Atli Smári Ingvarsson fæddist 9. október 1943. Hann lést 1. mars 2023. Útför fór fram 15. mars 2023.

Það eru mér afar þung spor að setja þessar línur á blað um minn kæra frænda, Atla Smára Ingvarsson, sem lést 1. mars sl. Þegar ég hugsa til baka þá eru líklega fyrstu minningar mínar af Atla þegar hann lenti í flugslysi 1962 því það hjó mjög nærri fjölskyldunni en hann var þá átján ára og slasaðist mikið. Atli var einkabarn móður sinnar, Ingibjargar, sem var elsta systir föður míns og bjuggu þau í næstu götu við okkur í Laugarnesinu í Reykjavík. Mikill samgangur var því á milli okkar heimila en þrettán ár skildu okkur frændur að og á þeim árum er það mikill aldursmunur. Ég horfði mikið upp til frænda sem var skáti og mjög öflugur þar. Ég átti eftir að feta í hans fótspor að ganga í raðir skátanna, fyrst í Birkibeina og þá í Dalbúa þar sem hann réð þá ríkjum. Mín dvöl í þeirri hreyfingu varð reyndar mun styttri en Atla enda var hann mikils metinn innan hennar allt til dánardags. Vegferð hans var mikil í skátahreyfingunni þar sem hann hlaut meðal annars æðsta heiðursmerki sem skáta hlotnast. Ég minnist þess hversu stoltur ég var að sjá hann í fremstu röð skátanna á hátíðarstundum þar sem hann sá um skipulagningu og þeirri stóru stund íslensku þjóðarinnar þegar handritin komu heim árið 1971 en hann var þar stjórnandi heiðursvarðar skáta. Ekki vorum við frændur mikið í sambandi á þeim árum sem við vorum að koma upp okkar fjölskyldum og þaki yfir höfuðið en alltaf kært á milli okkar með viðeigandi innileika, sem einkenndi okkar uppeldi, þegar leiðir lágu saman. Við vorum hluti af 46 systkinabarnahópi 12 systkinanna frá Atlastöðum í Fljótavík þar sem amma og afi okkar bjuggu búi en hann var frumburður frumburða þeirra hjóna eins og hann nefndi oft með brosi á vör. Fljótavíkin er sú paradís sem við barnabörnin eignuðumst smátt og smátt og áttum við frændur eftir að vera þar saman og njóta þeirrar einstöku náttúru sem landið okkar bauð upp á. Það sameinaði þennan stóra systkinabarnahóp og áttum við frændurnir eftir að vinna mikið saman að ákveðnum málum er vörðuðu landareignina. Árið 2006 fékk Atli mig til að koma til liðs við Oddfellow-stúkuna Ara fróða, sem hann var í en ég hafði tekið mér frí frá stúkustarfi um nokkurn tíma. Ég var ekki lengi að taka þessari góðu beiðni hans sem átti eftir að gefa okkur frændum tækifæri til samveru nærri vikulega frá hausti til vors allt fram á síðasta dag. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur. Skátahreyfingin var líf og yndi Atla og nú síðustu ár var hugur hans við skátaminjasafnið á Úlfljótsvatni sem hann sagði mér oft frá. Við höfðum sammælst um að hann myndi sýna mér það einn daginn. Af því varð ekki þar sem oft gleymist í amstri dagsins að við þurfum að gefa okkur tíma til að hitta okkar fólk áður en það verður um seinan. Nú heldur Atli á nýjar slóðir þar sem fallnir ástvinir taka vel á móti honum. Börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum og vinum votta ég mína dýpstu samúð. Farðu í friði, elsku Atli Smári, og takk fyrir öll árin okkar.

Hilmar Snorrason.

Atli gengur inn í fjölskyldu mína með því að hefja búskap með systur minni Ástu Sólrúnu sem þá þegar átti þrjú börn á sínu framfæri. Öll voru þau fljót að taka skátann í sátt og kölluðu síðan föður sinn. Og það var ekki að ástæðulausu, Atli reyndist þeim vel í blíðu og stríðu og með hans umhyggju og framlagi gat Ásta stundað og lokið sínu lögfræðinámi. En Atli nam stoðtækjasmíði og vann mestan sinn starfsaldur við það.

