Jón Valgeir Halldórsson fæddist 5. október 1964. Hann lést 7. mars 2023. Útför hans fór fram 15. mars 2023.

Kær frændi og vinur, nánast bróðir, er farinn. Lést úr krabbameini aðeins 58 ára gamall. Við Jón Valgeir ólumst að mörgu leyti upp saman. Ég bjó hjá Jóni Valgeiri og hans fjölskyldu um tíma eftir að foreldrar mínir skildu. Þar mætti ég mikilli hlýju og umhyggju sem ég mun seint geta þakkað að fullu – hversu vel þessi fjölskylda reyndist mér og bræðrum mínum. Við Jón Valgeir vorum báðir í AA-samtökunum og studdum hvor annan og sá stuðningur og hvatning sem ég fékk frá lífsreyndum frænda var, er og verður ómetanlegur. Ég þakka fyrir þann Jón Valgeir, kæran vin og frænda. Minning hans mun ætíð lifa í hjarta mínu.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr)

Ég votta aðstandendum djúpa samúð mína.

Bjarni G. Steinarsson (Baddi).

Hann elsku Jón Valgeir minn hefur nú kvatt, hann er nú farinn úr blessaðri jarðvistinni. Mikið elska ég hann heitt þessa fallegu manneskju, góðan vin. Við töluðum saman um heima og geima, fórum með ljóð, lásum upp úr AA-bókinni og tuttugu og fjögurra stunda bókinni, við báðum saman, hlógum saman, vorum döpur saman og sungum meira að segja saman Bubbalög. Mikið er ég þakklát fyrir liðnar samverustundir, minningarnar ylja. Ég vil þakka Guði fyrir þá blessun að hafa fengið að eiga hann að, hann Jón Valgeir minn, það var mikil og stór gjöf. Líf mitt var ríkara þegar hann var í því. Ég veit að minning hans mun lifa hjá okkur öllum. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Guðlaug Ingibjörg

Guðnýjardóttir.

(Inga Lauga).

Kveðja frá vinnufélögum á Múlalundi, vinnustofu SÍBS

Jón Valgeir var brosmildur og ljúfur samstarfsfélagi sem hafði verið hjá okkur í meira en eitt og háflt ár. Hann var samviskusamur, hafði frumkvæði að því að láta vita ef hann komst ekki til vinnu og var skemmtilegur ferðafélagi í sumarferðum Múlalundar þar sem hópurinn fór út í vorið og ferðaðist saman. Það var gott að vinna með Jóni Valgeiri og hans verður sárt saknað á Múlalundi. Minningin um góðan samstarfsfélaga lifir. Við sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum fyrir þann tíma sem við fengum með Jóni Valgeiri.

Fyrir hönd vinnufélaga á Múlalundi,

Sigurður Viktor

Úlfarsson,
framkvæmdastjóri.