Atli Smári Ingvarsson fæddist á Ísafirði þann 9. október 1943 og leit alla tíð á sig sem Vestfirðing, enda frá Atlastöðum í Fljótavík á Hornströndum. Hann lést 1. mars 2023.

Foreldrar Atla voru Ingvar Guðjónsson vélstjóri, f. 28. september 1904, d. 6. nóvember 1965, og Guðfinna Ingibjörg Júlíusdóttir matráðskona, f. 9. desember 1906, d. 22. desember 1992. Atli lést á Landspítalanum á Hringbraut þann 1. mars sl. eftir skammvinn veikindi. Systkini Atla samfeðra eru 1) Ólína, f. 1953, hún á þrjú börn og 2) Ingólfur, f. 1955, hann á tvö börn. Árið 1970 kvæntist Atli Steinunni Finnborgu Harðardóttur, f. 5. janúar 1950, en leiðir þeirra skildi árið 1976.

Árið 1978 kvæntist Atli Ástríði Sólrúnu Grímsdóttur. Foreldrar hennar voru Grímur Víkingur Þórarinsson, f. 28. maí 1923, og Dagný Magnúsdóttir, f. 8. október 1925. Sonur Atla og Ástríðar er Reynir Smári, f. 30. júní 1985, maki Anna Bryndís Einarsdóttir, f. 20. nóvember 1984. Börn þeirra eru Lóa, f. 8. október 2017, og Björn, f. 26. mars 2020.

Börn Ástríðar af fyrra hjónabandi eru 1) Helena Rós Sigmarsdóttir, f. 26. nóvember 1972, maki Jón Kristján Ólason, f. 18. maí.1967. Börn Helenu eru a) Ástríður Rán Erlendsdóttir, f. 31. júlí 1992, d. 12. september 2014. Sonur Ástríðar er Arngrímur Hólm Arngrímsson, f. 10. desember 2010. b) Askur Máni Stefánsson, f. 22. ágúst 1996. c) Breki Blær Stefánsson, f. 22. ágúst 1996. Sambýliskona Breka er Kristjana Gylfadóttir, hún á þrjú börn. Börn Jóns Kristjáns eru Birgir Ómar, f. 1987, hann á tvær dætur, Rakel Báru, f. 1991, hún á þrjú börn, og Jón Kristján, f. 1993. 2) Ægir Snær Sigmarsson, f. 5. maí 1974, 3) Hrannar Már Sigmarsson, f. 5. maí 1974, maki Elín Sjöfn Einarsdóttir, f. 25. júlí 1974. Synir þeirra eru a) Einar Már, f. 2. maí 2008. b) Birkir Atli, f. 24. nóvember 2013. Sonur Elínar er Sakarías Nói Fjalar Ragnarsson, f. 4. maí 1997, maki Íris Ósk Hallgrímsdóttir, dóttir þeirra er Aþena Elín. Leiðir Ástríðar og Atla skildi árið 2004.

Atli er fæddur á Ísafirði en ólst upp hjá móður sinni á Akureyri til 10 ára aldurs þar til þau mæðgin fluttu til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu eftir það. Árið 1982 byggði Atli hús fyrir fjölskyldu sína í Mosfellsbæ þar sem fjölskyldan bjó til ársins 2001. Þá fluttu þau hjónin til Ólafsfjarðar. Árið 2004, þegar leiðir hans og Ástríðar skildi, flutti Atli aftur í Mosfellsbæinn þar sem hann bjó alla tíð síðan.

Atli lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði árið 1966, námi í stoðtækjasmíði í Svíþjóð árið 1979 og útskrifaðist sem stoðtækjafræðingur árið 1986. Atli starfaði hjá Össuri hf. árin 1971 – 1990. Þá gerðist hann meðeigandi hjá Stoð ehf. í Hafnarfirði. Hann lauk störfum hjá Stoð árið 1999 og hóf þá störf hjá Kolbeini Gíslasyni. Árið 2001 hóf hann aftur störf hjá Össuri hf. og starfaði hann þar, þar til hann hætti störfum sökum aldurs.

Atli var virkur í skátastarfi frá unga aldri. Hann sat í ýmsum ráðum og nefndum á vegum hreyfingarinnar, m.a. í stjórn Skátasambands Reykjavíkur þar sem hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hann annaðist heiðursvörð skáta á 17. júní í Reykjavík í fjölda ára og fánaborgir skáta í skrúðgöngum þann dag. Þá skipulagði Atli og leiddi heiðursvörð skáta við móttöku íslensku handritanna í apríl 1971. Einnig var hann fulltrúi Skátasambands Reykjavíkur í þjóðhátíðarnefnd.

Atli hlaut viðurkenningu fyrir æðstu menntun sem skátar hljóta og skátakveðu í gulli sem er æðsta heiðursmerki sem skáta getur hlotnast.

Atli ræktaði frændgarð sinn og fjölskyldu vel. Þá leið honum hvergi eins vel og á Atlastöðum sem hann heimsótti síðast með börnum og fjölskyldum sumarið 2022.