Þegar ég 1979 hóf búskap á Jaðri í Hrunamannahreppi með fjölskyldu minni, voru gestakomur tíðar en misvel þokkaðar. Sumir sóttu í sveitina til að njóta góðra veitinga Elínar og jafnvel fá í glas að kveldi. En staðreyndin var sú að sjaldan voru kringumstæður til að sinna gestum vegna anna. En þá kynntu þau Ásta og Atli komu sína og ég hlakkaði til því Atli kom ekki til að láta okkur snúast í kringum sig og sína heldur til að hjálpa til, gera gagn, flýta fyrir. Því meir sem við fengum áorkað og komið í verk, því betur leið mági mínum og mér um leið, því oft var ég áhyggjufullur þegar engan veginn sá fyrir endann á óþrjótandi verkefnum sem urðu þó að vinnast. En með þessu framlagi Atla sköpuðust jafnvel þær stundir að okkur fannst við hafa unnið fyrir góðri blöndu sem gefur margfalda ánægju að loknum erfiðum vinnudegi.

Þá var Atli betri en nokkrir við smalamennsku á Jaðri sem var erfið og mannfrek. En Atli hljóp þá við fót svo jafnvel smalahundurinn átti erfitt með að fylgja honum eftir.

Atli dró aldrei af sér þegar taka þurfti til hendi við fjölbreytt bústörf, að sitja yfir ánum við sauðburð, sitja vélar við heyskap og moka heyinu í blásara. Þess vegna voru það gjarnan góðar fréttir þegar þau Ásta boðuðu komu sína. Þá var ekki síður liðstyrkur í Ástu sem kunni til allra verka og taldi heldur ekki aðstoðina eftir sér.

Þannig man ég þennan ágæta mann sem reyndist allri fjölskyldu minni vel og var hvers manns hugljúfi. Þeim Ástu fæddist drengur sem varð eina barn Atla en fjórða barn Ástu. Sú uppskera hefur nú náð fullum þroska sem hinn fegursti ávöxtur, ef ekki föðurbetrungur. Honum ásamt stjúpbörnum sem hann reyndist svo vel votta ég samúð mína og fjölskyldu minnar. Þið horfið á eftir góðum dreng sem ávallt var viðbúinn og vildi ykkur vel.

Maggnús Víkingur

Grímsson.

Vandi er að kveðja góðan vin við kaflaskil lífs og dauða.

Sameiginleg saga okkar Atla hófst þegar ég var á þrettánda aldursári en um það leyti byrjuðum við báðir í skátastarfi. Við vorum í deildinni Birkibeinar. Einhvern veginn lágu leiðir okkar saman í djúpri vináttu unglingsáranna og brennandi áhuga á skátastarfi. Lífið snerist að mestu leyti um skátana á þessum árum. Reyndar voru skóli og þess háttar hlutir svolítið að tefja fyrir okkur en áherslan var lögð á að komast sem fyrst niður í skátaheimili. Ótal margs er að minnast eins og útgáfu Perunnar og Hrossabrests. Skátamót Birkibeina með Atla í lykilhlutverki. Skátaböllin, vetrarútilegur í skátaskálana á Hellisheiði, foringjanámskeiðin og svo mætti lengi telja. Dvalið var í „Setustofunni“ og er mér ekki grunlaust um að seta þar hafi oft orðið upphafið að mörgu góðu skátahjónabandi er síðar varð.

Það er gott að minnast þessarar vináttu unglingsáranna þar sem við vorum nánast óaðskiljanlegir. Lífspælingarnar endalausar og gleði og sorgir annars hluti af lífi hins.

Leiðir skildi nokkuð eftir að við vorum komnir yfir tvítugt og fórum sinn í hvora áttina til náms. Minnist ég þess að ég hafði nokkrar vangaveltur um breytta vináttu okkar eftir 6 ára aðskilnað þar sem margt hafði gerst í lífi beggja. Í ljós kom að ég hefði getað sparað mér þær vangaveltur, á flugvellinum í Keflavík stóð Atli ásamt foreldrum mínum þegar ég lenti og faðmlagið þétt og gott. Þessi trausti vinur var mættur og enginn efi komst þar að. Hef ég oft hugsað síðan að í þessu mátti sjá hluta af mannlýsingu á Atla. Hann var alla tíð traustur vinur vina sinna.

