Það er sjálfsagt að ræða laun forstjóra í Kauphöllinni. En sú umræða þarf að vera yfirveguð og án reikningskúnsta sem gefa skakka mynd.
Það er sjálfsagt að ræða laun forstjóra í Kauphöllinni. En sú umræða þarf að vera yfirveguð og án reikningskúnsta sem gefa skakka mynd. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Gildis, fjallaði í aðsendri grein í síðustu viku um starfskjarastefnu skráðra fyrirtækja. Greinin vakti athygli, enda er hún birt á svipuðum tíma og skráðu félögin birta ársreikninga sína, þar sem…

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Gildis, fjallaði í aðsendri grein í síðustu viku um starfskjarastefnu skráðra fyrirtækja. Greinin vakti athygli, enda er hún birt á svipuðum tíma og skráðu félögin birta ársreikninga sína, þar sem í mörgum tilvikum er fjallað um starfskjör forstjóra. Þetta er í raun árleg umræða, svona rétt eins og þegar sláttur hefst í Eyjafirði og sjúklingar eru sendir á gangana í aðdraganda fjárlaga.

Grein Árna var um margt ágæt og hann setti þar fram sjónarmið sem heyrast sjaldan. Til að mynda þau að betra væri að horfa til árangurstenginga en að hækka föst laun. Hann gagnrýndi þó að frekar hafi verið horft til þess að bæta við kaupaukum í ýmsu formi til stjórnenda án þess að það komi niður á háum föstum launum.

Eins og gerist og gengur gripu ýmsir greinina á lofti og nokkuð var fjallað um launakjör forstjóra í Kauphöllinni. Það er ekkert launungarmál að laun þeirra eru há í íslensku samhengi og í sjálfu sér ekkert athugavert við það að um það sé fjallað. Til þess voru þó notaðar ýmsar aðferðir, sem sumar hverjar standast ekki skoðun. Þannig má sem dæmi nefna að það er til lítils að taka einskiptisgreiðslu til forstjóra Skeljar eða starfslokasamning fráfarandi forstjóra Festar og gefa í skyn að þar sé um að ræða mánaðarlaun viðkomandi. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að laun forstjóra þeirra fyrirtækja þar sem ekki urðu forstjóraskipti á árinu hækkuðu um 6% á milli ára. Það var nú allt og sumt.

Sjálfsagt má ræða vel og lengi um laun forstjóra hér á landi og í því samhengi mætti einnig ræða um laun helstu millistjórnenda skráðra félaga. Sem fyrr segir eru þetta góð kjör í íslensku samhengi og það er þar af leiðandi mjög einfalt að varpa fram gagnrýni í garð þeirra sem launin þiggja – og þeirra sem þau ákveða.

Til að umræðan sé vitræn þarf þó að skoða hana í víðara samhengi. Óháð því hvort eftirsókn sé eftir íslenskum kauphallarforstjórum eða millistjórnendum erlendis er það þó þannig að til lengri tíma erum við í alþjóðlegri samkeppni um mannauð og hæfileika. Það má líka horfa til þeirra sem hafa á liðnum árum fært sig úr skráðum félögum í óskráð, þar sem boðið er upp á kauprétti, bónusa og fleira sem er aðlaðandi fyrir hæfileikaríkt og duglegt starfsfólk. Það er ekki þar með sagt að laun og bónusar þurfi að vera taumlausir, það þarf bara að taka þetta með í reikninginn ef umræðan á að vera yfirveguð.