Tímarit Forsíða nýjasta tbl. Veiðimannsins, sem SVFR gefur út.
Tímarit Forsíða nýjasta tbl. Veiðimannsins, sem SVFR gefur út.
Veiðimaðurinn, sem er málgagn stangveiðimanna, hefur komið út frá árinu 1940 og lifir enn góðu lífi. Fyrstu árgangar blaðsins eru nú aðgengilegir áhugasömum á Tímarit.is. Fleiri árgangar munu bætast við eftir því sem fram líður en þetta er mikill…

Veiðimaðurinn, sem er málgagn stangveiðimanna, hefur komið út frá árinu 1940 og lifir enn góðu lífi. Fyrstu árgangar blaðsins eru nú aðgengilegir áhugasömum á Tímarit.is. Fleiri árgangar munu bætast við eftir því sem fram líður en þetta er mikill fengur fyrir veiðimenn sem geta nú náð sér í dýrmætan sagnaarf auk mikilvægra veiðistaðalýsinga á ársvæðum víða um landið auk skrautlegra veiðisagna.

Útgefandi blaðsins er Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) en yfirfærsla Veiðimannsins á stafrænt form er samstarfsverkefni félagsins og Tímarit.is. Blaðið hefur verið eftirsóttur safngripur en stjórn SVFR þótti mikivægt að sagan væri aðgengileg á tryggum stað áður en fennir yfir hana.

Fyrir rúmlega 80 árum var stangveiði ný fyrir Íslendingum en breskir veiðimenn kynntu landsmenn fyrir íþróttinni sem tugir þúsunda stunda ár hvert. Útgefendur töldu brýnt að gefið væri út blað eða tímarit um stangveiði á Íslandi sem væri sameiginlegur vettvangur veiðimanna fyrir bæði fræðslu og afþreyingu.

„Það er nú orðinn álitlegur hópur manna hér á landi, sem hefir ánægju af því að fara á veiðar í ám og vötnum í frístundum sínum, enda er lax- og silungsveiði ein af skemmtilegustu íþróttum, sem þekkjast, og þeir, sem einu sinni byrja og komast upp á lag með að veiða sér til skemmtunar, hætta því seint, meðan nokkur tök eru á, og gleyma aldrei ánægjunni, sem þessi íþrótt hefir veitt þeim,“ segir m.a. í fyrsta tölublaðinu.

Í fyrsta tölublaðinu var birt grein eftir Einar Benediktsson, skáld og athafnamann, um töfra laxveiðinnar og samspil hennar við stórbrotna náttúru auk ýmissa heilræða. Það þótti til dæmis kjörið að troða dagblöðum inn fyrir veiðijakkann til að halda á sér hita. Í dag hafa betri efni tekið við!

Bing Crosby og Bubbi

Í nýjasta blaðinu er víða komið við og fræg veiðiferð Bing Crosby til Íslands m.a. rifjuð upp. Hann veiddi í Elliðaánum og skemmti áhorfendum með söng þegar hann landaði laxi. Það vakti athygli hans að fá frið við veiðarnar þó svo heimsþekktur væri.

Sífellt fleiri konur leggja nú stund á stangveiði og segir DJ Sóley frá sínum uppáhaldsveiðistað og Bubbi Morthens skrifar hugleiðingu um að vera einn með almættinu. Ingvi Hrafn Jónsson ræðir um uppbyggingarárin við Langá og í blaðinu er að finna yfirlit yfir fræðsluefni liðinna ára. SVFR segir að markmiðið sé enn sem fyrr að fræða og kæta veiðimenn.

Nú er aðeins hálfur mánuður í að stangveiðitímabilið hefjist og eftirvænting veiðimanna vex með hverjum deginum.