Útför Atla fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 15. mars 2023, kl. 13.

Enginn veit sinn næturstað fyrr en að morgni. Það á svo sannarlega við núna því enginn átti von á því að þú myndir kveðja svo skyndilega. Minningarnar hrannast upp þessa dagana. Ef ég byrja á byrjuninni þá kynntist ég þér haustið 1976, við þá bæði nýlega fráskilin, þú einn en ég með þrjú lítil börn í farteskinu. Kynni okkar þróuðust þannig að við hófum búskap okkar á Laugalæknum sumarið 1977. Líf þitt snarbreyttist þar með þar sem allt í einu varstu orðinn faðir þriggja lítilla barna. Ekki mátti á milli sjá hvort okkar átti meira í þeim, ég eða þú. Þá tók móðir þín, Ingibjörg amma, á móti þeim opnum örmum og elskaði þau öll sem eitt. Ég fékk líka í fangið vettvang sem ég hafði ekki kynnst áður, skátana. Ófáar útilegur fórum við í, gistandi í tjöldum eða skálum syngjandi gúllí gúllí vassa fram eftir kvöldi, hrópandi melónuhrópið yfir eldi með heitt kakó í bolla. Skátarnir voru líf þitt og yndi og það kom fyrir að mér fannst þú meira bundinn skátafundum en okkur, en þessi lífsmáti gaf okkur meira en svo margt annað. Þú áttir mjög stóran og afskaplega tryggan vinahóp. Ef eitthvað var að gerast þá varst þú ávallt boðinn og búinn að sjá um og skipuleggja viðburði og þá í anda skátanna, „ávallt viðbúinn“.

Þú kenndir okkur öllum á skíði sem hvorki ég né krakkarnir höfðum kynnst áður og varst kominn í Skálafell eða Bláfjöll með krakkana um leið og þar var opnað. Ég er líka svo þakklát fyrir að við vorum samstíga með að ferðast sem mest sem fyrst, ekki bíða þar til við eltumst. Var fyrsta ferðin okkar með krakkana í Legoland með Ægi og Hrannar þá 5 ára og Helenu 6 ára. Í þá daga var fjárhagurinn þröngur en minningin er hverrar krónu virði. Þá minnist ég þess þegar ég kom eitt sinn heim úr vinnu, nýbúin að kaupa ferð fyrir okkur og Reyni til Florida og tilkynnti þér að við værum líka að fara til Kína og rétt næðum þaðan heim áður en við færum áfram til USA. Þú varst mjög kátur með þessa ákvörðun. Það var ekkert mál að fljúga yfir hálfan hnöttinn með nokkurra daga millilendingu heima. Þannig varst þú enda eru löndin óteljandi sem við höfum heimsótt.

Ég minnist áranna í Leirutanganum þar sem við byggðum okkur hús. Þar áttum við 19 góð ár í góðu nágrannasamfélagi, við gróðursetningu, við pallasmíði, í götugrilli þar sem þú varst ávallt með gítarinn og tveggja glasa kolin á pallinum.

Þegar ég ákvað að sækja um stöðu sýslumanns á Ólafsfirði stóðstu sem klettur við bakið á mér og komst því þannig fyrir að þú fórst að vinna fyrir Össur á Akureyri. Lífið var ekki vandamál heldur tímabil til að taka þátt í og njóta. Leiðir okkar skildi þar en við náðum silfurbrúðkaupinu. Engu breytti þar um að við tókum áfram samhent þátt í viðburðum barna okkar og barnabarna.

Líkur sækir líkan heim segir máltækið og á svo sannarlega við um þig því þú átt einstaklega stóran, tryggan og góðan vinahóp og fjölskyldu sem í dag kveður góðan mann og tryggan vin með sorg í hjarta.

Góða ferð minn kæri og takk fyrir allt.

Ástríður (Ásta).

Elsku pabbi.

Það er sárt að kveðja!

Það sem kemur upp í hugann á þessari stundu er fyrst og fremst þakklæti fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Allar samverustundirnar, veiðiferðirnar, samtölin og stuðninginn. En helst af öllu vil ég þakka fyrir að þú tókst að þér okkur systkinin og ólst okkur upp og elskaðir sem þín eigin.

Þú kenndir mér fyrstu gítargripin, að standa á skíðum, veiða og svo margt fleira. Veiðin varð síðar að sameiginlegu áhugamáli okkar og úr urðu margar skemmtilegar ferðir. Okkar síðasta stutta veiðiferð var síðastliðið haust í litla á, á Mýrum, en þar kastaðir þú flugunni eins og vindurinn. Ekki gat mig grunað þá að það yrði okkar síðasta ferð saman.

Sumarið 2021 náðir þú að setja saman ferð í Fljótavík með stórum hópi ættmenna þinna þar sem við dvöldum á Atlastöðum og mun sú ferð lifa í minnum allra sem með fóru. En svo brattur varstu að þú varst farinn að huga að næstu ferð, þau plön verða víst að bíða.

