NATO-aðild Niinistö Finnlandsforseti fundaði með Ulf Kristersson um varnarmál í febrúar sl.
NATO-aðild Niinistö Finnlandsforseti fundaði með Ulf Kristersson um varnarmál í febrúar sl. — AFP/Jonathan Nackstrand
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, greindi frá því í gær að tyrknesk stjórnvöld hefðu boðið honum til Istanbúl í vikunni, en Recep Tayiip Erdogan mun tilkynna ákvörðun Tyrklands varðandi umsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu á föstudaginn

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, greindi frá því í gær að tyrknesk stjórnvöld hefðu boðið honum til Istanbúl í vikunni, en Recep Tayiip Erdogan mun tilkynna ákvörðun Tyrklands varðandi umsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu á föstudaginn.

Sagði Niinistö að hann hefði þekkst boðið, og fer hann til Tyrklands í dag, en Erdogan sagði fyrr um daginn að Tyrkland myndi uppfylla skyldu sína og efna loforð sín varðandi NATO-aðild Finna. Tyrkneska þingið mun í kjölfarið þurfa að samþykkja aðildarumsókn Finnlands formlega, og mun þingið líklega gera það fyrir lok apríl, þegar því verður slitið.

Finnar og Svíar sóttu sameiginlega um aðild að bandalaginu í maí á síðasta ári, og stóðu vonir til þess að ríkin tvö myndu verða samstiga á vegferð sinni í NATO. Tyrknesk stjórnvöld hafa hins vegar lýst yfir vonbrigðum sínum með Svía, og sagt að þeir hafi ekki uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart Tyrkjum.

Þá hafa ýmis atvik orðið til þess að setja stein í götu Svía, og kvörtuðu Tyrkir meðal annars undan því þegar kveikt var í kóraninum á mótmælum fyrir framan tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi í janúar. Frestuðu þeir þá viðræðum ríkjanna þriggja og hófust þær fyrst á ný í síðustu viku. Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, sagði hins vegar í fyrradag að hann teldi allar líkur á því að Finnar myndu verða á undan Svíum inn í Atlantshafsbandalagið. Sagði Kristersson þó spurninguna snúast um hvenær, en ekki hvort Svíþjóð myndi verða hluti af bandalaginu.

Niinistö sagði í gær að hann hefði rætt við Kristersson um málið, og hann myndi áfram mæla með því að Svíþjóð yrði einnig að bandalagsríki, þar sem það skipti miklu máli fyrir öryggi Finnlands.