Fullorðinsárin hafa svo eðli málsins samkvæmt haft á sér annan blæ þar sem samskipti hafa á stundum verið mikil og þétt en svo inn á milli strjál og við ekki fylgst daglega hvor með annars ferðum. Alltaf hefur það þó verið svo að hafi ég og mín fjölskylda á einhvern hátt þurft á Atla vini mínum að halda þá var Atli mættur. Hann á ófá handtökin í húsinu okkar í Steinahlíð. Veit ég sem er að við í Steinahlíð erum ekki þau einu sem notið hafa hjálpsemi og dugnaðar Atla. Hann á niðurlagða parketfjöl í húsum margra kunningja og vina að ógleymdri sjálfboðavinnu hans við Gilvell-skálann á Úlfljótsvatni.

„Eitt sinn skáti, ávallt skáti“ Fyrir mörg okkar eru þessi orð svolítill frasi með mismiklu innihaldi. Svo var ekki með Atla. Hann var virkur skáti alla tíð. Ótölulegur fjöldi barna/ungmenna fékk að njóta forystu Atla og eiga honum margt upp að unna. Hann var óþreytandi í að vinna fyrir hreyfinguna og allt sem að henni sneri.

Fastur liður í tilveru Steinahlíðarfjölskyldunnar undanfarin ár hefur verið að Atli dveldi hjá okkur um áramót og tæki þátt í gleðinni. Atli hefur mætt með sína flugelda og saman höfum við bjástrað við að koma þeim á loft og þannig unnið okkur inn fyrir kampavínsglasi. Það verður skarð fyrir skildi um næstu áramót að ná ekki að skála við góðan vin. Þess í stað verður skálað í hans minningu.

Fjölskyldan okkar Ingu kveður góðan vin

Sigurður Ragnarsson.

Mikill og góður vinur hefur kvatt þennan heim. Við Atli störfuðum báðir í stoðtækjageiranum stærstan hluta af okkar starfsævi og saman frá 1999 þar til Atli lauk störfum hjá Össuri 73ja ára.

Atli lærði smíðar og starfaði í þeim geira þar til Össur Kristinsson fékk hann til liðs við sig. Atli var fyrsti starfsmaður Össurar hf. sem er orðið stórt alþjóðafyrirtæki í dag. Atli lærði síðan þetta fag og gerðist stoðtækjafræðingur.

Áður en við Atli byrjuðum að vinna saman vissum við hvor af öðrum en eftir að við hófum störf saman myndaðist mikið traust og mikill vinskapur milli okkar sem hélst jafnt eftir að við báðir létum af störfum. Við hittumst síðast fyrir rúmum mánuði þegar Atli kíkti til mín í kaffisopa.

Atli var einstaklega fróður um allt sem tengdist starfinu og var hann mér einstakur lærimeistari.

Atli hafði mjög sterkar skoðanir á þeim vörum sem hann vann með og var óhræddur við að láta skoðun sína í ljós og fengu hönnuðir og verkfræðingar Össurar svo sannarlega að heyra ef hann taldi gæðum eða hönnun ábótavant og þá jafnvel með óprentæfum orðum en samt leituðu margir í hönnunarteyminu til hans, einkum í sambandi við Unloader-spelkur.

Atli hafði brennandi áhuga á starfi sínu og var frekar ósáttur við að þurfa að ljúka endanlega störfum 73 ára, en hann hafði minnkað starfshlutfall sitt þannig að hann vann síðustu árin einungis þrjá daga í viku. Hann fann sér oft tilefni til þess að kíkja við á gamla vinnustaðnum sínum og í nokkrum tilfellum óskuðu fyrrverandi skjólstæðingar hans eftir því að hann yrði viðstaddur við heimsóknir þeirra, enda bar hann ávallt hag skjólstæðinga sinna mjög fyrir brjósti.

Eftir starfslok fann Atli sér áhugamál í hnífasmíði þar sem hann smíðaði sköft á fjölda hnífa og gaf þá flesta til sinna nánustu.

