Ríkið á ekkert með að þvinga sveitarfélög til sameiningar eða skattahækkana

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, vakti í grein hér í blaðinu í gær athygli á hættulegum hugmyndum sem er að finna í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er um að ræða skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi um breytingar á lögum um sjóðinn.

Hugmyndirnar ganga annars vegar út á að þvinga sveitarfélög til sameiningar, en eins og Óli Björn bendir á geta verið gild rök fyrir sameiningu eða auknu samstarfi sveitarfélaga. Afleitur rekstur Reykjavíkurborgar sýnir þó glöggt að slíkt getur aldrei orðið algild regla og þvinganir eiga því alls ekki við.

Hins vegar er hugmynd um að freista þess að þvinga sveitarfélög til að leggja á hámarksútsvar með því að draga „vannýtt“ útsvar frá framlögum úr Jöfnunarsjóði. Eins og Óli Björn bendir á er þetta í ætt við þær hugmyndir að hið opinbera eigi í raun allar þær tekjur sem fólk aflar sér og allt sem það tekur ekki til sín með sköttum sé í raun eftirgjöf tekna af hálfu hins opinbera.

Skattheimta hér á landi er þegar mjög mikil og útgjöld hins opinbera sömuleiðis. Fráleitt er að ríkið eigi að taka að sér að svipta sveitarfélögin þeirri ábyrgð í rekstrinum sem fylgir því að reyna að halda sköttum hóflegum. Enn eru nokkur sveitarfélög á Íslandi sem sýna þá ábyrgð að halda útsvari ekki í hámarki. Fráleitt er að ríkið hlutist til um að þeim fækki.