— Morgunblaðið/sisi
Vegagerðin hefur boðið út gerð Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík. Þessi tenging milli sveitarfélaganna tveggja er talin mikil samgöngubót sem muni létta verulega á umferð um Vatnsendaveg

Vegagerðin hefur boðið út gerð Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík. Þessi tenging milli sveitarfélaganna tveggja er talin mikil samgöngubót sem muni létta verulega á umferð um Vatnsendaveg.

Um er að ræða 1,3 kílómetra langan veg með tveimur hringtorgum, vegbrú yfir Breiðholtsbraut og einum ljósastýrðum vegamótum ásamt breikkun Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Vatnsendahvarfi. Í verkinu eru tvenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi umferð, stofnstígar og stígatengingar. Auk þess tilheyrir verkinu lagning nýrrar hitaveituæðar Veitna, Suðuræðar II. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Veitna og Mílu.

Vegagerðin sér um útboðið og hefur umsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa. Heildarbreidd Arnarnesvegar verður 22 metrar (öxl í öxl) þar sem rúmast 2+2 akreinar.

Vakin er athygli á að í þessu útboði verður Arnarnesvegur lagður í 1+1 útfærslu, þótt skorið verði fyrir veginum í fulla breidd. Hámarkshraði á veginum verður 60 km/klst.

Verkinu skal að fullu lokið 1. ágúst 2026. Tilboðum skal skilað til Vegagerðarinnar í síðasta lagi þriðjudaginn 18. apríl nk. sisi@mbl.is