Atli hafði mikla hæfileika til að segja frá og uppfræða aðra. Þess hafa allir starfsfélagar hans notið í gegnum tíðina og skilur hann eftir sig mikinn fróðleik í sínu fagi. Þá er í miklu uppáhaldi hjá mér mynd sem birtist á Facebook-síðu hans sem tekin var í Atlavík. Þar situr hann á stuttbuxum með hatt á höfði á móti fjórum ungum frændum sínum í Atlavík, baðari léttri þoku, og er greinilega að segja þeim frá áhugamáli sínu og greinilegt að ungu mennirnir fylgjast með af miklum áhuga.

Atli var mjög vel liðinn á heilbrigðisstofnunum sem hann þurfti oft að heimsækja vegna starfs síns. Ég glettist oft með að það væri óþolandi fyrir mig að fara með honum á þessi staði. Hjúkrunarfólk og sjúkraþjálfarar hópuðust í kringum hann og knúsuðu og kysstu meðan ég þurfti bara að finna mér stól úti í horni og bíða eftir honum í langan tíma á meðan.

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að Atli gat komið í stutta heimsókn til mín seinnipartinn í janúar og var þá bara nokkuð hress. Áttum við þar góða stund saman með léttu spjalli og smá skammti af karlagrobbi eins og alltaf þegar við hittumst.

Kæri vinur. Hvíldu í friði og bestu þakkir fyrir vináttu og veitta tilsögn í starfi. Þín verður sárt saknað.

Þinn fyrrverandi vinnufélagi,

Ólafur Ólafsson.

Atli vinur okkar er látinn, hann er farinn heim. Hans er sárt saknað.

Þegar ég varð skáti 11 ára gamall þá var Atli sveitarforingi Arnarungasveitar og leiðtogi okkar, skemmtilegur, útsjónarsamur og drífandi. Minnisstæður er sveitarfundur í samkomusal gamla skátaheimilisins við Snorrabraut þar sem hann var fremstur í flokki í indjánadansi og við pollarnir hrifumst með og stigum ekki síðri villtan dans. Þær voru óteljandi, útilegur, dagsferðir, gönguæfingar, kvöldvökur, skátamót og varðeldarnir í skátunum með Atla. Og Atli sem spilaði á gítar og söng var hrókur alls fagnaðar og allt fór vel undir hans stjórn. Það er ekki annað hægt en að hrífast af skátahugsjóninni þegar þannig er og það markaði lífið alla ævi. Atli dvaldi á heimili okkar í Stokkhólmi, var granni okkar skáhallt á móti í fjölda ára og við vorum heimalningar hvor hjá öðrum. Atli átti sína vini í skátahreyfingunni alla ævi, var alltaf tilbúinn og taldi ekkert eftir sér og var drengur góður. Nú síðast spilaði hann á gítar á Haustmóti Birkibeina reunion, annaðist með öðrum Gilwell-skálann af alúð og var tryggur félagi bakhópsins.

Vertu sæll, elsku vin, takk fyrir hlýjuna og samfylgdina sem var svo góð, blessuð sé minning þín.

Ásta Björg og

Andrés Þórarinsson.

Við kynntumst ungir í skátastarfinu í gamla skátaheimilinu við Snorrabraut. Húsið sem í raun var yfirgefið hersjúkrahús, braggasamstæða frá hernámi Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni, var hinsvegar draumahöllin í okkar huga, hinn fullkomni vettvangur æskunnar. Hér urðu ævintýrin til og hér var okkar heimur. Hér voru ærslin, skátasöngvarnir og skátahrópin. En hér var líka alvaran og andaktin, siðir og venjur á bak við tilgang og hugsjónir skátahreyfingarinnar. Og umfram allt, hér var vináttan. Já vináttan, þar hafði Atli Smári svo mikið að gefa, hann gaf og gaf og var örlátur. Svo liðu árin, alltaf var sama brosið, alltaf sama handtakið, alltaf sama faðmlagið. Engu skipti hvar og hvernig stóð á. Á skátamóti, í helgarútilegu í Lækjarbotnum eða vikudvöl í Fljótavík, já eða bara í stiganum í Glaumbæ. Alltaf Atli. Elsku vinurinn til margra áratuga, það er svo margs að minnast og margt að þakka. Allt frá Snorrabrautinni áður fyrr til síðustu ára, já alveg fram á allra síðustu stundu að verkefnunum við okkar kæra Gilwellskála að Úlfljótsvatni.

