Göngutúr Skráðum hundum í borginni hefur farið hægt fjölgandi sl. ár.
Göngutúr Skráðum hundum í borginni hefur farið hægt fjölgandi sl. ár. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fjöldi skráðra hunda í Reykjavík var tæplega 2.500 um síðustu áramót. Raunverulegur fjöldi hunda er hins vegar áætlaður um 10 þúsund þar sem meirihluti hunda er óskráður.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fjöldi skráðra hunda í Reykjavík var tæplega 2.500 um síðustu áramót. Raunverulegur fjöldi hunda er hins vegar áætlaður um 10 þúsund þar sem meirihluti hunda er óskráður.

Þetta kemur fram í svari Dýraþjónustu Reykjavíkur við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Svarið var lagt fram á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar.

Fram kemur í svarinu að í skýrslu starfshóps um málefni gæludýra, sem birt var á síðasta kjörtímabili, hafi talan 10 þúsund verið áætluð miðað við fjölda hunda á hverja 1.000 íbúa í borgum nágrannalandanna.

Þegar stikkprufur hafi verið gerðar á hundasvæðum í Reykjavík, við eftirlit þar, hafi skráðir hundar verið 20-30% þeirra hunda sem voru þar á svæðinu.

Skráðum hundum í Reykjavík hefur farið hægt fjölgandi síðastliðin ár eftir samfellda fækkun nokkur árin á undan.

Dýraþjónustan veitir þjónustu og sinnir eftirliti vegna hundahalds í borginni í samræmi við hundasamþykkt frá árinu 2022. Hún annast meðal annars skráningu hunda, tryggingamál, meðferð kvartana og umsjón hundagerða.

Auk þess sinnir Dýraþjónustan öðrum skyldum borgarinnar vegna málefna dýra í samræmi við lög um dýravelferð. Stöðugildi eru tvö og er þjónustan samrekin með Húsdýragarðinum.

Árgjaldið 15.700 krónur

Fullt árgjald fyrir einn hund er nú 15.700 krónur og 10.990 krónur með námskeiðaafslætti. Hundagjöld námu í heild 24 milljónum í fyrra og eru áætluð rúmlega 30 milljónir í ár.

Fram kemur í svari Dýraþjónustu Reykjavíkur að þjónusta og eftirlit vegna hunda var rekið með halla í fyrra. Því nægðu hundagjöld ekki til þess að fjármagna laun, ábyrgðartryggingu og annan rekstrarkostnað árið 2022.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson