Í hesthúsinu Guðni Halldórsson segir að reiðvegir séu hluti af þjóðararfi Íslendinga og ekki síður mikilvægt öryggisatriði í umferðinni.
Í hesthúsinu Guðni Halldórsson segir að reiðvegir séu hluti af þjóðararfi Íslendinga og ekki síður mikilvægt öryggisatriði í umferðinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Hestafólk telur brýnt að stjórnvöld bregðist nú skjótt við og komi reiðvegamálum í réttan farveg og auki fjárveitingar til málaflokksins til samræmis við tillögur starfshóps ráðuneytisins,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga

„Hestafólk telur brýnt að stjórnvöld bregðist nú skjótt við og komi reiðvegamálum í réttan farveg og auki fjárveitingar til málaflokksins til samræmis við tillögur starfshóps ráðuneytisins,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga. Hann vísar til minnisblaðs starfshóps innviðaráðuneytisins um stöðu reiðvegamála á Íslandi vegna undirbúnings nýrrar samgönguáætlunar.

Starfshópurinn telur ljóst að það að koma öllum reiðvegum landsins í viðunandi horf sé umfangsmikið verk. Áætlar að heildarkostnaður, miðað við stöðuna í dag, sé 13,6 milljarðar króna. Lagt er til að stofnleiðir verði settar í forgang og einnig lögð áhersla á að gerð verði reiðfær slóð meðfram slitlagi þar sem því er ábótavant. Eftir því sem reiðvegakerfið stækkar þurfi að gera ráð fyrir auknu fé til viðhalds. Leggur starfshópurinn til að fjárveitingar til uppbyggingar og viðhalds reiðvegakerfisins verði auknar til muna, verði 1400 til 1500 milljónir á hverju fimm ára tímabili samgönguáætlunar sem þýðir tæplega 300 milljónir á ári, að meðaltali.

Segir Guðni að hópurinn hafi viljað fara hóflega fram í tillögugerð og telur það skynsamlegt, þótt þörfin sé mikil. Í því sambandi nefnir hann að hestamannafélögin hafi í ár sótt um styrki að fjárhæð 550 milljónir kr. til reiðvegagerðar en að óbreyttu verði 75 milljónir til úthlutunar. Fjárveitingar ríkisins séu því eins og dropi í hafið. Fyrirkomulagið hefur verið þannig að hestamannafélögin sækja um styrki í reiðvegafé Vegagerðarinnar og sveitarfélögin leggja gjarnan fé á móti þannig að framkvæmdaféð eykst verulega, tvöfaldast oft.

Bendir Guðni á að reiðvegir séu verðmætur hluti af þjóðararfinum og mikilvægur þáttur í því að hægt sé að ferðast um landið á hestum. Íslendingar ættu að vera stoltir af því og stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að Íslendingar jafnt og erlendir ferðamenn geti áfram ferðast frjálsir um landið á hestbaki. Þá séu reiðvegir mikilvægt öryggismál. Færa þurfi umferð ríðandi fólks frá þjóðvegum sem ætlaðir eru umferð vélknúinna ökutækja enda fari þessir ferðamátar ekki saman. helgi@mbl.is