Hversu mikil gæfa er þetta bræðralag, þessi vinátta sem okkur er gefin.

Haukur Haraldsson.

Tendraðu lítið skátaljós

láttu það lýsa þér,

láttu það efla andans eld

og allt sem göfugt er.

Þá verður litla ljósið þitt

ljómandi stjarna skær,

lýsir lýð, alla tíð

nær og fjær.

(Hrefna Tynes)

Nú þegar komin er kveðjustund þá viljum við minnast Atla Smára Ingvarssonar. Atli er farinn heim eins og við skátar segjum.

Þegar nokkrir ungir drengir ákváðu að stofna Róver-skátasveitina Hirti R.S. fyrir um 60 árum sem taka skyldi við af hinu hefðbundna skátastarfi var Atli hvatamaður þess. Tilgangurinn var að efla ungu drengina til frekari dáða á lífsleiðinni. Atli var mikils metinn skátaforingi sem átti eftir að setja mark sitt á starfið. Starf hópsins var öflugt næstu árin sem einkenndist af eftirminnilegum fundum, útilegum og skátamótum.

Er árin liðu og ungu drengirnir höfðu stofnað sínar fjölskyldur fór hið hefðbundna skátastarf að dala og alvara lífsins tók við. Hópurinn hélt vel saman, vináttuböndin styrktust í áranna rás. Aldrei lét Atli sitt eftir liggja enda gott til hans að leita og ávallt var hann tilbúinn að hjálpa og gefa góð ráð. Allt frá upphafi hefur sá siður haldist að Hirtir R.S. hafa komið saman ár hvert ásamt mökum í byrjun maí og átt saman ógleymanlegar stundir. Einnig fórum við saman í ferðalög bæði innanlands og utan og er margs að minnast úr þeim ferðum. Innanlands var farið um óbyggðir þar sem gist var í fjallaskálum, eldaður góður matur og spjallað fram á nótt. Var Atli þá gjarnan hrókur alls fagnaðar með gítarinn og stýrði söngnum. Eftir því sem árin liðu var gistingin færð úr fjallaskálum í notalegra horf og alltaf var gaman. Þá eru ekki síður eftirminnilegar ferðir hópsins á erlendri grundu, þar má nefna ferð hópsins til Parísar er farin var í tilefni þess að 40 ár voru frá stofnun Hjarta sveitarinnar. Einnig má minnast ferða til Lissabon og ævintýrasiglingar um Miðjarðarhafið þar sem Atli naut sín vel.

Með Atla er genginn góður skáti og vinur sem verður sárt saknað í okkar hópi. Við yljum okkur við minningarnar um góðan félaga. Við sendum börnum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sofnar drótt, nálgast nótt,

sveipast kvöldroða himinn og sær.

Allt er hljótt, hvíldu rótt.

Guð er nær.

F.h. HJARTA R.S.,

Björn Vignir Björnsson.

Kveðja frá ds. Tvíburum

Atli var guðfaðir dróttskátasveitarinnar Tvíbura, er hann fékk stelpurnar í ds. Vegu og strákana í ds. Sjöstirninu til þess að mynda kynjablandaða dróttskátasveit í október 1967. Atli var með í sveitinni alla tíð, þó að Sturla Már og Fanney væru sveitarforingjar. Frá fyrstu tíð var Hellisheiðin okkar annað heimili, enda margir skátaskálar þar, Hengillinn, dalirnir, gönguleiðir og vörður. Að endingu varð Kútur okkar aðalskáli. Ferðirnar voru ógleymanlegar á þessum sterku mótunarárum unglinganna. Atli hélt okkur við skátafræðin, sá um kvöldvökur með Sturlu, kenndi okkur að virða náttúruna, heilsa Hellisheiðinni með því að kyssa verði hennar, virða og umgangast íslenska fánann og nota skátafræðin í samvinnu, leik og starfi. Það er ekki auðvelt að draga eitthvað eitt fram sem við Tvíburar gerðum með Atla. Minningarnar eru óteljandi og yndislegar, um ævintýrin í skátaheimilinu, um rútuferðir með Kjartani og Ingimari, frá Þrymheimum, Jötunheimum og Kúti á Hellisheiðinni, um Menntaskólaselið og ævintýrin þar, um fánaborgirnar og æfingar fyrir þær í Reykjavík, um tjaldferðir hingað og þangað um landið, tjaldbúðir á skátamótum, verkefni í næturleikjum, kvöldvökur, varðelda og sönginn. Minningar um Úlfljótsvatn og skátamót, þorrablótin, dansæfingar, Vísnavinakvöld og svo margt, margt fleira. Atli kynnti okkur fyrir amerískri þjóðlagatónlist. Woody Guthrie, The Kingston trio, Peter, Paul and Mary og fleiri. Bob Dylan og Johnny Cash fylgdu líka með. Svo þegar við fórum að fara sitt í hverja áttina, var Atli límið sem hélt stórum hópi tengdum við skátastarfið, sem hann alla tíð sýndi mikla hollustu. Seinustu árunum eyddi hann að stórum hluta á Úlfljótsvatni við uppbyggingu og viðhald. Atli hefur frá fyrstu stundu verið stór í lífi og samveru okkar allra. Sönn fyrirmynd í lífinu, en nú er hann farinn heim, eins og skátar segja.

