísku fjármálalífi kunni að hafa efnahagsleg áhrif í Evrópu. Seðlabankinn hefur frá því í maí 2021 hækkað vexti úr 0,75% í 6,5%, í samtals…

Þetta er mat Yngva Harðarsonar, hagfræðings og framkvæmdastjóra Analytica, sem telur jafnframt að órói í bandarísku fjármálalífi kunni að hafa efnahagsleg áhrif í Evrópu.

Seðlabankinn hefur frá því í maí 2021 hækkað vexti úr 0,75% í 6,5%, í samtals ellefu hækkunum, og fara vextirnir í 7% næsta miðvikudag, ef spá Yngva gengur eftir. Það minnkar bilið milli meginvaxta og verðbólgu en eftir að núverandi vaxtahækkunarferli hófst hefur það mest orðið 5,15% í júlí í fyrra.

Á almennt við í góðæri

Yngvi segir að almennt hvetji neikvæðir raunvextir Seðlabankann til að hækka vexti í góðæri. Það eigi við um þessar mundir enda hafi mælst kröftugur hagvöxtur í fyrra.

Þá beri að hafa í huga að Seðlabankinn horfi við vaxtaákvarðanir fram á veg og taki verðbólguhorfur og vænta raunstýrivexti til greina, þegar hann ákveði vextina. Verðbólga sé nú yfir 10% og útlit fyrir að hún verði yfir 9% næstu þrjá mánuði, eða fram á mitt þetta ár, og raunstýrivextir því áfram neikvæðir.

Ekki raungerst

„Verðbólga hér er mikil og það hefur verið býsna mikið góðæri. Þannig að ég tel líklegt að Seðlabankinn hækki vextina um að minnsta kosti 0,5% á fundi sínum í næstu viku. Seðlabankinn hefur haldið því fram að verðbólguþrýstingur gæti farið minnkandi en það hefur ekki raungerst. Svo er óvissa í kringum kjarasamninga á komandi hausti en samið var til skamms tíma. Svo er mikil óvissa tengd stríðinu í Úkraínu. Þannig að það eru ýmis teikn á lofti.“

Vaxtahækkanir hafa þegar kælt fasteignamarkaðinn á Íslandi og telur Yngvi aðspurður viðbúið að frekari hækkun hafi neikvæð áhrif á aðra eignamarkaði til skamms tíma. Þar með talið hlutabréfamarkað.

Langt yfir markmiði

Spurður um það sjónarmið að rétt sé fyrir Seðlabankann að láta staðar numið í vaxtahækkunum, enda séu þær farnar að hafa neikvæð efnahagsleg áhrif, rifjar Yngvi upp hið lögbundna markmið bankans að halda verðbólgu við markmið. Verðbólgan sé nú ríflega tvöfalt hærri en efri mörk markmiðsins, sem séu 4%. Jafnframt bendir hann á að óróinn í bandarísku fjármálalífi, í kjölfar gjaldþrots Kísildalsbanka, geti smitast yfir á aðra fjármálamarkaði á Vesturlöndum. Gjaldþrot bankans og Signature Bank hafi þegar haft þau áhrif að nú sé vænst minni vaxtahækkunar hjá bandaríska seðlabankanum á þriðjudaginn kemur en áður.

„Fyrir gjaldþrotið töldu markaðsaðilar um 70% líkur á því að bandaríski seðlabankinn myndi hækka vexti um 0,5% en nú eru taldar rúmlega 70% líkur á 0,25% hækkun.“

– Þannig að bandaríska hagkerfið er viðkvæmara fyrir vaxtahækkunum en ella?

„Já, einhverjir bankar í Bandaríkjunum eiga mikið af skuldabréfum sem falla í verði þegar seðlabankinn hækkar vexti. Þannig að þessi þróun gæti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Eftir fjármálakreppuna 2008 var regluverkinu breytt í Evrópu, þannig að mér fyndist ólíklegt að sama ætti við um evrópska banka.

Gekk illa að ávaxta fé

Silicon Valley Bank (Kísildalsbanki) hélt stöðum í skuldabréfum en gekk illa að ávaxta fé sem hann fékk í innlánum, með útlánum, og fór þess vegna að kaupa skuldabréf sem féllu í verði,“ segir Yngvi. Óróinn í Bandaríkjunum geti ekki aðeins haft áhrif hér á landi heldur um heim allan.

„Hlutabréfamarkaðir um allan heim eru að falla í verði út af óvissu um möguleg áhrif þessa gjaldþrots á framvindu efnahagsmála vestanhafs. Því er ekki hægt að útiloka að þessi þróun hafi mikil og neikvæð áhrif á efnahagsframvindu en mér þykir ólíklegt að hún hafi sambærileg efnahagsleg áhrif og 2008. Það virðist nú líklegra að spár um niðursveiflu í Bandaríkjunum rætist. Ef það gengur eftir gæti það meðal annars haft áhrif í Kanada og Vestur-Evrópu.“

Ýttu undir verðbólgu

Þróun meginvaxta og verðbólgu frá haustinu 2019 er hér sýnd á grafi. Þessi tímasetning er valin til að ná tímabilinu fyrir og eftir kórónuveirufaraldurinn sem hófst í mars 2020. Faraldurinn ýtti óbeint undir verðbólgu og það sama gerði innrás Rússa í Úkraínu fyrir rúmu ári. Eins og sjá má hafa raunvextir verið neikvæðir í lengri tíma.

Vaxtaákvarðanir fram undan

Evrópski seðlabankinn ákveður vexti á morgun og svo fylgja bandaríski seðlabankinn og Englandsbanki í kjölfarið í næstu viku. Yngvi á von á því að bankarnir þrír hækki vexti. Óróinn á fjármálamörkuðum kunni þó að hafa í för með sér að vextir verði hækkaðir minna en ella.

Hann segir aðspurður erfitt að bera þessa niðursveiflu saman við fyrri niðursveiflur. Það komi til með að hafa mikið að segja um framhaldið hvort stjórnvöldum og bönkum tekst að viðhalda tiltrú á fjármálakerfinu.