Varnarbandalag Ástralíu, Bretlands og Bandaríkjanna, AUKUS, sem stofnsett var í september 2021, fékk nánari undirstöður fyrr í vikunni þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti, Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, og Rishi Sunak, forsætisráðherra…

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Varnarbandalag Ástralíu, Bretlands og Bandaríkjanna, AUKUS, sem stofnsett var í september 2021, fékk nánari undirstöður fyrr í vikunni þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti, Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hittust í San Diego á mánudaginn og staðfestu þar formlega hvernig bandalaginu ætti að vera háttað.

Ríkin þrjú hafa raunar verið formlegir bandamenn í um sjö áratugi í gegnum nokkur önnur varnarbandalög, en AUKUS er ætlað að undirstrika áhuga Breta og Bandaríkjamanna á því að treysta varnir sínar á Indlands- og Kyrrahafi, á sama tíma og Ástralía tengist báðum ríkjum enn frekar með því að koma sér upp kjarnorkuknúnum kafbátum.

Bandaríkjamenn og Bretar koma sameiginlega að því verkefni, en Bandaríkin höfðu áður einungis deilt kunnáttu sinni við smíði kjarnorkukafbáta með Bretum á sjöunda áratug 20. aldarinnar. Helsti munurinn nú liggur í því að Bretar voru þá þegar kjarnorkuveldi, á meðan Ástralar hafa lagt sérstaka áherslu á það að þeir hafi engan áhuga á að nýta sér kjarnorkutæknina sem mun fylgja kafbátunum til þess að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Stefnt er þá að því að Ástralía verði sjöunda ríkið sem hafi yfir kjarnorkuknúnum kafbátum að ráða, og það fyrsta sem ræður ekki sjálft yfir kjarnorkuvopnum. Biden tók sérstaklega fram að kafbátarnir áströlsku yrðu ekki búnir slíkum vopnum, enda verður hlutverk þeirra fyrst og fremst að sinna eftirliti með lögsögu Ástralíu.

Stórefla skipakost Ástrala

AUKUS-samkomulagið olli nokkru fjaðrafoki þegar tilkynnt var um það í september 2021, þar sem Ástralar höfðu áður gert sérstakan samning við Frakka um kaup á svonefndum díselknúnum kafbátum. Kölluðu Frakkar sendiherra sína heim frá Bandaríkjunum og Ástralíu um stund í mótmælaskyni, en samkomulagið var metið á um 35 milljarða evra, eða sem nemur um 5.260 milljörðum íslenskra króna. Samþykktu Ástralar svo í júní 2022 að greiða Frökkum 555 milljónir evra, eða um 8,3 milljarða íslenskra króna, í bætur fyrir að hafa hætt við samkomulagið.

Ástralar töldu sig þó hafa gildar ástæður til þess að slíta samkomulaginu, þar sem kjarnorkuknúnir kafbátar hafa ýmsa kosti umfram þá díselknúnu. Kjarnorkan gerir kafbátum til dæmis kleift að vera í kafi nánast eins lengi og þeir þurfa, á meðan díselknúnir kafbátar þurfa að fara á nokkurra daga fresti að yfirborði sjávar til þess að hlaða rafhlöðurnar sem þeir ganga fyrir meðan þeir eru neðansjávar.

Kjarnorkuknúnir kafbátar eru einnig fljótari í förum en hinir díselknúnu, og drægi þeirra frá heimahöfn er mun meira, þar sem þeir þurfa ekki að snúa til baka til þess að fá meira eldsneyti. Kostir kjarnorkuknúinna kafbáta umfram hina eru því augljósir, og vega að mestu leyti upp eina ókostinn, sem er að rafhlaðan í díselknúnu bátunum þýðir að þeir eru mun hljóðlátari neðansjávar en þeir kjarnorkuknúnu.

Ástralar munu því greiða upphæð sem nemur allt að 245 milljörðum bandaríkjadala, eða um 35.000 milljarða íslenska króna, á næstu þrjátíu árum til þess að tryggja sér þrjá til fimm kjarnorkukafbáta frá Bandaríkjunum af Virginíu-gerð, og síðar til þess að láta smíða ásamt Bretum allt að átta nýja kafbáta af AUKUS-gerð, sem verða hannaðir sérstaklega fyrir báðar þjóðir.

AUKUS-kafbátarnir munu nýta breska kafbátahönnun ásamt bandarískri tækni, og munu kafbátarnir verða búnir eldflaugum á þilfari sínu, sem hægt verður að beita gegn skotmörkum á sjó og landi. Kafbátarnir nýju munu leysa af hólmi núverandi skipakost Ástrala, en þeir hafa nú sex díselknúna kafbáta, sem komnir eru til ára sinna.