Nú ertu farinn í ferðina heim,

til fundar við ókunna grund.

En lífið þitt allt, er lifandi þeim

er léku sér með þér um stund.

Sigtryggur.

Við kynntumst Atla og fjölskyldu fyrir rúmum 40 árum þegar við byggðum hús í Leirutanganum. Strax í byrjun varð Atli mikill leiðtogi í uppbyggingu botnlangans og ávallt tilbúinn að aðstoða nágranna sína. Á þessum mörgu árum í Leirutanga myndaðist einstök vinátta.

Þegar við bjuggum hvor á móti öðrum sköpuðust margar minningar, t.d. byggja bílskúra, sólpalla, grillveislur, skjóta saman upp flugeldum og endalaus samgangur á milli húsanna.

Það er skrítið að fá ekki reglulega hádegisheimsóknir frá þér, elsku vinur. Undanfarin ár hittumst við nær daglega í göngutúrum og góðu spjalli yfir kaffibolla. Þar voru heimsmálin rædd ásamt ýmsu öðru og þess má geta að Atli sagði oft frá því þegar hann ólst upp á Akureyri og kynnist skátastarfinu fyrst, flytur svo suður í íbúð með móður sinni á Kleppsveg og fór að sækja skátastarf í braggana við Snorrabraut. Hans ævistarf í skátunum hafði mikil áhrif á líf hans enda voru margar sögurnar sagðar.

Atli var vinamargur og það skiljum við vel því Atli reyndist okkur vel sem vinur og alltaf var hann boðinn og búinn að aðstoða okkur, t.d. að fara til Grundarfjarðar að smíða sólpall, setja saman húsgögn og varla var skrúfuð skrúfa nema Atli væri til ráðgjafar.

Góð vinátta myndaðist milli Reynis Smára og Ólafs Snorra. Atli fór til dæmis með þá drengina á skíði í Skálafell og ferð í Þórsmörk sem er Ólafi fersk í minni.

Síðustu ár kom Atli með okkur hjónum til Tenerife þrisvar og líkaði honum vel í sólinni með okkur, síðast núna í desember. Hann naut sín vel í þessum ferðum okkar.

Einstakar minningar sem munu lifa, kæri vinur.

Hvíl í friði, elsku vinur. Við munum sakna þín.

Við vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.

Vel sé þér, vinur,

þótt víkirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður,

æðra, eilífan

þú öðlast nú.

(Jónas Hallgrímsson)

Rafn og fjölskylda.

Það er aldrei hægt að gleyma því sem
skátalífið gaf,

þar er glóð sem lýsir innst í okkar sál.

Af minningum sem geymast er því
nóg að taka af,

fyrr en varir er tendrað skátabál.

Atli, foringinn okkar er farinn heim.

Sem ungir skátaforingjar þurftum við oft að leita ráða hjá honum. Ætíð tók hann okkur ljúfmannlega, bauð okkur inn, hlustaði og veitti góð ráð.

Atli þekkti ekki kynslóðabil og aldrei fundum við fyrir ungum aldri, heldur var okkur tekið sem jafningjum og virðing borin fyrir skoðunum okkar. Atli var ráðagóður og velviljaður, það var gott að leita til hans.

