Kókaínmálið Dómarinn var ekki einn um að kæra sig mátulega um áhuga fjölmiðla á réttarhaldinu í héraðsdómi.
Kókaínmálið Dómarinn var ekki einn um að kæra sig mátulega um áhuga fjölmiðla á réttarhaldinu í héraðsdómi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Við aðalmeðferð enn eins „Stóra kókaínsmálsins“ á dögunum tók dómarinn, Sigríður Elsa Kjartansdóttir, það fram við þinghaldið, að fjölmiðlabann ríkti þar til öllum skýrslutökum væri lokið í málinu. Vísaði hún þar til 1. málsgreinar 11. greinar laga um meðferð sakamála, sem glöggva má sig á hér til hægri.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Við aðalmeðferð enn eins „Stóra kókaínsmálsins“ á dögunum tók dómarinn, Sigríður Elsa Kjartansdóttir, það fram við þinghaldið, að fjölmiðlabann ríkti þar til öllum skýrslutökum væri lokið í málinu. Vísaði hún þar til 1. málsgreinar 11. greinar laga um meðferð sakamála, sem glöggva má sig á hér til hægri.

Fjölmiðlar létu gott heita, þó skýrslutaka tæki langan tíma, m.a. þar sem síðustu vitnin, hollenskir tollþjónar, létu á sér standa.

Vísi brast þolinmæðin 3. mars og sagði frétt af málinu, en brotið á fjölmiðlabanninu var rökstutt með því að dómarinn hefði oftúlkað lögin. Þau heimiluðu að ekki mætti greina frá því, sem fram kæmi í skýrslutöku fyrir dómi fyrr en að henni lokinni. Það þýddi ekki að ekki mætti segja neinar fréttir fyrr en síðustu skýrslutökunni væri lokið.

7. mars kvaddi dómarinn blaðamenn Vísis á sinn fund, þar sem þeir og lögmaður útgefandans gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum, en 10. mars sendi dómarinn frá sér tölvupóst þess efnis að við svo búið yrði ekkert frekar aðhafst.

Bar því enginn kostnað af málinu, nema helst aðrir fjölmiðlar, sem virt höfðu bann dómarans og orðið af forvitnilegum fréttum fyrir vikið.

Blaðamannafélagið sendi hins vegar bréf til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og taldi lagatúlkun dómarans stangast á við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár.

Ekkert að lögunum

Í svari ráðherra sagði að bréfið yrði tekið til skoðunar og að framkvæmd laganna yrði „auðvitað áfram til umfjöllunar eftir atvikum“. Sagði svo fremur stuttaralega að eins og sakir stæðu væru engin sérstök áform uppi um endurskoðun á lögum um meðferð sakamála.

Lögmenn, sem Morgunblaðið ræddi við, telja að í því felist kurteisleg ábending um að dómarinn hafi hlaupið á sig og raunar sé óbeina viðurkenningu á því einnig að finna í bréfi dómarans.

Mistökin hafi legið í því að dómarinn hafi „skautað milli málsgreina“ og lagt á tímabundið bann líkt og heimilað er í 2. málsgrein, en vísað til 1. málsgreinar. Í fyrri málsgreininni sé eintalan á sakborningi og skýrslutöku skýr, svo það bann vari ekki lengur en meðan á þeirri tilteknu skýrslutöku stendur.

Hafi dómari óttast sakarspjöll eða veruleg óþægindi annarra en sakborninga af fréttaflutningi og því viljað stöðva fréttaflutning af skýrslutökum (í fleirtölu) án þess að loka réttarhaldinu, þá hefði hann þurft að vísa til 2. málsgreinar, setja tímamörk, skrá ákvörðunina í þingbók og kynna hana viðstöddum.

Fjölmiðlar mega hins vegar enn bíða afdráttarlauss fordæmis.

Sakamálalög

Skautað milli málsgreina

Í 11. gr. laga um meðferð sakamála er fjallað um takmarkanir á fjölmiðlun úr dómssal, en dómarinn virðist hafa skautað milli tveggja málsgreina.

1. MÁLSGREIN

„Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur.“

2. MÁLSGREIN

„Óheimilt er að skýra frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Þótt þinghald sé háð í heyranda hljóði getur dómari bannað að skýrt verði frá því sem gerist þar ef ætla má að frásögn geti leitt til sakarspjalla eða valdið vandamönnum sakbornings, brotaþola eða öðrum sem ekki eru fyrir sökum hafðir þjáningum eða verulegum óþægindum. Ákvörðun um slíkt bann má vera tímabundin. Skal dómari skrá hana í þingbók og kynna hana viðstöddum.“

Höf.: Andrés Magnússon