Þar sem það mun taka upp undir áratug áður en fyrstu kafbátarnir berast, skuldbinda bæði Bretar og Bandaríkjamenn sig á móti til þess að senda sína eigin kjarnorkukafbáta og vera með viðveru á flotastöðinni í Stirling frá og með árinu 2027.

Áhyggjur af NPT

AUKUS felur því í sér umtalsverða aukningu fyrir Ástralíu, ekki bara í varnargetu, heldur einnig í framlögum þeirra til varnarmála næstu árin. Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, sagði enda á mánudagskvöldið að um væri að ræða stærstu einstöku fjárfestingu sem Ástralía hefði varið til varnarmála sinna, en kafbátarnir kalla að auki á sérstaka þjálfun fyrir áhafnir þeirra. Sú þjálfun mun fara fram utan Ástralíu, og er það gert af virðingu við samninginn gegn dreifingu kjarnorkuvopna, NPT, sem öll ríkin þrjú eru aðilar að.

Kjarnaofnarnir í kafbátana verða innsiglaðir við smíði þeirra, og mun ekki þurfa að rjúfa það innsigli svo lengi sem þeir verða starfræktir. Þá mun Ástralía gangast undir ýmsar kvaðir til þess að tryggja að efni, sem hægt sé að nota til smíði kjarnorkuvopna, séu ekki undir höndum þeirra á nokkrum tíma.

Bretar og Bandaríkjamenn áttu í viðræðum við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina IAEA vegna samkomulagsins, þar sem um er að ræða viðkvæma tækni. Stofnunin reyndist hins vegar ófús til þess að víkja frá skilyrðum sínum um að hún gæti sent eftirlitsmenn án viðvörunar til Ástralíu, og ákváðu ríkin þrjú því að vísa sérstaklega til undanþáguákvæðis sem heimilar Áströlum að nýta sér kjarnorku í hernaðarskyni, svo fremi sem hún tengist ekki kjarnorkuvopnum.

Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, hefur lýst því yfir að hann telji að ríkin þrjú séu sammála um að tryggja öryggi sem mest, og að þau hefðu verið mjög gagnsæ og virk í samskiptum sínum við stofnunina.

Engu að síður hefur samkomulagið kallað fram gagnrýni frá ýmsum friðarsamtökum, sem telja að með beitingu undanþágunnar sé öðrum kjarnorkuveldum heims veitt afsökun til þess að dreifa kjarnorkutækni til þriðju ríkja, án þess að IAEA geti rönd við reist.

Einkum beint gegn Kína

En hver er tilgangur AUKUS-bandalagsins? Sérfræðingar í varnar- og öryggismálum eru á einu máli um að því sé einkum beint gegn vaxandi uppgangi Kínverja á Kyrrahafi, en þeir hafa varið miklu púðri á undanförnum árum til þess að uppfæra flotagetu sína.

Þá hafa þeir sett fram víðtækar yfirráðakröfur yfir Suður-Kínahafi, sem og ítrekað að þeir áskilji sér rétt til þess að beita hervaldi gegn eyjunni Taívan, sem Kínverjar segja að tilheyri sér.

Það segir enda sína sögu að kínversk stjórnvöld hafa ekki dregið af sér í gagnrýni sinni á AUKUS-bandalagið, og vöruðu Kínverjar við því á þriðjudaginn að það gæti kallað á vígbúnaðarkapphlaup á Kyrrahafi. Þá sögðu Kínverjar AUKUS auka hættuna á dreifingu kjarnorkuvopna og brjóta gegn NPT-samningum.

Rússar, sem hafa sóst eftir nánara sambandi við Kína, gagnrýndu samkomulagið sömuleiðis, og sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, það kalla á „mörg ár af ágreiningi“ á Kyrrahafssvæðinu.

Gagnrýnin er þó ekki einskorðuð við gömlu einræðisríkin, heldur hafa einnig heyrst háværar raddir í Ástralíu um að samkomulagið sé of kostnaðarsamt, auk þess sem að það auki frekar við hættuna á átökum á milli vesturveldanna og Kína en dragi úr.

Þannig varaði Paul Keating, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, við því í vikunni, að með AUKUS yrði Ástralía skuldbundin Bandaríkjunum til að taka þátt í stríði gegn Kína. Sérfræðingar í varnarmálum Ástralíu hafa hins vegar bent á að ef til átaka kæmi, t.d. með innrás Kína í Taívan, yrði hvort eð er erfitt fyrir Ástralíu að sitja hjá.