Ég mun taka allt sem þú kenndir mér með mér inn í lífið og bera áfram til minna barna.

Ég kveð þig í sátt og þakklæti elsku pabbi.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Kveðja,

þinn sonur

Hrannar.

Nú er hann farinn, hann pabbi minn. Pabba er minnst sem skáta enda voru skátarnir stór hluti af hans lífi frá því að hann var ungur. En fyrir mér var pabbi ekki aðallega skáti, hann var aðallega mjúkur, brosmildur og kinnarnar hans stungu mig þegar ég var barn. Pabbi var mikill útivistarmaður og var alltaf að. Þannig mótaði pabbi æsku mína og systkina minna. Skíði, stangveiði (og síðar skotveiði), útilegur og ferðalög. Pabbi var haldinn óseðjandi ævintýraþrá, sem ég hef komist að á fullorðinsárum að var einstök. Mér er minnisstætt þegar hann sigldi með mér á lítilli skútu í gegnum hálft Frakkland. Hann gaf ekkert eftir, stökk á bryggjur, batt hnúta og hreyfði sig eins og við værum jafnaldrar. Þá var pabbi 71 árs. Í þeirri ferð fórum við gegnum um það bil 100 skipalása og skáluðum í kampavíni við leiðarlok.

Pabbi eignaðist mig þegar hann var 42 ára. Hann var alltaf töluvert fullorðinn í mínum augum, en á sama tíma ungur. Ábyrgðarfullur en samt alltaf til í létt ævintýri.

Ég sakna pappa. En ég vona að ævintýraþráin hans endurspeglist í mér og smitist til barnanna minna. Þannig lifir minning pabba áfram.

Reynir Smári Atlason.

Við, systkinin þrjú, ég um fjögurra ára og bræður mínir um þriggja ára aldurinn, vorum svo lánsöm að eignast Atla fyrir stjúpföður síðari hluta áttunda áratugarins. Þegar maður er svona lítill er maður ekkert að spá í blóðtengsl. Maður elskar bara þann sem er góður við mann. Og það er það sem pabbi var alla barnæskuna okkar og allar götur síðan. Með sinni einstöku nennu fór hann með okkur þrjú á skíði, í veiði, á skátamót og í ferðalög innanlands sem utan. Hann stóð með okkur í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur, þerraði tárin, stóð á línunni, lærði með okkur, hvatti okkur áfram, fylgdi okkur inn í fullorðinsárin og var afi barnanna okkar. Gleðin varð ekki minni þegar við, orðin nokkuð stálpuð, eignuðumst lítinn bróður til að hnoðast með. Pabbi bar tilfinningar sínar utan á sér. Hann hló með öllum líkamanum og yfirleitt var hann löngu byrjaður að hlæja áður en hann byrjaði á skemmtisögunni sem hann ætlaði að segja og svo táraðist hann ef maður var einlægur og sagði honum hversu mikils virði hann væri okkur. Pabbi var skáti af Guðs náð, Oddfellow félagi, hjálpsamur, framsækinn, frumkvöðull í sínu fagi, fagmaður, vinur, kærleiksríkur, hlýr og góður en fyrst og fremst var hann frábær pabbi. Maður kennir ekki elsku með orðum heldur gjörðum. Það gerði pabbi svo sannarlega.

Ég kveð þig með söknuði, elsku pabbi minn, en eftir sitja góðar minningar. Ástríður mín og Ingibjörg amma hafa nú tekið á móti þér með opinn faðminn.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú
á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið
út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Þín dóttir,

Helena.

Með fáeinum orðum langar mig að minnast Atla Smára og þakka honum samfylgdina.

Ég man fyrst eftir Atla í skátaheimilinu við Snorrabraut, þá var ég ungur drengur og hann rétt um tvítugt. Við sem yngri vorum tókum vel eftir þessum kröftuga manni sem var allt í öllu og var ekkert óviðkomandi. Það var þó ekki fyrr en í skátastarfinu í Dalbúum sem ég kynntist honum fyrir alvöru sem foringja og félaga.

Atli varð mikill áhrifavaldur í mínu lífi þegar hann fékk mig til að koma að vinna með sér við stoðtækjasmíði, sem síðan varð ævistarf okkar beggja. Fyrr á árum áttum við saman margar ánægjustundir við veiðar og ferðalög ásamt fjölskyldum okkar, auk annarra samverustunda.

Þó að leiðir okkar sem samstarfmanna hafi ekki alla tíð legið saman þá áttum við mikið og gefandi samstarf í félagsstarfi stoðtækjafræðinga. Við tókum þátt í norrænu samstafi stoðtækjafræðinga sem varð til þess að haldnar voru tvær stórar norrænar ráðstefnur á Íslandi. Að miklu leyti urðu þær að veruleika fyrir óbilandi trú Atla á verkefninu sem hann dreif áfram með frumkvæði, dugnaði og bjartsýni.

Hvíl í friði, gamli vinur.

Sveinn Finnbogason.