Við höfum átt samleið í yfir 50 ár og alltaf var ánægjulegt að hitta hann, þótt lengra hafi liðið á milli vinafunda hin síðari ár.

Atli var virkur í skátastarfi allt þar til hann lést. Síðustu ár hefur hann ásamt hópi eldri skáta sinnt verkefnum í Gilwell-skála skáta á Úlfljótsvatni. Þar hefur verið hægt að hitta hann flestar helgar.

Að leiðarlokum þökkum við þá virðingu og vináttu sem Atli sýndi okkur frá fyrstu tíð. Við sendum fjölskyldu Atla innilegar samúðarkveðjur.

Já, mörg undurfögur kvöld

þar sem gleðin fór með völd,

þar sem vinahópur tengdi vinabönd,

þar sem friður ríkti og fögnuður

við eldsins undrayl,

þar var dýrlegt að vera bara til.

(Hrefna Tynes)

Með skátakveðju,

Draumsóleyjarnar

Sigrún, Rut og Ásta.

Minning er oft lítið annað en brotabrot og skýjum slungnar myndir. En liðinn tími er þó stundum skýr, bjartur og altekur okkur eins og voldug hljómkviða.

Oddfellowreglan byggði upp og gaf ríkinu líknardeild Landspítalans með því fororði að hún yrði aldrei skorin niður. Þá var niðurskurður hagfræðilausn á Íslandi. En loforðið stendur.

Atli Smári studdi þá hugmynd mína, að stofna drengjakór Arabræðra, fyrir margt löngu.

Eitt fyrsta verkefni þessa litla kórs voru jólatónleikar fyrir skjólstæðinga líknardeildar Landspítalans á Þorláksmessu eitt árið. Viðtökur voru langt umfram væntingar. Að tónleikum loknum vék sér að okkur Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir og pantaði jólasvein í húsið á aðfangadag. Slíkri konu var ekki hægt að neita, enda lofaði Atli Smári því, án þess að blikna, að senda Hurðaskelli.

Valgerður varð himinglöð og Atli Smári brosti breitt. Á þeirri stundu skildi ég lífsgleði Atla Smára og félagslega sköpunargáfu hans. Í djasstónlist kallast slíkt „snarstefjun“.

En hver skyldi hafa komið böndum á þessa galgopa, sem datt í hug að hemja raddbönd þessara pilta í samsöng?

Hún hét Guðrún Ásbjörnsdóttir. Ég man ekki betur en að Atli Smári hafi stungið upp á henni og engum dottið í hug að andmæla.

Dóttir okkar hjóna, Ingunn, mætti oft á æfingar Söng-Ara með þverflautuna, lék einstakar raddir að beiðni Guðrúnar og studdi söngvarana, m.a. með undirleik og raddstoð á jónatónleikum í stúkunni. Eftir á sagði Atli Smári: ,,Við erum frábærir þegar þú spilar okkur saman.“ Þá brosti Guðrún og kinkaði kolli. Barnið fann hlýhug og traust frá þessum manni og dáði hann og virti alla tíð.

Guðrún var glæsileg, fjölgreind, heillandi, hæfileikarík og án listrænna fordóma. A.m.k. vildi hún hjálpa okkur að ná samsöng og hljómi.

Hún hlýtur að hafa elskað okkur, því hún kenndi okkur og leiðbeindi hvar og hvenær sem færi gafst, meira að segja á stórglæsilegu heimil þeira hjóna í Garðabæ. En þá var enginn heima. Vorum við svona lélegir? ,,Alls ekki,“ sagði Atli Smári. ,,Þessi blóm þurfa skjól, umhyggju og glæsilega konu.“

Þökk sé Guðrúnu Ásbjörnsdóttur, Soffíusystur, f. 25. jan. 1945, d. 13. mai 2007.

Þá sagði Atli Smári: „Hún var okkar kona. Þetta er búið.“ Það sagði sig sjálft, enda kom ekki til greina að halda fram hjá slíkri konu. Hún var því fyrsti og eini kórstjórinn okkar.

Í vináttu, kærleika og sannleika.

Haraldur G. Blöndal, María Aldís

Kristinsdóttir og Ingunn M. Blöndal.